Allir að taka til í mataræðinu og borða kollagen

Brynjar Helgi Ingólfsson, rekstrarstjóri innkaupa og markaðssviðs Hagkaups, hefur stundað Crossfit undanfarin 11 ár og hefur síðustu 4 ár verið yfirþjálfari hjá Crossfit Kötlu. Hann segir að fólk sé að taka til í mataræði sínu þessa dagana og að vítamín og kollagen frá Feel Iceland. 

„Þetta er gríðarlega skemmtileg og fjölbreytt íþrótt og ekkert skrítið að vinsældir hennar hafa aukist síðustu ár. CrossFit er krefjandi líkamsrækt og skilar mjög góðum árangri á breiðum grunni betra forms. Ég æfi sjálfur fimm til sjö sinnum í viku en flestir sem æfa hjá okkur í Crossfit Kötlu eru að mæta þrisvar til fimm sinnum í viku á æfingar sem er mjög gott. Ég er kannski örlítið ýktur í þessu en þetta gerir mér mjög gott og ég finn fyrir aukinni vellíðan og betri heilsu. Ég finn það bara hversu mikilvægt þetta er fyrir mig að æfa og vera í mjög góðu formi. Mér finnst ég í betra ásigkomulagi til að takast á við verkefni dagsins og hraðann sem þeim fylgja. Svo er þetta mjög góður félagskapur og ekki síður andleg næring en líkamleg að æfa með góðum hópi félaga. Crossfit er fyrir alla og aldursmunurinn er ekkert að þvælast fyrir iðkendum. Ég er til að mynda 46 en flestir mínir félagar eru á bilinu 26-34 ára og við erum allir á sama stað. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og fjölbreytt,“ segir Brynjar.

Brynjar segir að vakning hafi orðið í heilsutengdum lífstíl og aukin eftirspurn eftir heilsuvörum síðustu ár.

„Þetta tvennt samtvinnast, hreyfing og heilsusamlegra líferni. Fólk er að að átta sig betur á því að þetta tvennt skiptir gríðarlega miklu máli og er uppskrift að aukinni vellíðan og betri heilsu. Íslendingar eru mjög meðvitaðir um heilsu, mataræði og líkamsrækt. Það eru alltaf einhverjar bylgjur í mataræði að ryðja sér til rúms og það er skemmtilegt og krefjandi fyrir okkur að elta það allt og vera tilbúin að bjóða upp á þær vörur sem aukin eftirspurn er eftir. Oft og tíðum höfum við þurft að fara langar leiðir erlendis til að anna eftirspurn á ákveðnum vörum. Þessi eltingaleikur er er eitt af því skemmtilegasta sem við í innkaupadeild Hagkaups gerum," segir hann og brosir.

Brynjar segir að þeim fjölgi sífellt sem kjósi sykurlausan og kolvetnissnauðan mat.

„Vinsældir ketó-mataræðisins eru sífellt að aukast enda eru þetta allt vörur sem eru sykurlausar og kolvetnissnauðar. Vegan mataræði hefur rutt sér til rúms undanfarin ár og þeim fjölgar sífellt sem kjósa að neyta engra dýraafurða og borða ekki kjöt, fisk, egg eða mjólkurvörur. Það er ekkert eitt rétt í þessu að mínu mati. Fólk þarf bara að finna sinn stað í þessu og hvað hentar því best. Það ættu allir að að finna eitthvað við sitt hæfi í verslunum Hagkaups enda höfum við lagt mikið upp úr því að geta verið með mikla breidd í matvælum," segir Brynjar.

Aðspurður um hvað Íslendingar séu mest að kaupa nefnir hann vítamín og kollagen duft.   

„Það virðist sem fólk sé að taka til í mataræðinu eftir rútínuleysi sumarsins þar sem fólk leyfir sér meira og annað í mat. Á haustin virðist rútínan taka völdin, fólk byrjar aftur í vinnunni eftir sumarfrí, krakkarnir byrja í skólunum. Fólk fer að stilla inn á líkamsræktina aftur og í leiðinni inn á heilsusamlegri mat. Svo má eki gleyma að uppskerutíminn á íslensku grænmeti er akkúrat í gangi núna á haustin. Það verður varla hollara í matinn en glænýtt íslenskt grænmeti,“ segir Brynjar og nefnir að fólk sé að kaupa Feel Icleand kollagen duft í stórum stíl, góðgerla sem bæta meltinguna og Nutrilenk, til að laga liði og fleira. Þar á eftir á listanum koma millimálstykki frá Atkins og prótein Pancake.

mbl.is