Húðin verður slappari ef þú borðar sykur

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Bergmann hefur í ríflega þrjá áratugi verið að skoða tengsl á milli mataræðis og heilsufars. Rúmlega 2.100 einstaklingar hafa sótt námskeið hennar Hreint mataræði sem hefur verið í boði frá árinu 2015.

„Ég er alltaf að þróa námsefnið mitt og má segja að á hverju hausti fari ég yfir það sem ég kenni og endurbæti efnið.

Ég er endalaust að læra eitthvað nýtt í sambandi við náttúrulegar leiðir til að styrkja og efla heilsuna og legg mig fram um að deila því þá jafnóðum til þeirra sem koma á námskeiðin.

Vinnan mín undanfarnar vikur hefur því snúist um þessar endurbætur auk greinanna minna um heilsutengd mál sem ég skrifa reglulega.

Í fyrra skrifaði ég í kringum 90 greinar svo á vissan hátt má segja að ég skrifi eina bók á ári með greinunum mínum.“

Ástæða þess að hún fór af stað á sínum tíma í að vinna í sér var ofbeldi sem hún lenti í aðeins sjö ára að aldri.

„Þegar við verðum eldri þá koma oft gömul áföll úr æsku upp oft vegna þess að eitthvað ýtir við okkur. Í mínu tilviki þá var það viðskipta-vinur minn, maður sem verslaði stundum við mig í versluninni Betra lífi á Laugavegi, sem var að segja mér frá að konan hans og systir hefðu lent í grófri nauðgun föður síns. Þegar ég kveð hann við dyrnar missi ég út úr mér að mér hafi líka verið nauðgað sem barni en það hefði ekki haft nein áhrif á líf mitt. Allt í einu opnaðist á minningar mínar um atburð sem var

falinn vitund minni til þessa. Ég var alltaf hugrökk, skemmtileg og hresst barn, en þegar ég var sjö ára að aldri var ég gestkomandi á öðru heimili en mínu og þá notaði aðili tækifærið og misnotaði mig. Í framhaldi af þessari reynslu fór ég að fá alls konar meltingarvandamál, ég fékk magasár tíu ára gömul og var stöðugt að fá þvagfærasýkingu og hef í raun aldrei náð mér í neðri hluta kviðarins.

Þegar atburðurinn rifjaðist upp fyrir mér komast ég að raun um að við nauðgunina hætti ég að anda, fór út úr líkamanum mínum og þandi út kviðinn til að halda manninum frá mér. Síðan þá hefur innri kviðarveggurinn minn aldrei verið heill. Þegar þessi minning kemur upp í vitund mína er ég fertug að aldri og hef ég verið að vinna í þessu áfalli síðan þá.

Ég man að á þessum árum var verið að stofna Stígamót og ég fór að flytja inn fullt af bókum fyrir aumingja konurnar sem höfðu verið misnotaðar, en fattaði svo að þær voru fyrir mig.

Öll þessi vanheilsa sem ég tengi við þetta áfall gerði það að verkum að ég fór að leita leiða til að lækna mig eftir ýmsum náttúrulegum leiðum.“

Hvað eru námskeiðin í Hreinu mataræði orðin mörg sem þú hefur haldið?

„Ég hélt fyrsta námskeiðið í mars árið 2015. Námskeiðið sem hófst í síðustu viku er númer 73 og ekkert lát á eftirspurn. Það hafa í kringum 2.100 einstaklingar sótt þessi námskeið í gegnum árin. Námskeiðahald hefur breyst vegna kórónuveirunnar svo nú held ég námskeið nær eingöngu í gegnum netið.

Það sem er áhugavert við það er að nú eru þátttakendur ekki einvörðungu frá Íslandi heldur einnig frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Luxemburg, Frakklandi og Spáni.“

Hverjir sækja námskeiðin þín?

„Þeir sem sækja námskeiðin eru yfirleitt þeir sem hafa lengi átt við einhver óskilgreind heilsufarsvandamál að stríða. Einnig þeir sem eru með meltingarvandamál og hafa ekki fengið viðhlítandi aðstoð við að leysa þau í heilbrigðiskerfinu.

Grunnurinn að námskeiðinu byggir á bók hjartalæknisins Alejandro Junger, Hreint mataræði.

Hann lenti sjálfur í kulnun og læknaði sig með því að hreinsa líkamann og breyta algerlega um mataræði. Ég hef svo bætt inn í þann grunn upplýsingum um blóðflokkamataræðið. Ég þýddi þær bækur á sínum tíma og ég og maðurinn minn heitinn gáfum þær út.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur í þrjá áratugi skoðað áhrif mataræðis

Guðrún hefur í rúma þrjá áratugi skoðað tengslin á milli mataræðis og heilsufarsvandamála. Í fyrstu aðallega til að koma jafnvægi á eigin líkama.

„Ég hef því aflað mér verulega mikillar þekkingar á þessum tíma og bý að henni, auk þess sem ég starfaði töluvert með Hallgrími heitnum Magnússyni lækni og lærði mikið af honum.“

Hvað lærir fólk á þessum námskeiðum?

„Það lærir meðal annars hvaða bólguvaldandi fæðu er gott að forðast, en bólgur eru yfirleitt grunnur að alvarlegri sjúkdómum. Með því að taka út ákveðnar fæðutegundir og setja inn aðrar í staðinn og með því að nota samhliða því ákveðin bætiefni til að stuðla að losun eiturefna verður mikil umbreyting í líkamanum. Meðan ég var enn með fólk í sal á námskeiðunum, sagði ég gjarnan að á þriðja fundi væri alltaf ofbirta í honum, því þá sé ég orðið svo miklar breytingar í andliti fólks, sem endurspeglaði meiri innri ró og vellíðan. Svo léttist fólk yfirleitt líka, þannig að í lok þriggja vikna hreinsunar eru þátttakendur bæði léttari á líkama og sál, lausir við meltingarvandamál, höfuðverki, bjúg, bólgur og ýmislegt fleira.“

Erfiðara ár en oft áður

Hvað með þitt mataræði, ertu föst fyrir þar?

„Ég hef almennt verið það, en verð að viðurkenna að það hefur aðeins farið úr skorðum í sumar. Ég stóð í flutningum, er í bráðabirgðahúsnæði sem stendur, hef verið undir miklu álagi og hef þá haft tilhneigingu til að teygja mig í eitthvað sem er ekki í samræmi við mitt almenna mataræði. Ég tel mig því heppna að geta reglulega fylgt þeim sem eru á námskeiði hjá mér og fer því yfirleitt í þrjár til fjórar þriggja vikna hreinsanir á ári.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Er að leita að drauma húsnæðinu

Hvað getur þú sagt mér um markmiðin sem þú settir þér í upphafi ársins 2021?

„Ég setti mér það markmið að selja íbúðina mína og finna mér húsnæði í Norðurbæ Hafnarfjarðar. Það fyrra gekk strax upp, en það er aðeins bið á að síðara markmiðið gangi eftir, aðallega vegna þess að ég er ekki að finna húsnæði sem fellur að mínum kröfum, en það kemur væntanlega. Ég bíð bara róleg þangað til.

Svo setti ég mér markmið um fjölda þeirra námskeiða sem ég ætla að halda á árinu, um fjármálin mín og um líkamsrækt, útiveru og margt fleira.

Sem stendur er ég einnig með bók í vinnslu. Vinna við hana hefur aðeins setið á hakanum, því tíminn fór í annað fyrr á árinu, svo það er einhver bið á að hún birtist. Þessi og önnur markmið eru svo alltaf í endurskoðun.“

Guðrún hefur reynslu af því að taka sykur út úr mataræði sínu og hefur tekið eftir áhrifum sykurs á húðina.

„Ég hef tekið eftir því bæði hjá sjálfri mér og öðrum, að húðin í andliti þéttist mikið þegar fólk hættir að borða sykur. Það er vegna þess að sykur hefur áhrif á kollagenið í húðinni og brýtur það niður, svo húðin verður slappari, svitaholurnar stærri og ekki sami stinnleiki í henni.“

Annars segir hún besta fegurðarleyndarmálið fyrir utan matinn að vera úti í náttúrunni og að leika við barnabörnin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »