Binni Glee verður fyrir aðkasti vegna holdafars síns

Brynjar Steinn opnaði sig á Twitter í gær.
Brynjar Steinn opnaði sig á Twitter í gær. Skjáskot/Instagram

Áhrifavaldurinn og raunveruleikastjarnan Brynjar Steinn Gylfason, betur þekktur sem Binni Glee, opnaði sig um þá fitufordóma sem hann verður fyrir. Brynjar segir meðlimi í fjölskyldu sinni og aðra í samfélaginu sýna sér mikla fordóma vegna holdafars. Brynjar glímir við matarfíkn og hefur bæði þyngst og lést þau ár sem hann hefur verið í sviðsljósinu. 

Brynjar opnaði sig í þræði á Twitter í gær og gaf Smartlandi góðfúslegt leyfi til að vitna í færsluna. Brynjar vakti fyrst athygli á Snapchat fyrir nokkrum árum og hefur síðan þá fært sig yfir á Instagram. Hann er í raunveruleikaþáttunum Æði sem hafa notið mikilla vinsælda. 

„Ég er svo „fkn“ þreyttur á fitufordómum sem ég fæ í lífinu frá báðum fjölskyldum mínum og öðrum. Það er svo margt sem spilar inn í eins og t.d. matarfíkn sem ég hef dílað við í mörg ár og svo þunglyndi,“ skrifar Brynjar. 

Hann segist hafa þyngst um 30 kíló síðan hann flutti suður til Reykjavíkur síðastliðið vor. Matarfíknin hafi komið mjög fljótt og hann orðið mjög þunglyndur. Árið 2019 ákvað Brynjar að prófa ketómataræðið sem felur í sér að borða aðeins fitu og prótín og taka út kolvetni. Hann náði miklum árangri á mataræðinu og missti 50 kíló á einu ári

„[Mér] finnst þetta bara svo leiðinlegt því það lætur mér líða enn verr og allt sem ég var búinn að afreka í þyngdartapinu fór í ruslið. Ég veit alveg að sumir eru að reyna að hjálpa en það er hægt að segja hlutina öðruvísi,“ skrifar Brynjar. 

Hann segir frá því að móðir hans hafi sett inn mynd af honum á samfélagsmiðil og þar hafi frænka hans gert athugasemd um holdafar. Hún skrifaði að Brynjar væri svo feitur að móðir hans þyrfti að gera eitthvað í því.

„Mér var einu sinni sama þegar fólk var að drulla yfir ketó en það var bókstaflega það eina sem hélt mér gangandi, lét mér líða vel og hjálpaði við matarfíknina, en svo voru auðvitað nokkrir sem eyðilögðu það fyrir mér og núna líður mér 100% verr. Ætla aldrei að hlusta á fólk aftur,“ segir Brynjar.

Að lokum segist hann gera sér grein fyrir því að hann þurfi hjálp við að takast á við þunglyndið og matarfíknina. „Annars líður mér aðeins betur í dag og er byrjaður aftur á ketó og ætla að vinna í mínum málum. Ég gat það einu sinni og ég get það aftur.“

Þráður hans hefur notið mikillar athygli og fallegum kveðjum hefur rignt yfir Brynjar. Hlaðvarpsstjarnan Edda Falak vísaði til dæmis í eitt tístið frá Brynjari og skrifaði að feitt fólk þyrfti ekki að gera neitt í sínum málum, fitusmánun væri vandamálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál