Plankaði í níu tíma og 30 mínútur

Daniel Scali í plankastöðu.
Daniel Scali í plankastöðu. Skjáskot/Instagram

Margir setja sér það markmið að halda planka í eina mínútu. Ástralinn Daniel Scali hélt planka töluvert lengur þegar hann komst í heimsmetabók Guinnes en hann hélt planka í níu klukkutíma, 30 mínútur og eina sekúndu.

Scali hefði aldrei trúað því hversu ótrúlegum árangri hann ætti eftir að ná ef honum hefði verið sagt það fyrir fimm árum. Hann glímir við króníska verki í vinstri handlegg eftir að hann datt af trampólíni þegar hann var 12 ára og handleggsbrotnaði. „Verkurinn er enn þarna,“ sagði Scali í viðtali við CNN. „Verkirnir breytast ekki en viðhorfið gagnvart verkjunum breyttist.“

Scali bætti fyrra met um klukkutíma þann 6. ágúst. Þetta var önnur tilraun hans til þess að bæta heimsmetið. Fyrsta tilraunin var dæmd ólögleg en þá hélt hann planka í níu klukkutíma og níu mínútur. „Fyrsti plankinn minn var í nóvember 2020 en hann varði í tvær mínútur,“ sagði Scali sem sagði tvær mínúturnar hafa varað eins og heila eilífð. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og ljóst að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. mbl.is