Setti tappann í flöskuna eftir dólgslæti

Megan Fox.
Megan Fox. AFP

Hollywoodstjarnan Megan Fox greindi frá ástæðu þess að hún ákvað að hætta að drekka áfengi árið 2009. Stjarnan drakk allt of mikið á Golden Globe-verðlaunahátíðinni fyrir 11 árum. Hún var meðal annars með læti á rauða dreglinum.  

Fox rifjaði upp hátíðina, kjólinn og hárgreiðsluna í myndskeiði Who What Wear. Hún sat á borði með leikkonunni Blake Lively og Jonas-bræðrunum og drakk allt of mikið af Moët-kampavíni að eigin sögn. „Ég drakk allt of mörg glös,“ sagði Fox. „Ég var með dólgslæti og sagði alls konar bull sem ég hefði ekki átt að segja. Ég held ég hafi komist í hellings vandræði fyrir það sem ég sagði á rauða dreglinum. Ég man það ekki en ég veit að ég gerði það. Þið getið leitað að því.“  

Á vef E! kemur fram að Fox hafi meðal annars haldið því fram að hún væri tvífari bandaríska leikarans Alans Alda. Hún talaði einnig um brjóst leikkonunnar Sölmu Hayek. Fox var spurð út í þáverandi unnusta sinn, leikarann Brian Austin Green. „Hann vill ekki vera hér. Hann vill ekki koma með mér. Hann er maður. Hann er með egó,“ sagði Fox á sínum tíma. 

Hér fyrir neðan má sjá Megan Fox rifja upp atvikið. 

mbl.is