Leitin að ytri friði

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Í fjöldamörg ár hafa heilsugúrúar heimsins lagt ofuráherslu á að fólk nái innri friði. Við mannfólkið eigum að finna okkar innri frið og hugleiða í svo og svo margar mínútur á dag til þess að geta lifað fimm stjörnu lífi. Og lifað til fulls, ekki gleyma því. Og verið besta útgáfan af okkur sjálfum!

Þegar samtöl um innri frið og hugleiðslu fara af stað líður mér oft eins og ég sé í ræsinu því ég hef aldrei getað setið kjurr og hugleitt. Þegar ég áttaði mig á að þessi barátta væri töpuð ákvað ég að rækta frekar ytri frið.

Ytri friður gengur út á að lifa í sátt við umhverfi sitt og vera ekki upp á kant við alla. Að mínu mati er einn mikilvægasti þátturinn í ytri friði að vera elskaður. Ef við höfum fólk í kringum okkur sem elskar okkur af öllu hjarta og dæmir okkur ekki þegar við erum ófullkomin þá líður okkur betur. Ástin veitir okkur vellíðan og tilveran kemst í jafnvægi. Ef við eigum meira af kærleiksríkum samskiptum við fólkið í kringum okkur eru meiri líkur á að hamingjan taki hús á okkur. Ef við höfum minni þörf til að ráðast á samferðafólk okkar líður okkur líka betur.

Þegar á reynir í lífinu skiptir enn þá meira máli að hafa mikinn ytri frið og eiga skjól á sínum heimavelli. Í sumarfríinu reyndi ég að hlúa að andlegri heilsu og stúderaði David Kessler. Hann er sérfræðingur í dauðanum og sorginni og skrifaði meðal annars metsölubókina On Grief and Grieving ásamt Elisabeth Kübler-Ross heitinni. Í nýjustu bók sinni, Finding Meaning – The Sixth Stage of Grief, beinir Kessler athyglinni að sjötta stiginu í sorgarferlinu. Hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að stig sorgarinnar væru fimm en eftir að hann missti 21 árs gamlan son sinn sá hann að það vantaði töluvert upp á. Þá skrifaði hann sína nýjustu bók sem fjallar um að finna sig eftir missi.

Finding Meaning eftir David Kessler er áhugaverð bók og skrifuð …
Finding Meaning eftir David Kessler er áhugaverð bók og skrifuð af þekkingu.

Það eina sem við vitum þegar við fæðumst er að við munum deyja. Þótt þessi setning sé alger klisja er samt áhugavert að skoða hvað við erum varnarlaus þegar dauðinn bankar upp á. Fólk veit ekki hvernig það á að haga sér. Þess vegna er gott að lesa bækur eftir sérfræðinga sem hafa stúderað hluti eins og dauða og sorgarferli.

Þótt Finding Meaning sé fín lesning fyrir fólk í sorgarferli mæli ég með því að fólk lesi hana þótt það hafi ekki upplifað dauðann í sinni svörtustu mynd. Sorgarferli getur átt sér stað í lífi fólks þótt það hafi ekki misst neinn. Fólk fer í gegnum sorgarferli ef það veikist eða ástvinir veikjast, líka þegar fólk fer í gegnum hjónaskilnað eða missir vinnuna. Sorgarferli getur líka átt sér stað ef líf fólks æxlast öðruvísi en skipulagt var þegar grunnurinn var lagður.

Kessler talar um að það skipti miklu máli fyrir okkur sem eftir sitjum að við finnum tilgang okkar og höldum áfram að lifa. Höldum áfram að vera glöð og lifa góðu lífi þótt erfitt sé að fylla skarð þeirra sem við misstum.

Haustið markar alltaf tímamót og á þessum tímamótum vil ég hvetja fólk til þess að hlúa að sínum ytri friði og senda samferðafólki hlýjar hugsanir þótt fólk sé ófullkomið. Bara gera það fyrir okkur sjálf því þá líður okkur betur. Ég trúi því að innri friðurinn banki sjálfkrafa upp á í lífi okkar ef við finnum ytri frið.

Hér fyrir neðan er hlekkur á hlaðvarpsþátt Brené Brown þar sem hún ræðir við David Kessler. Ég mæli með að þið hlustið á fleiri hlaðvarpsþætti með henni. Viðtal sem hún tók við Barack Obama er til dæmis áhugavert og skemmtilegt! 


 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »