„Held að miklu fleiri langi til að dansa“

Ernesto Camilo er danskennari frá Kúbu sem mælir með því …
Ernesto Camilo er danskennari frá Kúbu sem mælir með því við alla að dansa sér til ánægju. mbl.is/Þjóðleikhúsið

Ernesto Camilo er fæddur og uppalinn á Kúbu þar sem dans er samofinn menningunni. Hann segir dans gera mikið fyrir fólk og að á Kúbú dansi fólk sér til ánægju. Hann hvetur alla Íslendinga að hreyfa sig í takt við góða tónlist og finna hversu mikil gleði og ánægja fer um líkamann við það. Sjálfur kom hann sér í gegnum kórónuveiruna meðal annars með danshugleiðslu. 

Camilo eins og hann er kallaður er aðstoðarskólastjóri Klassíska listdansskólans. Hann er einstakur dansari, danskennari og danshöfundur.

Um þessar mundir er hann að undirbúa starfið í skólanum og að sinna störfum sínum í Þjóðleikhúsinu. Hann vinnur mikið og telur það ekki eftir sér því vinnan er eitt af áhugamálum hans. 

„Til að rækta mig þá fer ég einnig mikið í sund, borða hollan mat og hreyfi mig. Þegar allt var lokað vegna kórónuveirunnar var ég duglegur að fara upp í stúdíó og gera hálfgerða dans hugleiðslu, þar sem ég var einn með sjálfum mér, hlustaði á líkamann og hreyfði mig eins og hann bað mig um. Þetta minnkaði mikið stress og kom mér í gegnum erfiðasta kórónu-tímann. Ég mun halda þessari rútínu áfram. Leikhúsin hafa verið meira og minna lokuð svo það hefur gefið mér mjög mikið að koma og kenna og vinna með krökkunum. Svo elska ég að fara í sund, vera í náttúrunni með kærustunni minni og synda í köldu vatni. Svo er ég líka heppin að vera með spennandi verkefni framundan sem heldur manni líka jákvæðum og spenntum fyrir framtíðinni.“

Dans gefur manni gleði og minnkar stress

Hvað gerir dans að þínu mati fyrir fólk?

„Dansinn gefur manni fyrst og fremst svo mikla gleði. Þegar maður dansar þá minnkar allt stress og kvíði. Dansinn er góður fyrir heilsuna, styrkir mann líkamlega og andlega, maður fær meira sjálfstraust og þetta hjálpar manni mikið í daglegu lífi við allar athafnir. Þegar maður æfir dans þá kynnist maður líkama sínum vel og nær betri tengingu við sjálfan sig. Maður lærir að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Í dansnámi fær maður líka einstaka færni í að verða skipulagður og byggir upp sjálfsaga. Svo kynnist maður svo mikið af skemmtilegu fólki í gegnum dansinn.“

Geta allir dansað?

„Já, það geta svo sannarlega allir dansað. Þar sem ég er fæddur og uppalinn á Kúbu þar sem dansinn er partur af menningunni er mér svo eðlilegt að sjá alla dansa, sama hvernig þeir dansa. Fólk dansar sér til gleði ekki endilega til þess að verða rosalega góðir dansarar. Ég held að á Íslandi sé fólk smá feimið að dansa. Í raun held ég að miklu fleirum langi að dansa hér en gera það. Ég hvet alla til að prófa að dansa heima hjá sér, og líka að prófa að mæta í danstíma. Við fæddumst öll með dansinn í okkur og það þarf bara að viðhalda dansgleðinni.“

Leikhúslífið heillandi dansheimur 

Hvernig lýsir þú starfinu þínu í leikhúsinu?

„Í Þjóðleikhúsinu starfa ég sem danshöfundur og dansari í Rómeo og Júlíu sem verður frumsýnd í september. Svo held ég áfram að leika ljónið í Kardimommubænum. Í október stíg ég inn í að vera æfingastjóri og dansari hjá Íslensku óperunni í sýningu La Traviata.“

Hvernig verður dagskráin í skólanum í vetur?

„Klassíski listdansskólinn starfar undir regnhlífarverkefninu Dansgarðurinn sem er með það að markmiði að bjóða upp á faglega og fjölbreytta danskennslu, í klassískum ballett, nútíma- og samtímadansi og skapandi dansi. Við viljum gera danskennslu og viðburði aðgengilega börnum og ungu fólk. Eins viljum við efla umræðuna um sviðslistir á milli ungra áhorfenda og listamanna. Eins viljum við sameina og styðja listamenn sem eru að vinna með dans og sviðslistir fyrir ungt fólk og alla áhorfendur sem og vinna með öðrum stofnunum til að svara betur samfélagslegum þörfum á sviði dans- og sviðslistar.“

Mikilvægt að bjóða upp á krefjandi dansnám líka

Undir Dansgarðinum starfa listdansskólarnir Klassíski listdansskólinn og Óskandi sem vinna mjög náið saman og bjóða upp á dansnám fyrir nemendur frá 3 ára aldri.

„FWD YOUTH COMPANY er svo ungdanshópur fyrir fólk á aldrinum 18 til 25 ára og er hugsað sem brú yfir í háskólanám í dansi eða atvinnumennsku. Samfélagsverkefnið Dans fyrir alla er einnig á okkar könnu sem býður meðal annars upp á dansfræðsludaga fyrir grunnskólabörn.

Það er því nóg um að vera í Dansgarðinum og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi á öllum aldri.“

Klassíski listdansskólinn og Óskandi bjóða upp á forskólanám og grunnnám í ballett, nútíma-samtímadansi og skapandi dansi þar sem kennt er samkvæmt aðalnámskrá. Þá býður Klassíski listdansskólinn upp á 3 ára nám á framhaldsskólastigi bæði á klassískri listdansbraut og nútíma-samtímalistdansbraut í samstarfi við menntaskólann í Hamrahlíð.

„Námið er mjög krefjandi og er mikilvægur grunnur fyrir háskólanám og fyrir þá sem ætla sér að gera dansinn að atvinnu en er einnig frábært nám og grunnur sem gagnast ungu fólki og undirbýr það fyrir hvað sem það tekur sér fyrir hendur. 

Skólarnir leggja mikla áherslu á að nemendum líði vel í skólanum, nái árangri og fái tækifæri á að þroskast sem listafólk. Við tökum þátt í ýmsum viðburðum svo sem barnamenningarhátíð, unglist, vetrarhátíð, menningarnótt, Undankeppni fyrir Prix du Nord og Dance World Cup. Hápunktur vetrarins eru klárlega jóla og vorsýningarnar okkar, þar sem nemendur fá tækifæri til að stíga á stóra sviðið og sýna listir sínar. 

Þá bjóða skólarnir einnig upp á ýmis námskeið utan námskrárinnar svo sem fullorðinsballett, pilates, kríladans og ýmis byrjendanámskeið.“

Þykir vænt um nemendur sína

Hann er mikill kennari í eðli sínu og er spenntur fyrir mörgu af því sem hann kemur að í vetur. 

„Mér finnst svo rosalega gaman að kenna og þykir svo vænt um nemendur mína að ég get ekki valið eitthvað eitt námskeið sem ég kenni.  En ég er reyndar mjög spenntur fyrir nýju námskeiði sem við erum að fara af stað með fyrir byrjendur eða þá sem vantar meiri grunn í dansi fyrir 15 ára og eldri. Það er svo gaman að sjá hvað geta orðið mikil framför og hvað nemendur geta náð langt þó svo þau byrji aðeins seinna í dansi en aðrir. Þá verð ég líka að segja hvað ég er spenntur fyrir því að það sé alltaf að bætast í strákahópinn í skólanum okkar. En ég hvet stráka sérstaklega til að vera óhræddir að koma og prófa að dansa.“

Hvað viltu segja við þá sem hefur alltaf dreymt um að dansa en ekki komið sér í það ennþá?

„Það eina sem þarf til að ná árangri í dansi er að hafa brennandi áhuga og mæta í danstíma. Bara vera opin og prófa. Við dönsum og hlæjum saman. Það er ekkert betra. Það er aldrei of seint að byrja að dansa. Verið óhrædd að koma og prófa. Ég tek vel á móti öllum sem vilja prófa að dansa í fyrsta skipti hvort sem það eru börn, unglingar eða fullorðnir. Í raun hlakka ég alltaf til að dansa með nýju fólki,“ segir hann. 

mbl.is