,,Það eru mikil forréttindi að fá að vera hér í Harvard“

Jón Ívar Einarsson ásamt sonum sínum tveimur.
Jón Ívar Einarsson ásamt sonum sínum tveimur.

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, var 37 ára þegar hann fékk stöðu deildarstjóra við læknadeild skólans. Í dag er hann sérfræðingur í legslímuflakki og er án efa réttur maður á réttum stað. Hann hefur unnið hart undanfarna tvo áratugi í að verða einn helsti sérfræðingur heimi í sínu fagi og veit fátt leiðinlegra en latt fólk sem vill fá hlutina fyrir ekki neitt. 

Jón Ívar gerir að meðaltali tíu til tólf flóknar kviðsjáraðgerðir á viku á Brigham and Women's-sjúkrahúsinu í Boston. Spítalinn er kennslusjúkrahús fyrir læknadeild Harvard. Hann er fjóra daga vikunnar í aðgerðum, þess á milli kennir hann almennum læknanemum og læknum í sérnámi í Harvard, auk þess að ferðast um heiminn að halda fyrirlestra og að hitta félaga sína í vísindasamfélaginu.

Jón Ívar er sérfræðingur í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum. Hann lauk almennu læknanámi frá Háskóla Íslands árið 1995 og stundaði sérnám í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum við Baylor College of Medicine. Hann lauk einnig tveggja ára undirsérnámi í kviðsjáraðgerðum kvenna við sömu stofnun og jafnframt meistaraprófi í lýðheilsufræði við Harvard School of Public Health. Hann lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2013.

Hann hefur í hartnær 20 ár sinnt flóknum kviðsjáraðgerðum kvenna og hefur mikla reynslu í aðgerðum á svæsnu legslímuflakki, ásamt aðgerðum eins og legnámi, fjarlægingu vöðvahnúta og upphengingu á legi og leggöngum.

Legslímuflakk getur lagt lífið í rúst

Legslímuflakk (e. endometriosis) er sjúkdómur þar sem frumur sem klæða legholið að innan finnast fyrir utan legið.

„Þó að ég sé sérfræðingur í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum þá sinni ég ekki almennum kvensjúkdómalækningum eða fæðingum, heldur fæ sendar til mín konur í aðgerð frá öðrum kvensjúkdómalæknum sem treysta sér ekki til að framkvæma aðgerðina því hún telst of flókin.

Ég hef því séð frá fyrstu hendi hversu hræðilegur legslímuflakksjúkdómurinn getur verið fyrir konur og gjörsamlega lagt líf þeirra í rúst. Þetta er sjúkdómur sem við skiljum ekki nógu vel enn þá, því sumar konur eru með nánast enga verki á meðan aðrar geta ekki unnið eða starfað vegna verkja. Konur eru ekki greindar nægilega fljótt, þær leita til læknis og fara stundum lækna á milli án þess að fá viðunandi lækningu og stundum hefur sjúkdómurinn þróast í mörg ár, örvefir myndast og alls konar hliðarvandamál geta orðið vegna þess. Sem dæmi um þessi hliðarvandamál eru vöðvaverkir, taugaverkir og vítahringur verkja sem erfitt er að stilla.

Það sem hefur komið mér mest á óvart í aðgerðum við svæsnu legslímuflakki er hversu langan tíma það tekur að ná upp þeirri færni sem þarf sem skurðlæknir til að geta sinnt þessum konum almennilega. Það tók mig mörg ár eftir sérnám og undirsérnám og hundruð aðgerða að ná upp þeirri færni sem ég hef í dag. Auk þess hefur orðið talsverð framþróun í skurðtækri meðferð á legslímuflakki og gaman að vera í framlínunni þar.“

Spurður um stöðu mála á þessu sviði á Íslandi segir hann að konur fari oft fyrst til heimilislækna sem þurfa að vera vakandi fyrir einkennum legslímuflakks. „Það ætti að senda allar konur með einkenni áfram til kvensjúkdómalækna sem hafa aðstöðu og færni í að lækna sjúkdóminn.“

Mikilvægt að mæta skilningi

Hann segir að konur þurfi að mæta skilningi hvað varðar legslímuflakk. Við þurfum að búa í samfélagi þar sem konur geta deilt reynlu, styrk og von.

„Samtök um endrómetríósu eru að sinna góðu starfi á Íslandi og hafa verið með vitundarvakningu og fræðslu sem er nauðsynlegt að mínu mati.

Hér í Bandaríkjunum er ég að fá konur sendar til mín sem hafa ekki fengið nægilega góða þjónustu. Það eru margar ástæður fyrir því. Þetta er flókinn sjúkdómur því við erum öll svo mismunandi í eðli okkar. Ég tók eftir því þegar ég starfaði sem fæðingalæknir á sínum tíma að sumar konur sem voru að fæða börn, voru mjög kvaldar með einn í útvíkkun, á meðan aðrar upplifðu litla verki rétt fyrir fæðingu. Ef kona upplifir ekki slæma verki vegna legslímuflakks þá getur það verið áskorun, því þá nær sjúkdómurinn stundum að grassera og legið getur verið orðið samvaxið og aftrað þeim frá því að verða ófrískar.

Ég mæli með því fyrir allar konur sem eru að upplifa mikla verki í legi eða kviðarholi að fara beint til kvensjúkdómalæknis. Ef þær fá ekki lausn vandans þar þá að fá lánaða dómgreind hjá fleiri kvensjúkdómalæknum. Stundum getur verið flókið að greina legslímuflakk nema með aðgerð og kviðarspeglun. Eins ættu konur sem eiga erfitt með að vera ófrískar að láta skoða ástand legsins og annarra þátta.“

Hver kona er einstök og verður að vinna út frá því

Spurður um hvort fólk geti haldið sjúkdómnum niðri eða breytt lífsstílnum sínum til að vinna á móti einkennum hans segir Jón Ívar ekki sannfærandi gögn til um slíkt.

„Það er ekki til ein tegund mataræðis sem er betri en önnur í þessu samhengi. Þetta hefur verið rannsakað talsvert, en ekki sannfærandi gögn í eina átt þar að mínu mati. Við erum öll svo einstök og bregðumst ólíkt við. Ég hvet hins vegar allar konur til að finna út með sitt mataræði og að lifa heilbrigðum lífsstíl. Halda sér í kjörþyngd og finna leiðir til að hreyfa sig reglulega.

Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig er að vera með stanslausa verki í mörg ár. Það hlýtur að taka á líkama og sál.“

Hvaða ráð áttu fyrir aðstandendur þeirra sem eru með legslímuflakk?

„Besta ráðið sem ég á er að sýna stuðning og skilning. Þessi sjúkdómur getur verið erfiður einnig fyrir aðstandendur. Þeir finna fyrir máttleysi við að geta ekki hjálpað, sérstaklega eiginmenn þeirra kvenna sem eru veikar. En almennur stuðningur og skilningur er aðalatriðið að mínu mati.“

Hefur haldið tvö heimili í ellefu ár

Þegar Jón Ívar er í Boston fer hann vanalega snemma á fætur og nýtur hverrar mínútur einn með sjálfum sér á skrifstofunni. Áður en nemendur hans mæta í skólann eða sjúklingarnir mæta á skurðarborðið. Hann kann að meta þennan tíma með sér á morgnana því þá er hann ferskur og getur komið miklu í verk.

„Mér finnst mikil forréttindi að starfa í umhverfi með kláru fólki. Hér í Harvard er mikið af rannsóknum í gangi og gott styrkjaumhverfi fyrir þá sem vilja sérhæfa sig á einhverju sviði. Það er erfitt að verðleggja þau verðmæti sem fólgin eru í að vinna með fólkinu á toppnum á sínu sviði. Ætli það sé ekki best að lýsa því þannig að umhverfið lyfti manni upp. Það eru mikil forréttindi að fá að vera hér í Harvard.

Ég hef stjórnað deildinni minni í tæp fimmtán ár. Deildin sérhæfir sig í flóknum kviðsjáraðgerðum kvenna og er undirdeild fæðinga- og kvensjúkdómadeildarinnar. Það er meira fyrir mig að fókusera á einhvern einn hlut og verða góður í því. Í stað þess að vinna á litlum spítala þar sem læknirinn þarf að vera allt í öllu.

Gildin mín eru að vera nálægt fjölskyldunni minni og því hefur reynt talsvert á að starfa úti en eiga sem dæmi börn á Íslandi. Ég hef leyst það með því að halda tvö heimili og að koma til Íslands í hverjum mánuði.“

Var alls ekki bjartsýnn um að fá starfið

Hver er sagan á bak við starfið þitt?

„Ég kláraði undirsérnám mitt í Bandaríkjunum. Fór þá heim til Íslands og starfaði þar á kvennadeildinni í tvö ár. Ég ætlaði í fyrstu að vera áfram á Íslandi en ég var ekki að fá þau tækifæri sem ég vildi miðað við sérnámið mitt.“

Jón Ívar man hvar hann var staddur þegar hann sá stöðuna auglýsta í Harvard.

„Ég man að þetta var á Þorláksmessukvöld. Ég var alls ekki að búast við að fá stöðuna þar sem ég var ungur og með litla reynslu. Það voru mjög margir sem sóttu um án efa reynslumeiri en ég. En ég vissi um leið og ég las um hvað starfið fjallaði að þetta var eitthvað sem ég yrði að fara á eftir. Ég fékk boð í viðtal og hugsaði með mér að þetta yrði í það minnsta bara skemmtilegt ferðalag til Boston. Ég fékk að lokum starfið og hef greinilega bara verið það sem þeir voru að leita að á sínum tíma. Þessi staða hefur verið grunnurinn að ferli mínum og verið algjörlega það sem ég vildi. Ég næ að setja athyglina á aðgerðirnar og þegar maður gerir eitthvað oft og mörgum sinnum, þá verður maður góður í því. Þessi færni er eitthvað sem ég vildi öðlast.“

Hreyfir sig til að líða vel

Jóni Ívari er eins og mörgum umhugað um eigin heilsu.

„Ég reyni að hreyfa mig nánast daglega. Ég held að það sé gott að muna fyrir hvað hreyfingin er því eftir langan dag í vinnunni er ég ekki endilega að nenna æfingum. Ég reyni þá að hafa hugfast hvernig mér líður eftir æfingarnar. Það ýtir mér áfram. Sjálfur lyfti ég lóðum og er þá alltaf með góða tónlist í eyrunum. Tónlistin er aðalmálið í mínum huga.

Ég hef ekkert sérstaklega gaman að því að hlaupa og geri þá ekki mikið af því. Að mínu mati geta allir fundið sér eitthvað heilnæmt að gera en grunnurinn að því að koma æfingum inn í dagskrána er að það sé gaman að ástunda hreyfinguna.

Jón Ívar fór í fjallahjólaferð um hálendið í sumar.
Jón Ívar fór í fjallahjólaferð um hálendið í sumar.

Svo er alltaf gott að fara reglulega út fyrir þægindarammann. Í sumar fór ég í fjallahjólaferð með vinum mínum á Íslandi sem mér þótti einstaklega skemmtilegt.

Ég hef alltaf hreyft mig mikið. Sem barn var ég í fótbolta, handbolta og körfubolta. Þegar ég varð fimmtán ára að aldri fór ég að æfa karate. Það átti vel við mig. Maður þarf að vera í góðu alhliða formi í karate og ég bý enn þá að því formi sem ég komst í á sínum tíma. Það getur tekið á að halda sér í góðu formi með aldrinum. Ég viðheld vöðvamassa líkamans með lyftingunum sem eykur jafnframt brennsluna sem heldur mér í þeirri þyngd sem ég leitast eftir að vera í.“

Þeir sem hafa lesið viðtöl við Jón Ívar vita að hann er ekki fæddur með silfurskeiðina í munni. Móðir hans var einungis sextán ára þegar hún átti hann og var hann því alinn upp hjá afa sínum og ömmu.

„Afi og amma voru ekki með mjög stífar reglur í uppeldinu sem hentaði mér ágætlega. Ég varð snemma sjálfstæður og gerði ekki miklar gloríur, þótt það hafi sennilega verið meira af þeim en þau vissu af. Ég lærði snemma að treysta á sjálfan mig og áttaði mig á því til að ná árangri þá þarf maður að leggja sig fram.“

Jón Ívar spáir talsvert í persónuleika fólks. Hann á góða vini og hefur sinn smekk á fólki eins og allir aðrir.

„Ég kann að meta dugnað í fólki, einlægni og heiðarleika. Svo veit ég fátt betra en að vera með skemmtilegu fólki sem fær mann til að hlæja. Ég hef alltaf kunnað að meta sniðugt og klárt fólk. Fólk sem þorir að framkvæma og leggur sig fram um að ná markmiðum sínum.“

Jón Ívar fer ekki lífið á hörkunni en hann segir vanmetið hversu mikið fólk þurfi að leggja á sig til að ganga vel.

„Maður þarf að vera þrjóskur og vinnusamur og svo verður aldrei litið fram hjá því hversu mikilvægt er að vera á réttum stað á réttum tíma já og bera sig eftir björginni.“

Dæmi um þolinmæði hans er fyrirtækið í hans eigu, Freyja Healthcare, sem hann hefur sinnt í hjástörfum meðfram Harvard.

„Ég er eins og allir frumkvöðlar að upplifa hæðir og lægðir í fyrirtækinu. En ég fer áfram á þrjóskunni sama hvað og við sjáum svo hvar þetta fyrirtæki endar. Fyrsta tækið sem við þróuðum og seldum til stærri lækningatækjaframleiðenda er að koma á markað í byrjun næsta árs og verður mjög gaman að fylgjast með hvernig því gengur.“

Það þarf ekki að tala við Jón Ívar lengi til að finna að hann er ekki allra, og ekki allir eru hans.

„Ég kann ekki við óheiðarleika og þegar fólk er latt og nennir ekki að leggja sig fram í lífinu. Eins fer tilætlunarsemi alveg óheyrilega í taugarnar á mér.“

Ræturnar á Íslandi þótt veðrið sé ómögulegt

Hvar sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?

„Ég er að leggja drög að því að flytja heim til Íslands og verð því örugglega á Íslandi eftir tíu ár eða jafnvel mun fyrr. Ég er mjög markmiðadrifinn og hef náð að gera allt sem ég vildi gera hér á fimmtán árum. Mig dreymir um að eyða meiri tíma á Íslandi þar sem ég á fjölskyldu og marga góða og gamla vini. Ég verð örugglega alltaf með annan fótinn erlendis og held áfram að vinna á alþjóðavísu en ég er með ákveðin plön sem er aðeins of fljótt að ræða núna. Ég get þó sagt frá því að ég kem til með að hefja starfsemi í Klíníkinni um áramótin og mun bjóða upp á aðgerðir þar. Ég vonast til að ná samningum við Sjúkratryggingar Íslands til að sjúklingar þurfi ekki að greiða fyrir aðgerðirnar en það mun sennilega taka einhvern tíma að ná lendingu þar.

Ég hef búið í stórborg lengi og þá finnur maður hvað er lítið andrými og langt í náttúruna. Á Íslandi erum við komin út í náttúruna á núll einni. Ég horfi með aðdáun á vini mína sem eru uppi um fjöll og firnindi á degi hverjum.

Mig langar að gera meira af því. Ræturnar eru alltaf á Íslandi og þótt veðrið sé hálfömurlegt oft þá er það held ég það eina neikvæða við landið. Þegar maður er alinn upp á Íslandi þá eru ræturnar ansi djúpar á þeim stað. Ég man þegar ég var úti í sérnáminu mínu, þá kom ég heim einu sinni á ári og var með töluverða heimþrá. Nú held ég heimili á báðum stöðum og helsti hvatinn á bak við það eru synir mínir tveir sem eru orðnir táningar. Mig langar að verja meiri tíma með þeim áður en þeir verða fullorðnir. Það jafnast fátt á við það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »