Fíknin hafði bein áhrif á líf Óðins

Tinna Guðrún og Hlynur Kristnn Rúnarsson stjórnendur Það er von …
Tinna Guðrún og Hlynur Kristnn Rúnarsson stjórnendur Það er von fengu Óðinn Örn í heimsókn.

Óðinn Örn er 17 ára gamall aðstandandi sem hefur upplifað fíknsjúkdóminn í gegnum bræður sína. Pabbi hans er einnig alkóhólisti sem hefur verið í bata frá því áður en Óðinn fæddist. Hann er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Það er von.

Í hlaðvarpsþættinum talar Óðinn opinskátt um það hvernig fíknsjúkdómur bróður hans hefur haft bein áhrif á líf hans og fjölskyldu. „Ég man fyrst eftir því þegar ég var svona fimm ára, þá heyri ég læti frammi þegar ég átti að vera sofnaður. Ég fór fram og sá bróður minn taka mömmu hálstaki,“ segir Óðinn. Hann segir að hann hafi ekki skilið aðstæðurnar á þessum aldri og ekki hugsað meðvitað um þetta aftur fyrr en árið 2019, þá kom almennilega í ljós að bróðir hans var kókaínfíkill eins og hann orðar það.

„Hann var komandi heim í fráhvörfum,“ segir Óðinn þegar hann lýsir hvernig ástandið var árið 2019. Hann talar um að bróðir hans hafi verið reiður, erfiður og ráðist á sig og aðra fjölskyldumeðlimi í geðshræringu sem fylgdi fráhvörfunum.

Óðinn talar um að það sé minnisstætt þegar bróðir hans fór í fyrstu innlögnina á Vog, það hafi verið erfitt að sjá hann illa útlítandi, útkeyrðan, grannan og ræfilslegan. „Ég hélt að þetta væri bara búið eftir það.“

Þegar stóri bróðir flutti heim eftir meðferð þurfti Óðinn að víkja og sofa á dýnu inni hjá foreldrum sínum því bróðir hans þurfti herbergið. Óðinn talar um að hafa oft liðið eins og Palla sem var einn í heiminum því líf foreldra hans snerist um bróður hans og sveiflurnar í kringum neysluna. „Mamma var auðvitað í meðvirknikasti alltaf, gat ekki sótt mig í skólann því hún þurfti að hvíla sig vegna þess að þetta tók allt svo mikinn toll,“ segir Óðinn. Óðinn hefur fulla trú á því að bróðir hans nái bata í meðferðinni sem hann er í núna. Hann hlakkar til að verja tíma með honum. 

Óðinn segist hafa upplifað sig út undan og segist vera einn af fáum sem hafi ekki prófað kannabis. Hann eigi fullt af vinum sem reykja kannabis og taka spítt og halda að það sé töff. Hann vill að það sé skýrt: það er ekki töff að nota fíkniefni. Það sé sorglegt og enn sorglegra að monta sig af því eða hafa það viðhorf að það sé eitthvað til að upphefja sig með. 

Óðinn hefur, þrátt fyrir ungan aldur, upplifað margt sem tengist neyslu í gegnum ástvini en hann hefur bæði misst ástvin vegna neyslunnar og af slysförum eftir að neyslu lauk.
Hann tók afstöðu gegn því að nota hugbreytandi efni sjálfur vegna þess að hann veit hverjar afleiðingarnar geta verið. Í hlaðvarpsþættinum segir hann frá nokkrum atvikum tengdum neysluheimi bróður síns sem hann þurfti að horfa upp á.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is