Hefur þig alltaf dreymt um að gera pasta frá grunni?

Sigríður Björk Bragadóttir.
Sigríður Björk Bragadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er oft handagangur í öskjunni í kennslueldhúsinu Salt eldhúsi í Þórunnartúni. Þar hafa hjónin Sigríður Björk Bragadóttir (eða Sirrý eins og hún er yfirleitt kölluð) og Sigurður Grendal Magnússon byggt upp öflugt fræðslustarf fyrir áhugamenn um matseld og kræsingar og er fjöldi áhugaverðra námskeiða á dagskrá í vetur.

Sirrý ritstýrði Gestgjafanum á sínum tíma og hefur unun af að miðla þekkingu sinni á matarmenningu ólíkra heimshluta en hún og Sigurður fá einnig til sín gestakennara sem kenna áhugasömum að elda allt frá mexíkóskum skyndibita yfir í gufusoðnar bollur á taívanska vísu.

„Starfsemi Salt eldhúss gengur bæði út á að halda stutt almenn námskeið, sem yfirleitt hefjast kl. 17 síðdegis, og einnig að kynna t.d. hópa erlendra ferðamanna fyrir íslenskri matargerð og hráefni eða taka á móti vina- og vinnustaðahópum sem koma hingað til að elda, njóta og eiga ánægjulega stund saman,“ segir Sirrý.

Stuttu hagnýtu kvöldnámskeiðin hafa gert mikla lukku og m.a. hjálpað fjölskyldum að bæta nýjum víddum við heimilismatseldina. Sirrý segir það eiga við um flestar fjölskyldur að matseðill mánaðarins gæti verið fjölbreyttari. „Oft keyrir fólk á þetta 10 til 12 réttum og eðlilegt að heimilismeðlimir verði fljótt þreyttir á tilbreytingarleysinu. Með því að koma á matreiðslunámskeið lærir fólk bæði nýja tækni og nýjar uppskriftir sem þau geta bætt við matseðilinn og byggt ofan á.“

Kennslueldhús Salt eldhúss í Þórunnartúni er fallega innréttað og rúmgott. …
Kennslueldhús Salt eldhúss í Þórunnartúni er fallega innréttað og rúmgott. Þar lærir fólk á öllum aldri rétt handtök við eldavélina og er það þekking sem nýtist því ævina á enda

Kennslan löguð að getu hvers og eins

Það á við um marga að skorta ákveðna undirstöðuþekkingu í matseld og tekur framboðið af námskeiðum hjá Salt eldhúsi mið af því. Þannig er t.d. boðið upp á sérnámskeið í klassískum sósum, námskeið um súrdeigsbakstur, og kennslu í að gera hina fullkomnu steik. Sirrý segir þetta góð dæmi um námskeið sem opna alls konar möguleika í eldhúsinu. „Þegar fólk hefur náð góðum tökum á grunnsósunum eru þau komin með þekkingu sem er nánast hægt að nota í alla matseld. En svo má heldur ekki vanmeta gildi þess að einfaldlega læra á nýtt hráefni og læra nýjar aðferðir í eldhúsinu.“

Hjá Salt eldhúsi er þess gætt að öll námskeðin henti bæði þeim sem kunna varla að spæla egg sem og hinum sem eiga það til að sýna góða takta við eldavélina og ráða við flóknari matseld.

„Gaman er að segja frá því að þegar við hófum þessa starfsemi reiknuðum við með að fá einkum til okkar fólk á miðjum aldri sem væri komið á þann stað í lífinu að vilja hægja á ferðinni og njóta hversdagslífsins, en það hefur komið okkur á óvart hve mikinn áhuga unga fólkið hefur á matreiðslunámskeiðum og jafnvel að unglingar koma á namskeiðin okkar,“ segir Sirrý.

Margir koma líka á námskeið þegar fram undan er veisluhald og segir Sirrý að ekki þurfi að halda margar veislur til að eitt vel valið námskeið borgi fyrir sjálft sig með því að spara fólki að aðkeyptar veitingar. „Námskeiðið þar sem fólk lærir að baka franskar makkarónur kostar t.d. 12.900 kr. og fær fólk þá fjárfestingu til baka með því að halda bara tvær litlar veislur. Þetta er þekking sem nýtist matgæðingum ævina á enda og hægt að útbúa makkarónur hvort heldur til að lífga upp á hversdaginn, fyrir saumaklúbbsfundi, fermingarveislur eða matarboð.“

Sirrý segir líka gera mikið gagn að læra undir leiðsögn manneskju sem kann vel til verka. „Það má komast langt með því t.d. að horfa á matreiðslumyndbönd á YouTube en það kemur ekkert í staðinn fyrir persónulega leiðsögn þar sem hægt er að spyrja spurninga um hvað sem er.“

Ferðalag til Mexíkó og Indlands

Af sérlega spennandi námskeiðum á haustuönn má nefna námskeið í mexíkóskum götumat sem er á dagskrá bæði í ágústlok og aftur um miðjan september. Eins og á öllum námskeiðum Salt eldhúss er þar allt hráefni innifalið og þátttakendur fá uppskriftirnar sem þeir læra með sér til eignar. „Til að hafa matinn ekta þá gerum við allt frá grunni: við gerum taco-skeljarnar úr maísmjöli, og fyllum með þremur mismunandi gerðum af fyllingum: fiski, hægeldaðri grísasíðu og grænmetisfyllingu,“ útskýrir Sirrý sem kennir námskeiðið sjálf. „Einnig læra nemendur að útbúa lárperumauk, mexíkóska græna sósu og tómatsalsa.“

Indversk matargerð á líka mjög upp á pallborðið hjá Íslendingum um þessar mundir og verður haldið almennt námskeið í gerð indverskra rétta seint í október en hægt að læra að elda indverska grænmetisrétti á namskeiði í septemberlok. Kennari á þessum námskeiðum er Shruthi Basappa sem hefur búið á Íslandi um langt skeið en kemur frá Bangalore í suðurhluta Indlands:

„Indversk matseld getur virst flókin við fyrstu sýn og uppskriftirnar óvenjulangar, en ef að er gáð eru indverskar uppskriftir að uppistöðunni til upptalning á kryddum. Hún Shruthi fer í saumana á hugmyndafræðinni á bak við notkun krydda á Indlandi og sýnir hvernig rétt val á kryddum getur gert máltíð miklu meira spennandi,“ útskýrir Sirrý.

Námskeiðin í pastagerð og súrdeigsbakstri njóta líka mikilla vinsælda og segir Sirrý að þar sé skýringin væntanlega sá breytti taktur sem varð á lífi landsmanna í kórónuveirufaraldrinum. „Skyndilega gafst fólki betri tími til að dunda sér við bakstur í eldhúsinu og taka pastagerðarvélina fram. Það er eitthvað sérlega notalegt við það að nostra við súrdeigið með fjölskyldumeðlimum eða föndra pasta af öllum mögulegum gerðum og setjast svo að veisluborði með nánustu ættingjum og vinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »