Sigraðist á krabbameini og hljóp 106 kílómetra

Rósa Björg segir frá reynslu sinni af krabbameini í forsíðuviðtali …
Rósa Björg segir frá reynslu sinni af krabbameini í forsíðuviðtali Vikunnar. Ljósmynd/Vikan

Rósa Björg Karlsdóttir hljóp 106 kílómetra í Hengill Ultra-utanvegahlaupinu í byrjun júní. Að klára slíka vegalengd er ekki á allra færi og afrek Rósu verður enn merkilegra í ljósi þess að 2009 greindist hún með illkynja krabbamein. Hún glímir enn við afleiðingar krabbameinsins en er æðrulaus gagnvart hlutskipti sínu og segir náttúruhlaup og nýjar áskoranir gefa henni tilgang. Rósa prýðir forsíðu Vikunnar. 

„Það þýðir ekki að vera með eitthvað tabú, segjast hafa fengið krabbamein, en vilja ekki segja hvar það var. Það þarf að ræða um endaþarm og ristilskimanir. Líklega er þetta kennarinn í mér sem vill fræða fólk.“

Endaþarmur Rósu var svo illa farinn af krabbameini að hún vissi að í fyrstu aðgerðinni myndi hún fá stóma. „Ég þarf að nota salerni fyrir fatlaða, ég get ekki notað klósett nema sé vaskur inni á því og ég þarf svæði til að athafna mig. Ég hef lent í uppákomum þar sem fólk hraunar yfir mig þegar ég nota salerni fyrir fatlaða og í seinni tíð svara ég bara: „fötlun er ekki alltaf sýnileg.“

Ég þarf ekki að útskýra það eða lyfta upp bolnum og sýna örin eða stómað. Aðgát skal hafa í nærveru sálar eins og máltækið segir, við vitum aldrei hvað náunginn gengur í gegnum, og það stendur ekki á enninu á mér að ég sé með stóma. Við getum verið svolítið grimm við hvert annað og það er eitthvað sem mig langar alltaf svo mikið að breyta,“ segir Rósa, sem er sátt við stómað, segir það ekkert tabú og vill gera sitt besta til að fræða fólk.

„Þegar ég fer í sund eru börn ófeimin að spyrja hvað stómað er meðan fullorðna fólkið verður oft óöruggara og ég hef fengið spurninguna; „finnst þér sniðugt að fara með svona poka í sund?“ Ég er ófeimin við að bjóða fólki að spyrja mig um stómað þegar ég sé það horfa. Ég sat fyrir á plakati hjá Krafti með stómað. Það þýðir ekki að vera með eitthvað tabú, segjast hafa fengið krabbamein, en vilja ekki segja hvar það var. Það þarf að ræða um endaþarm og ristilskimanir. Líklega er þetta kennarinn í mér sem vill fræða fólk.“

Ítarlegt viðtal við Rósu Björg má lesa í Vikunni sem fæst á næsta sölustað eða í áskrift.

mbl.is