Missti mömmu sína 12 ára og ákvað að verða læknir

Sylvía Margrét Cruz ásamt kærasta sínum.
Sylvía Margrét Cruz ásamt kærasta sínum.

Sylvía Margrét Cruz missti móður sína úr krabbameini þegar hún var tólf ára. Frá þeim tíma hefur hana dreymt um að verða skurðlæknir svo hún geti lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn krabbameini. Hún er fædd og uppalin á Íslandi og hefur búið í Kaliforníu síðastliðin tíu ár og er nú búsett í Sacramento þar sem hún er á öðru ári í læknisfræði (MD, e. Doctor of Medicine) í háskólanum í Kaliforníu, Davis School of Medicine.

„Ég er núna í taugafræði í skólanum, sem er ekki alveg í uppáhaldi hjá mér. Kærastinn minn, Michael, er líka í læknisfræði þannig að við getum talað endalaust um alls konar rannsóknir og vísindi saman, sem er mjög skemmtilegt. Hann er annars í skóla í Ohio og ég í Kaliforníu, þannig að það er auðvitað ekki það auðveldasta í heimi að vera í svona fjarsambandi, en við höfum látið sambandið ganga vel seinasta árið í sundur.

Ég hef annars verið að vinna með krabbameinsskurðlækni að alls konar skemmtilegum rannsóknum í kringum krabbameinsskurðlækningar og ónæmisfræði á sarkmeinum, sem eru æxli í beinum og mjúkvefjum líkamans.“

Hvernig er að læra læknisfræði í Bandaríkjunum?

„Mér finnst alveg æðislegt að læra læknisfræði í Bandaríkjunum. Kerfið er aðeins öðruvísi hér en á Íslandi. Maður þarf fyrst að klára fjögurra ára háskólanám, en það skemmtilega við það er að maður getur þannig séð nælt sér í hvaða BS- eða BA-gráðu sem er, svo lengi sem maður tekur þessa grunnkúrsa sem þarf fyrir læknisfræðina. Vinur minn er til dæmis menntaður í jarðfræði og annar í sálfræði, og ég sjálf í líffræði. Bekkurinn minn er líka rosalega fjölbreyttur, bæði hvað viðkemur þjóðerni og reynslu áður en læknisfræðin byrjaði. Sumir eru giftir og með börn, sumir hafa unnið við eitthvað allt annað ótengt læknisfræði, aðrir eru nýbúnir með háskólann og mættir beint í læknisfræðina. Mér finnst ég læra svo ótrúlega mikið af bekkjarfélögum mínum því það eru flestir með svo mismunandi reynslu og fjölbreytt sjónarmið.“

Missti móður sína sem barn

Skólinn sem hún er í er með heilsutengda stefnu þar sem alls konar viðburðir eru gerðir fyrir nemendur til að auka á vellíðan þeirra.

„Við hittumst og gerum hluti saman. Bökum, hreyfum okkur og fleira sem skólinn kostar.

Stór hluti af bekknum er líka duglegur að hittast í garði rétt hjá skólanum og spila blak og grilla. Við erum til dæmis með vellíðunarherbergi á fjórðu hæð í skólanum þar sem er lítill æfingasalur, píanó, baunasekkir til að leggja sig á og fleira. Ég veit að margir aðrir skólar gefa vellíðunardag daginn eftir próf, sem er í grunninn bara aukafrídagur til að slaka á.“

Hvernig læknir ætlarðu að verða?

„Ég hef mestan áhuga á að verða skurðlæknir. Mér finnst mest spennandi að vinna með höndunum, og að bókstaflega sjá vandamál sjúklingsins og geta mestmegnis leyst það á nokkrum klukkustundum á skurðstofunni.

Ég hef mikinn áhuga á að verða krabbameinsskurðlæknir. Ég missti mömmu mína þegar ég var 12 ára. Hún lést af krabbameini, sem er að ég tel grunnurinn að þessum draumi mínum. Okkur er sagt að halda öllum möguleikum opnum út þriðja árið, þannig að við sjáum hvort draumurinn breytist eitthvað.“

Æfir kraftlyftingar fjórum sinnum í viku

Geturðu sagt mér aðeins hvernig þú hugar að eigin heilsu?

„Já, læknanámið er auðvitað langt og erfitt, þannig að ég passa að taka frá tíma fyrir sjálfa mig utan námsins. Það er stundum hægara sagt en gert því stundaskráin breytist mikið og er oft deilt á milli bóklegra tíma og verklegra á spítalanum. Hreyfing og mataræði eru mjög mikilvæg í mínu lífi. Ég æfi kraftlyftingar fjórum sinnum í viku, sem mér finnst ótrúlega skemmtilegt. Ég reyni að borða fjölbreytta fæðu og vera dugleg að borða mikið af grænmeti. Mér finnst einnig mikilvægt að leyfa mér að njóta og borða skemmtilegan mat sem er kannski ekki alltaf sá hollasti. Í öllu stressinu í læknisfræðinni finnst mér lykillinn að finna jafnvægi á milli þess að borða hollt og leyfa sér að njóta.“

Hvað gerir þú fyrir þig daglega til að lifa góðu lífi?

„Ég er algjör A-týpa og verð að hafa skipulag fyrir hvern dag. Mér líður mjög vel þegar ég get krossað yfir það á listanum sem ég klára yfir daginn. Þetta er einhvern veginn svo stór hluti af því sem gerir líf mitt gott. Ég mæti yfirleitt á æfingu um níu á morgnana fjórum sinnum í viku og er einn og hálfan tíma að æfa. Ég er á stöð sem heitir Catharsis, hún er ekki mjög stór en hún er eins konar önnur fjölskylda mín. Þannig verður tíminn í ræktinni einnig félagsleg næring. Fyrir utan ræktartímann er ég að læra megnið af deginum. Læknisfræðin er maraþon, þannig reyni ég að vera dugleg að taka hlé eftir vissan tíma eða eftir ákveðið mörg verkefni. Þá horfi ég á þátt eða fer á Instagram eða í mat með vinum. Ég á líka litla kisu sem heitir Holly. Hún er ágætur félagi svona þegar maður er eiginlega einn úti í heimi, fjölskyldan á Íslandi og kærastinn í Ohio.“

Vildi halda áfram námi í Bandaríkjunum

Sylvía flutti upprunalega til Los Angeles með föður sínum og systkinum þegar hún var fimmtán ára.

„Ég kláraði grunnskóla hér og byrjaði svo í háskóla og fannst ég bara eiga heima í Kaliforníu. Ég vissi líka að læknanámið í Bandaríkjum væri vel viðurkennt nánast alls staðar. Ég hugsaði mikið um hvað það eru takmarkaðir valmöguleikar á sérhæfingu á Íslandi og að flestir enda á að fara til útlanda í sérhæfingu hvort sem er. Vegna þessa fannst mér sniðugara að klára læknisfræðina og sérhæfinguna hér úti og hafa þá valmöguleika að vinna hér eða á Íslandi seinna meir. Ég er líka orðin mjög háð enskunni og var eiginlega miklu spenntari að læra læknisfræðina alla á ensku.“

Sylvía kann vel við sig í Sacramento, sem hún telur mjög áhugaverða borg.

„Sacramento er rosalega mismunandi eftir því hvar þú ert í borginni. Þetta er höfuðborg Kaliforníu og því er mikil menning hér, sér í lagi í kringum „The Capitol“. Fjölbreytileikinn er mikill. Sum svæðin eru listræn og falleg en svo eru önnur þar sem meiri fátækt er og fólk býr í tjöldum á götunni, sem er erfitt að horfa upp á.

Það er líka mjög fjölbreyttur matur hérna. Þú getur fundið mat frá nánast öllum heimshornum. Ég myndi segja að kóreskur, víetnamskur og mexíkóskur matur væri í uppáhaldi hjá mér. Það eru svo margir valmöguleikar fyrir hverja einustu tegund af mat hér.

Ég flutti hingað í miðri kórónuveirunni í júlí 2020 og er ekki búin að skoða borgina eins vel og ég vildi.“

Leggur sitt af mörkum til að hjálpa þeim sem minna mega sín

Hvernig styður borgin við heilbrigðan lífsstíl?

„Það er ágætlega mikil hjólamenning í Sacramento. Það eru margir markaðir um helgar hér þar sem bændur koma frá bæjum hér í kring og selja alls konar ferskt grænmeti og ávexti á mjög góðu verði.

Það eru líka margar stofnanir hér sem berjast fyrir jafnrétti og aðgangi að heilbrigðisþjónustu, sem er alls ekki sjálfsagt í Bandaríkjunum. Ég legg mitt af mörkum með því að vinna á heilsugæslustöð einu sinni til tvisvar í mánuði sem gefur fría þjónustu, sérstaklega fyrir filippseysk-ameríska hermenn (e. veterans) og fjölskyldur þeirra sem eru ekki með heilsbrigðistryggingu og hafa ekki efni á að borga. Þetta er heilsugæslustöð sem við læknanemarnir skipuleggjum. Samtals erum við með 11 heilsugæslur sem gefa þjónustu sína með áherlsu á mismunandi íbúahópa, eins og heimilislausa, eiturlyfjaneytendur og þjóðernishópa.“

Sylvía er á því að hreyfing sé mikilvæg bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu.

„Það eru ekki allir fyrir að hreyfa sig en mitt ráð er að reyna að finna einhvers konar hreyfingu sem viðkomandi finnst áhugaverð og skemmtileg.

Mér finnst gaman að lyfta lóðum, en öðrum finnst kannski gaman að fara í göngu með vinum, mæta í hóptíma í spinning, vinna í garðinum á sumrin eða hvað sem er. Mér finnst líka rosalega mikilvægt að hafa jafnvægi á milli þess sem við sjáum sem staðalímynd af heilsu og þess sem virkilega gerir okkur hamingjusöm.“

Mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum

Er eitthvað nýtt að gerast í læknisfræðinni úti sem þú getur sagt okkur frá?

„Það hefur verið lögð mjög mikil áhersla á fjölbreytni og samtakamátt; inni á spítalanum, í náminu sjálfu og líka bara í samfélaginu. Eins og við vitum erum við öll einstök á okkar eigin hátt í gegnum samsetningu af alls konar hlutum, eins og kyni, trú, þjóðerni, menningu og upplifun. Samband læknis og sjúklings byggist á trausti og virðingu. Það er mjög mikilvægt að læknirinn virði sjúklinginn. Noti sem dæmi persónufornafnið sem sjúklingurinn vill nota og kanni hvernig trú, menning og upplifun hefur árif á heilsufar. Það hefur verið lögð mikil áhersla á þetta í náminu og er ég mjög þakklát fyrir það.

Það er löngu kominn tími til að fagna og virða fjölbreytileikann. Ekki síst við umönnun þeirra sem eru veikir.

Ég vona innilega að svipuð áhersla sé í náminu heima á Íslandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál