Að vera sáttur í sínu og gefa sér rými til að vera svolítið „messy“

Helga Guðný Thódórs kennir konum Barre.
Helga Guðný Thódórs kennir konum Barre. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Guðný Theódórs flutti til Kaliforníu 2007 og kolféll fyrir Barre-leikfimi sem er sambland af pilates-æfingum, jóga og styrktaræfingum. Eftir að hafa mætt í fyrsta Barre-tímann heillaðist hún upp úr skónum og lærði að vera Barre-kennari. Nú er hún flutt til Íslands og kennir íslenskum konum að hreyfa sig rétt. 

„Góð vinkona mín, Kristín Agnarsdóttir, sem flutti út til Kaliforníu á sama tíma og ég árið 2007, uppgötvaði Barre þar úti og mætti bara heim til mín einn daginn og dró mig í tíma með sér í Oakland, þar sem við bjuggum báðar. Sjálf ætlaði ég sko ekkert að fara í einhverja hópleikfimi, var komin með alveg nóg eftir margra ára þolfimitíma, en ég lét til leiðast. Ég kolféll svo fyrir Barre alveg frá fyrsta tíma og mætti 28 sinnum fyrsta mánuðinn minn. Seinna, þegar ég var ólétt af þriðja stráknum mínum fluttum við fjölskyldan til Petaluma, sem er afskekktari og þar var ekkert Barre-stúdíó nálægt. Ég var búin að vera mjög dugleg að taka tíma í ófrískunni og vildi ekki missa dampinn og saknaði þess að komast ekki í tíma. Ég hafði því samband við höfuðstöðvarnar, kynnti mig og sagðist ekki geta hugsað mér lífið án Barre og þær settu mig í samband við konu sem var að opna stúdíó ekki svo langt frá mér. Planið var ekki að verða kennari, ég vildi bara geta stundað Barre og kannski vinna í afgreiðslunni gegn því að fá afslátt, en ég kynntist eiganda stúdíósins og hún sannfærði mig um að kennsla væri bara næsta skref hjá mér,“ segir Helga Guðný.

Við tók sex mánaða námskeið í höfuðstöðvunum þar sem Helga Guðný lærði allar æfingarnar og lærði að kenna með nemandann að leiðarljósi.

„Við lærðum að þekkja inn á líkamann bæði í gegnum anatómíu og í gegnum „hands-on corrections“, sem er í raun það sem gerir Barre að því flotta kerfi sem það er. Nemandinn, líkami hans og vellíðan, er það mikilvægasta í öllu Barre-kerfinu. Ég þurfti að mæta í ákveðið marga tíma, prufukenna sjálf fullt af tímum og haustið 2012 tók ég svo lokapróf og hóf kennslu í nýju stúdíó í Santa Rosa. Eftir nokkur ár þar fluttum við suður til Los Angeles, þar sem ég varð meðeigandi í stúdíói um tíma. Árið 2017 fluttum við okkur svo aftur um set til Pasadena þar sem ég kenndi og rak stúdíó ásamt því að bæta við mig 200 klukkustunda jógakennaranámi.

Helsti hvatinn við að byrja í Barre var að komast út úr húsi, frá tölvunni, einverunni og skrifborðsstólnum til að hitta aðrar fullorðnar konur á sömu bylgjulengd og ég. Upp úr því að stunda Barre fann ég svo þessa óvæntu ástríðu fyrir því að kenna sem hefur verið minn drifkraftur alveg síðan. Ég hreinlega elska að kenna Barre,“ segir hún. Það kemur líklega ekki á óvart því þær konur sem hafa verið í tímum hjá Helgu Guðnýju í Hreyfingu vita að hún kennir af öllu hjarta og með öllum líkamanum.

Hér er Helga Guðný fyrir miðju.
Hér er Helga Guðný fyrir miðju.

Þegar Helga Guðný er spurð hvað Barre-æfingar geri fyrir líkamann segir hún að þær styrki hann og lengi vöðvana á meðan verið er að styrkja þá.

„Það er aldrei verið að flýta sér neitt, líkamanum er haldið í stöðunni lengur en hann yfirleitt vill vera, gerðar eru smáar hreyfingar til styrkingar og staðan dýpkuð rólega. Það er ekkert verið að notast við sprengikraft, hopp og skopp, þó að við gerum fullt af cardio-æfingum í tíma líka til að vinna í hjartanu og þoli.

Allar hreyfingar ganga út frá því að við setjum bein líkamans í rétta stöðu, vinnum svo í vöðvum líkamans sem styrkja við þá stöðu, notum litlar hreyfingar til að styrkja en notum stórar hreyfingar inn á milli til að slaka á vöðvum án þess að stoppa á milli æfinga, sem teygir líka á vöðvunum í senn. Úr verður langur, sterkur og tónaður líkami. Ég segi alltaf að þegar maður er búinn að vera Barre í smá tíma liggur við að maður stækki um nokkra sentimetra því það réttist úr manni með tímanum þegar maður lærir að beita líkamanum rétt,“ segir hún.

Hvers vegna féllstu fyrir þessari hreyfingu?

„Ég hef alltaf verið mikið fyrir að hreyfa mig. Foreldrar mínir eru þar mín helsta fyrirmynd. Þau voru bæði mikið hlaupafólk í mörg ár og ég byrjaði að skokka með þegar ég var 5 ára. Ég æfði svo frjálsar um stund en fann mig ekki alveg í því. Seinna álpaðist ég inn í tíma hjá Magnúsi Scheving þegar hann var að byrja og henti mér á kaf í þolfimi í mörg mörg ár. Eftir tvítugt varð ég ófrísk og átti upp úr því erfitt með að finna eitthvað sem ég hafði gaman af. Ég hljóp, fór í ræktina og synti en það vantaði alltaf eitthvað upp á. Eftir fyrsta Barre-tímann minn vissi ég varla hvað hefði komið fyrir mig. Ég fann fyrir vöðvum sem ég vissi ekki að væru til. Þetta var alveg ótrúlega erfitt en alveg ótrúlega gaman! Ég elska að enginn tími er eins, líkaminn fær aldrei alveg að venjast æfingunum, ég var þreytt en ekki búin á því. Ég kom algerlega endurnærð úr þessum erfiðu tímum og fyrir mig var það alveg fullkomin formúla!“

Hver finnst þér helsti ávinningurinn vera?

„Þegar ég var farin að stunda Barre reglulega og kunni orðið vel inn á kerfið þá hélt ég að þetta yrði nú bara auðvelt, en helsti ávinningurinn er að því meira sem þú veist því betur geturðu gert, svo það er alltaf hægt að ná frekari árangri í sínum eigin líkama. Tenging hugar og líkama er líka mikill ávinningur, því ég lærði að þekkja inn á styrki og veikleika hjá mér og eins líka að ýta mér aðeins út fyrir þægindarammann til að ná frekari árangri en einnig að hlusta þegar ég þurfti að taka því rólega. Það þarf ekki alltaf allt að vera á 100 snúningum og ég lærði að gera þetta fyrir mig og engan annan.

Þegar við lærum að hreyfa okkur rétt náum við líka að vinna á hinum ýmsu kvillum. Ég var til dæmis alltaf slæm í öxlum áður en ég byrjaði í Barre. Hné sem eru viðkvæm styrkjast mikið við þetta og það verður manni hjartans mál að ná árangri í réttri líkamsstöðu ofar því að „taka á því“. Það er svo auðvelt að festast í einhverju einu, læra rútínu, fylgja fastri formúlu, en með góðri fjölbreyttri tónlist og öðruvísi nálgun á æfingum hverju sinni er Barre alltaf nýtt, ferskt og skemmtilegt,“ segir hún.

Þarf fólk að vera gott í íþróttum til að gera Barre-æfingar?

„Fólk þarf svo sannarlega ekki að vera gott í íþróttum til að gera Barre. Misskilningurinn er oft sá að fólk heldur að það þurfi að hafa einhvern ballett-grunn, eða jafnvel dansgrunn, vera liðugt eða í æfingu en Barre er svo frábært að því leytinu til að þú ferð í þínum hraða. Æfingarnar eru settar upp svo allir geti fylgst með, svo byrjum við að hreyfa okkur hægt, fyrir þá sem vilja er hægt að gera hlutina hraðar, aðeins dýpra eða bara hægja á ef þarf. Við vinnum öll með sömu æfingar en oft á mismunandi hraða, sem er bara yndislegt. Við vinnum í hópi en pössum samt alltaf upp á einstaklinginn, svo að hverjum og einum sem tekur tíma líður eins og hann sé að gera rétt fyrir sig. Ég býð alltaf upp á breyttar stöður fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með einhverjar æfingar því við þurfum svo sannarlega ekki öll að vera eins.“

Getur þú lýst því hvað Barre gengur nákvæmlega út á?

„Barre er blanda af pilates, jóga, styrktaræfingum og teygjum sem eru gerðar við ballettstöng, þótt ekki sé unnið við stöngina allan tímann. Í týpískum tíma er gerð góð upphitun, kviður styrktur því það er svo mikilvægt að átta sig á að góð miðja er grunnurinn að flestum æfingum hvort sem það séu kvið-, handa-, læra- eða rassæfingar. Unnið er með léttum lóðum til að styrkja hendur en við vinnum að mestu með eigin líkamsþyngd og það er alltaf hægt að sleppa lóðunum. Uppbygging tímans er að mestu þannig að við styrkjum vöðva og svo teygjum við á honum, kviðæfingum er dreift inn á milli æfinga stóru vöðvanna og svo er slakað vel á til að ljúka tímanum. Stundum er áherslan á styrkinn, stundum á mjúkar hreyfingar, stundum hreyfum við okkur mikið og náum hjartslættinum vel upp en það er alltaf unnið með hendur, læri, rass og maga í hverjum tíma. Við förum í gegnum allan líkamann á þessum 50 mínútum sem tíminn er.“

Nú ertu nýflutt heim eftir að hafa búið í Kaliforníu lengi. Hvernig tilfinning er það?

„Það er mikil breyting og við hjónin enn að læra inn á þetta nýja Ísland. Við fluttum út 2007 sem var rétt fyrir hrun og þá var ferðamannabransinn ekki kominn á flug og Ísland hefur breyst mikið í þeirri gósentíð. Auðvitað setti Covid strik í reikninginn og við komum heim rétt áður en öllu var lokað hér í nóvember og desember. Svo það er kannski fyrst núna í sumar sem maður hefur fengið að upplifa Íslandið sitt aftur. Okkur finnst svo margt jákvætt sem hefur fylgt túrismanum og finnst yndislegt að sjá fjölbreytileikann í samfélaginu, því börnin okkar eru svo vön því.

Ég myndi segja að það helsta hjá mér er að læra að elda upp á nýtt með íslenskum hráefnum. Úrvalið er auðvitað ekki það sama og í Kaliforníu og börnin mín sem borðuðu ávexti í hvert mál fá jarðarber eða bláber nú einungis á tyllidögum að mér finnst. Við erum samt með eina rosalega eplaætu á heimilinu og ég er ekki frá því að við séum búin að halda uppi Pink Lady-innflutningi til landsins síðan við komum heim í nóvember og hann mjög glaður að fá góð epli en hann borðar um þrjár öskjur í viku, ég lýg því ekki.

Það er yndislegt að vera komin í faðm fjölskyldu okkar, drengirnir eru himinlifandi yfir öllu frelsinu hér og ég ímynda mér að þetta verði allt eins og áður var eftir smá tíma. Kalifornía mun þó alltaf eiga stóran stóran sess í mínu hjarta. Þar fann ég mína ástríðu, fékk að þróa hana og vinna við hana og við fjölskyldan áttum 13 frábær ár þar,“ segir Helga Guðný.

Eru íslenskar konur frábrugðnar þeim kalifornísku?

„Hmmm... já og nei. Íslenskar konur eru nýjungagjarnar líkt og þær kalifornísku, sem er mjög jákvætt. Það er sem skilur þær að er kannski bara helst að það er auðvitað stór hópur af konum í Ameríku sem eru heimavinnandi húsmæður, og voru því til dæmis Barre-tímar um miðjan morgun mjög vinsælir. Þá voru börnin farin í skóla og mæðurnar komu í tíma áður en húsverkin og daglega lífið tók við. Hér eru auðvitað flestar mæður útivinnandi svo tíminn fyrir hreyfingu og sjálfa sig er annar. Los Angeles er auðvitað engu lík því hún er svo rosalegur suðupottur af alls konar fólki sem býr saman í sátt og samlyndi, sem er auðvitað það sem maður lærir að elska við hana. Þú getur haft Michelle Pfeiffer í tíma hjá þér, sem gerðist reyndar einu sinni hjá mér, og við hliðina á henni er hippi sem hefur ekki þvegið sér í nokkra daga og þar við hliðina er kona sem er nýbúin að vera í rosalegum fegrunaraðgerðum en allar eru jafn ljúfar og yndislegar! Á Íslandi erum við auðvitað færri og öfgarnar ekki þær sömu. Ég hef hitt alveg stórkostlegar konur bæði í Hreyfingu og á Eiðistorgi þar sem ég er með Barre-tímana mína og finnst yndislegt að finna fyrir sterkri samfélagstengingu í gegnum Barre. Allt eru þetta konur sem gefa sér tíma til að hugsa um sig sjálfar, taka frá tíma í heilsuna og sjá hvað það er mikils virði að gera slíkt, íslenskar konur eiga það svo sannarlega sameiginlegt með þeim kalifornísku.“

Helga Guðný Thódórs.
Helga Guðný Thódórs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað gerir þú sjálf til að hugsa sem best um heilsuna?

„Ég hef síðustu ár tekið reglulega föstu, eða 16:8, og það hentar mér mjög vel. Eftir að ég varð 40 ára þá fóru hinir ýmsu hlutir að angra mig varðandi mat, maginn var oft ósáttur og hormón komin aðeins úr jafnvægi, en ég mér líður alveg stórvel líkamlega þegar ég fasta á þennan hátt á móti góðri hollri fæðu. Ég tek vítamín, pre- og probiotics, dim og auðvitað íslenskar þaratöflur fyrir hár og neglur. Ég er dugleg að hreyfa mig reglulega heima í stofu hjá mér á milli kennslustunda og vinnutarna í grafíkinni og fjölskyldan því alvön að ég dragi fram dýnuna og hreyfi mig þótt allt sé á fullu í kringum mig, litli kúturinn minn á það til að taka nokkrar æfingar með mér sem er bara skemmtilegt.

Ég lifi eftir þeim formerkjunum að allt sé gott í hófi, leyfi mér allt þegar þannig stendur á og heilsan og hamingjan er best þegar maður er umvafinn skemmtilegu fólki og nýtur lífsins. Að vera sáttur í sínu og gefa sér rými til að vera svolítið „messy“ og finnast maður ekki þurfa að vera fullkomin! Lífið er svo miklu skemmtilegra þannig, er það ekki?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »