„Þú getur ekki grennt þig með hatri“

Linda Pétursdóttir lífsþjálfi hjálpar konum við að léttast.
Linda Pétursdóttir lífsþjálfi hjálpar konum við að léttast. mb.is/Ásta Kristjánsdóttir

Hlaðvarp Lindu Pétursdóttur er vinsælt um þessar mundir og fór fertugasti og fyrsti þáttur þess í loftið í vikunni. Í þættinum fjallar Linda um virðingu og sjálfsást. 

„Öll viljum við fá tafarlausan árangur og vellíðan allan tímann sem við erum að léttast. Við teljum okkur eiga rétt á huggun, tafarlausri hamingju og góðum árangri! Við viljum léttast, en við viljum ekki upplifa ferlið við að léttast.

Reikningsjafna þess að við erum of þung er einföld. Við borðum of mikið. En það sem er mikilvægt er að komast að grunnorsök þess að við borðum of mikið. Þetta kenni ég viðskiptavinum mínum. Málið er að á meðan þú ert í ferlinu að átta þig á því hvers vegna þú borðar of mikið verðurðu líka meðvitaðri og tengdari sjálfri þér. Það er svo spennandi vegna þess að það er einmitt það sem lífið snýst um, ekki satt?

Er það alltaf skemmtilegt? Nei. Er það auðveld eða þægileg skyndilausn? Nei, en það er varanleg lausn, því ef þú getur fundið út hvers vegna þú borðar of mikið og þú getur leyst þann vanda, þá þarftu ekki stöðugt að vera í baráttu gegn sjálfri þér. Þú þarft ekki að nota viljastyrkinn, þú þarft ekki að berjast gegn sjálfri þér vegna þess að þú ert ekki lengur að berjast við einkennin, heldur ertu að meðhöndla orsökina.“

Linda segir mikilvægt að konur spyrji sig hvernig þeim líður í eigin líkama. 

„Líkaminn þinn er sá líkami sem þér var færður að gjöf í þessu lífi. Já, þinn einstaki líkami er gjöf til þín. Það er kominn tími til að hætta að hafna honum og rífa hann niður!

Þegar þú getur gengist við því að líkaminn sem þú ert í er sá sem þér er ætlað að vera í, geturðu fundið djúpa virðingu fyrir honum og gert breytingar á því hvernig þú meðhöndlar hann.

Með virðingu að leiðarljósi geturðu stillt það af hvað og hversu mikið þú borðar. En ef þú ert að bíða eftir að samþykkja líkamann þinn þar til hann lítur út eins og önnur útgáfa af þér muntu halda áfram að hafna sjálfri þér það sem eftir er ævinnar.

Sannleikurinn er sá að þú getur ekki grennt þig með hatri og haldið árangrinum til frambúðar því slíkt er ekki hægt að umbera. Það stríðir gegn skilyrðislausri ást þinni til sjálfrar þín. Þegar þú lærir að samþykkja líkamann þinn eins og hann er núna og kannt að meta að hann býr yfir öllu því sem þú þarft og lærir að hafa stjórn á því hvað og hversu mikið þú borðar, geturðu farið að stjórna og skapa þær niðurstöður sem þú sækist eftir.

Þetta er líkaminn sem þú ætlar að skapa fyrir sjálfa þig og með því að standa við það ertu komin með lykilinn að því að hætta að borða of mikið og þar með lykilinn að því að grennast,“ segir Linda í hlaðvarpinu. 

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is