„Últrahlaup gefa mér andlegan styrk“

Sigurjón Ernir Sturluson er einn af öflugustu hlaupurum landsins.
Sigurjón Ernir Sturluson er einn af öflugustu hlaupurum landsins. Ljósmynd/Árni Sæberg

Þegar þú hefur sigrast á mjög stórri áskorun þá er fátt í lífinu sem þér þykir mjög erfitt að mati Sigurjóns Ernis Sturlusonar afreksíþróttamanns. Hann segir útihlaup gefa fólki einstakt tækifæri til að tengjast sjálfu sér og náttúrunni í kringum okkur. 

Sigurjón Ernir Sturluson íþróttamaður og eigandi UltraForm er sveitastrákur í húð og hár að eigin sögn en er nú búsettur í Grafarholti með fjölskyldu sinni.

Hann er í fullri vinnu í UltraForm sem er hóptímastöð í Grafarholtinu en bráðlega verður ný UltraForm-stöð opnuð á Akranesi.

„UltraForm býður einnig upp á hlaupaþjálfun í hópi jafnt sem hlaupafjarþjálfun og svo er næringarþjáfun UltraForm væntanleg í lok sumars svo það er óhætt að segja að hægt sé að lýsa starfinu mínu sem aðstoð við fólk að bæta heilsuna sína.“

Hvað getur þú sagt mér um þína eigin heilsu og hvernig þú fjárfestir í henni?

„Ég er ansi duglegur að huga að heilsunni og hugsa allt sem ég geri til lengri tíma og vil að það sem ég geri í dag geti ég að öllu jöfnu áfram gert eftir 20 til 30 ár. Þar með talið æfingar, mataræði, svefn og feira. Ég er með innrauða sánu ásamt köldum potti heima hjá mér og nota ýmsar leiðir til að hámarka líkamlega heilsu og má þar nefna æfingar, mataræði, öndun, kuldaþjálfun, hitaþjálfun og loks últraþjálfun og -keppni.“

Sigurjón Ernir hikar ekki við að eyða peningum í góðar matvörur.

„Það sama má segja um vörur sem geta hjálpað mér að byggja upp mína heilsu og þess má geta að bílskúrinn hjá mér er innréttaður sem ansi hugguleg líkamsrækt sem ég bjó til í samstarfi við Sportvörur.“

Hefur tekið mörg ár að komast í formið

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa sjálfur?

„Ég æfði körfubolta með ÍA frá fimm ára aldri og byrjaði að hlaupa markvisst 16 eða 17 ára sem var á svipuðum tíma og ég flutti til ömmu minnar til að aðstoða hana með daglegar athafnir. Þá hljóp ég mest á utanvegaslóðum, í fjörunni og fjallinu og skilaði sú þjálfun mér afar góðum grunni inn í fjallahlaupin.“

Hvernig æfðir þú þig upp í það form sem þú vilt vera í?

„Það er óhætt að segja að það hafi tekið mörg ár með markvissri þjálfun að komast á þann stað sem ég er á í dag. Þegar þetta viðtal kemur út verð ég nýbúinn að taka þátt í 146 km hlaupi með 9.100 m hækkun kringum Mont Blanc í Frakklandi sem heitir TDS. Ég sýni frá öllum keppnum og minni daglegu rútínu gegnum instagrammið mitt sem er sigurjonernir.“

Næring skiptir miklu máli

Hvaða máli skiptir mataræði þig?

„Næring skiptir mig gríðarlega miklu máli og ég hugsa æ meira um hvaða matvæli séu best til að hámarka mína skammtíma- jafnt sem langtímaheilsu. Ég huga því mikið að matvælum sem veita mér góða orku og góða blóðsykursstjórnun en þessir þættir fara alltaf saman. Ég hugsa ekki um mataræði sem umbun eða verðlaun í dag og borða hér um bil eingöngu matvæli sem ég tel hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að byggja upp og bæta líkama minn og afkastagetu.“

Hvaða aðferðir notar þú til að aðstoða þá sem koma til þín í UltraForm?

„Ég nota í raun sömu aðferðir og ég hef sjálfur notað til að ná árangri og skala þá niður æfingar og þjálfunaraaðferðir í takt við getu hvers og eins. Ég hef alltaf unnið mikið með æfingar sem eru á flestra færi og legg mikla áherslu á jafnvægi, samhæfingu og liðleika. Ég stilli þyngdir og ákefð út frá áherslum í æfingum hverju sinni og yfirfæri það þjálfunarform einnig yfir á UltraForm.“

Fjölskyldan gefur lífinu gildi

Er hreyfing áhugamál hjá allri fjölskyldunni?

„Já það er óhætt að segja það. Ég æfi að meðaltali sjö til 10 sinnum í viku en lengd æfinga og ákefð getur verið mjög mismunandi og geta æfingar verið allt frá 20 til 30 mínútna styrktarþjálfun eða „interval“-úthaldsþjálfun yfir í 4-5 klukkustunda hlaupaæfingar á fjöllum. Símona kona mín hefur alltaf leitað mikið í hreyfingu og þegar við kynntumst í Boot Camp á sínum tíma snerist hennar líf mikið um æfingar samhliða námi.“

Hvað gefur lífinu gildi?

„Það er klárlega fjölskyldan mín. Það er ekkert mikilvægara en börnin okkar, það sem mér þykir svo frábært við últraform er sú staðreynd að ég fæ að vakna á hverjum degi vitandi það að ég get hjálpað fjölda fólks með því að bæta andlega jafnt sem líkamlega heilsu og þegar þú vinnur við að taka á móti fólki með bros á vör hvort sem það er fyrir eða eftir vinnu þegar það sinnir símu áhugamáli þá getur þér ekki annað en liðið vel og séð gildi í því sem þú ert að gera.“

Hvaða þrjú atriði standa upp úr í hlaupunum tengd líkamlegri og andlegri líðan?

„Últrahaup gefa mér andlegan styrk sem erfitt er að útskýra. Þegar þú hefur sigrast á mjög stórri áskorun þá er fátt í lífinu sem þér þykir mjög erfitt en er jafnvel erfitt eða þreytandi í augum annarra.

Tenging við náttúruna er annað atriði sem skiptir máli bæði fyrir andlega og líkamlega vellíðan.

Hlaupin byggja upp úthald, styrk og hraða sem skilar sér inn í alla þjálfun.“

Hefur náð tökum á mörgu í gegnum föstur

Nú stundar þú mikið föstur samhliða þínu mataræði, hvers vegna fastarðu?

„Ég tel föstuna okkar besta og mikilvægasta tól í heilbrigði og líkamlegu jafnvægi. Áhrif föstunnar á líkamann koma fyrst og fremst út frá þeirri hvíld sem líkaminn fær þegar hann fær ekki mat til lengri tíma og fær að hvíla meltingu og fleiri kerfi. Fastan hefur mikil og góð áhrif á sem dæmi frumur líkamans, efnaskiptahæfni hans, blóðsykursstjórn, fitubrennslu, bólgumyndun, þarmaflóruna, hjartaheilsu, vaxtarhormón og langlífi og loks er fastan talin afar góð til að fyrirbyggja ótal lífsstílstengda sjúkdóma. Það góða við föstuna er að þú getur notast við hana hvenær og hvar sem er og stjórnað alfarið sjálfur eða sjálf lengd hverrar föstu fyrir sig. Fastan hefur hjálpað mér að ná ótrúlega góðri stjórn á blóðsykri, hún hefur einfaldað mataræði mitt til muna og aukið hæfni mína til að brenna og nota fitu sem orkugjafa með einfaldari máltíðaskipan yfir daginn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »