„Besta sem ég hef gert er að verða edrú“

Enska söngkonan Lily Allen hélt upp á tveggja ára edrú …
Enska söngkonan Lily Allen hélt upp á tveggja ára edrú afmælið sitt á dögunum AFP

Enska söngkonan Lily Allen fagnaði tveggja ára edrúmennsku á dögunum og sendi skilaboð á Instagram til aðdáenda sinna um að hætta nota eiturlyf og áfengi því það væri besta ákvörðun sem hún hefði tekið. 

Allen sló í gegn um miðbik fyrsta áratugar 21. aldarinnar þegar hún gaf út breiðskífuna Alright, Still, það var svo smáskífan Smile sem kom henni á topp vinsældalista um allan heim. Söngkonan átti hins vegar erfitt uppdráttar á síðasta áratug.

Allen hefur áður tjáð sig opinberlega um neyslu sína; hvernig hún var háð eiturlyfjum, áfengi og sígarettum í gegnum erfiðasta tímabil neyslu sinnar. Í vikunni birti hún mynd af sér á instagram þar sem hún klæðist svörtum ermalausum sumarkjól með litlu a-pilsi.

„Tvö ár í dag án fíkniefna og áfengis! Að verða þurr er það BESTA sem ég hef gert og ég hef gert fullt af mjög svölum hlutum í lífi mínu. Komdu og sjáðu mig í leikritinu sem ég hef verið að vinna að,“ skrifaði Allen við myndina.

Í dag er hún gift leikaranum David Harbour sem er þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Stranger Things sem sýndir eru á streymisveitunni Netflix.

mbl.is