„Í sjö daga vil ég að þú hættir að kvarta“

Linda Pétursdóttir lífsþjálfi hjálpar konum við að léttast.
Linda Pétursdóttir lífsþjálfi hjálpar konum við að léttast. mb.is/

Hlaðvarp Lindu Pét­urs­dótt­ur er vinsælt um þessar mundir og fór þrítugasti og áttundi þáttur þess í loftið í vikunni. Í þætt­in­um fjallar Linda um sjálfsmyndina og kvörtunarkúrinn. 

„Síðastliðnar vikur og mánuði hef ég legið yfir efni og stúderað allt er viðkemur sjálfsmyndinni. Þetta er reyndar efni sem ég hef haft áhuga á mun lengur en það og hef lengi grúskað í. Ég trúi því að sjálfsmyndin skapi alla umgjörð lífs okkar og með það að leiðarljósi langar mig að fókusera á sjálfsmyndina. 

Ég hef skipt henni upp í þrjá meginstólpa sem við ætlum að vinna með, en þeir eru: Hugarfar. Vellíðan. Stíll og umhverfi. Allir þessir þættir eru gríðarlega mikilvægir þegar við erum að vinna í sjálfsvinnu og leggja grunninn að því að bæta líf okkar. Mikilvægast er að byrja á því að vinna með hugarfarið.

Orð eru orka. Hvernig við tölum við okkur sjálfar og val okkar á orðum. Orð hafa mátt til að fylla okkur andagift, örva okkur og hvetja- en þau hafa einnig mátt til þess að hafa þveröfug áhrif.

Að þessu sögðu, vil hvetja ykkur til þess að fókusera á samtalið sem þig eigið við ykkur sjálfar og fara að velja orð sem þjóna ykkur. Það er gríðarlegur máttur í orðum þannig að veljum vel samtalið sem við eigum við okkur sjálfar. Við ættum að tala betur við okkur sjálfar en nokkra aðra manneskju.

Ég vil að þið æfið ykkur í að tala frá framtíðarsjálfinu. Hvernig talar konan sem þú verður eftir til dæmis eitt ár þegar hún hefur náð markmiðum sínum? Farðu strax í dag að tala eins og hún. Leitaðu til hennar (e framtíðarsjálfsins) eftir visku. Oftast, fyrir flestar okkar áður en við förum meðvitað að veita þessu gaum og vinna með samtalið við okkur sjálfar, þá erum við að tala út frá fortíðarsjálfinu. Ef þú lítur í kringum þig og horfir á lífið þitt eins og það er í dag, þá er það allt niðurstaða þess sem þú hefur hugsað, og gert fram til þessa, sumsé í fortíðinni, og hvernig þú hefur talað við sjálfa þig í fortíðinni.

Ennfremur legg ég til að við förum allar af „kvörtunarkúrnum“.

Í sjö daga vil ég að þú hættir að kvarta. Við þekkjum eflaust flestar að hafa kvartað. Stundum er það ómeðvitað ferli, við eigum miður uppbyggilegt samtal við okkur sjálfar og erum sítuðandi. Það er neikvæð orka sem fer í það. Af því þegar þú ferð úr kvörtunarástandi- eða hugarfari, hvað heldurðu þá að gerist?  Hugarfar þitt breytist yfir í ástand möguleika og lausna þegar þú hættir að fókusera á kvartanir og kvabb- og þá ferðu að uppskera möguleika.  

Ég vil hvetja ykkur til að byrja strax í dag að vera meðvitaðar um orðin sem þið segið við ykkur sjálfar. Samtalið sem þið eigið við ykkur og færa það upp á hærra stig. Æfið ykkur að tala eins og framtíðarsjálfið ykkar myndi tala.

Þá upplifið þið allt aðra orku, aðrar tilfinningar, sem munu þjóna ykkur á allt annan hátt og auðga líf ykkar til muna,“ segir Linda. 

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is