Brynja gerðist grænmetisæta fimmtán ára

Þegar leikkonan og fyrirsætan Brynja Guðmundsdóttir var fimmtán ára setti hún formlegan status á Facebook um að hún hygðist gerast grænmetisæta. Fram að því hafði hún aðallega lifað á skinkusamlokum með osti en eftir að hafa lesið sér til um kosti þess að vera grænmetisæta, og fengið innblástur frá eldri systrum, tók hún af skarið og hætti að borða kjöt. 

Það má eiginlega segja að mér hafi alltaf þótt kjötið minna og minna spennandi eftir því sem ég las mér betur til um þetta. Á endanum fannst mér það bara orðið ógirnilegt svo það var í raun ekkert erfitt að hætta að borða það,“ segir Brynja og bætir við að hennar helsta ástæða fyrir því að sleppa kjötáti sé fyrst og fremst umhyggja fyrir dýrum.

„En það eru samt svo margar ástæður sem fólk byggir þessa ákvörðun á. Til dæmis bara hvað umhverfið varðar en framleiðslu á kjöti fylgir til dæmis gasmengun og eykur á kolefnisspor. Í mínum huga er það „win/win“ fyrir alla þegar fólk ákveður að gerast grænmetisætur. Dýrin, umhverfið og við sjálf höfum gott af því.“

Þegar Brynja tilkynnti skólafélögum sínum í tíunda bekk í Valhúsaskóla að hún væri formlega orðin grænmetisæta áttu flestir krakkarnir mjög erfitt með að skilja þá ákvörðun enda tíu ár síðan og umræða um þessi mál orðin mjög áberandi.

„Krakkarnir skildu mig eiginlega ekki. Þau héldu að þar sem ég var hætt að borða kjöt þá hlyti ég að borða bara kál. Þau gátu alls ekki ímyndað sér að það væri hægt að borða ekki kjöt og hvað þá aðrar dýraafurðir. Þá hafði enginn heyrt orðið vegan en núna vita allir hvað það er. Meira að segja ömmur og afar.“

Þegar fólk velur sér öðruvísi lífsstíl en meirihlutinn aðhyllist þá gerist það oft að það mætir gagnrýni eða ögrun frá öðrum í kringum sig. Eftir fimm ár sem grænmetisæta tók Brynja sig til og gerðist vegan en á þeim lífsstíl hafa margir skoðanir.

„Það sem mér finnst einna erfiðast er að fá fólk til að sættast við að ég vilji haga mínu mataræði svona, þótt það sé kannski ekki sammála eða skilji mig til fulls. Það eru bara alltaf einhverjir sem taka þetta ekki í mál og líta í raun niður á mig og aðra sem hafa tekið þessa ákvörðun. Um leið og maður gerist vegan þá er það eins og við manninn mælt að einhver mætir og fer að tjá sig um að maður hljóti nú að þjást af prótín- og næringarskorti sem er áhugavert þar sem enginn hafði áhyggjur af manni áður. Fólk sem borðar kjöt fær ekki sjálfkrafa það magn af járni og prótíni sem við þurfum á að halda. Þegar ég var krakki lifði ég á samlokum með osti og skinku en það breyttist þegar ég hætti að borða kjöt. Þá byrjaði ég að borða miklu hollari mat. Hafði til dæmis alltaf hatað grænmeti en það snerist alveg við og ég varð vitlaus í það. Veganmatur er oftast mjög góður og það er ekkert sem maður þarf að sakna. Á sama tíma veit maður að maður er að gera sjálfum sér, dýrunum og náttúrunni gott,“ segir Brynja sem er bæði dugleg að fara á veitingastaði og elda heima hjá sér. „Besti maturinn er auðvitað matur sem maður eldar sjálfur. Það er gott að vita alveg hvað er í matnum. Ég gríp mjög oft í það að fá mér vefjur með steiktu grænmeti og kasjúhnetusósu sem er auðvelt að gera í blandara. Svo steiki ég oft tófú í olíu og fullt af kryddi. Tófú er nefnilega frekar óspennandi ef maður kryddar það ekki vel en það er mjög gott að elda alls konar rétti úr því.“

Brynja er líka áhugasöm um nýja veganveitingastaði í bænum en sá sem hún heldur mest upp á núna kallast Vegan World Peace og er í Aðalstræti. „Svo er uppáhaldsbrönsinn minn á Coocoo's Nest úti á Granda. Vegan-búrrítóið þar er rosalega gott og ég mæli með að fólk prófi það.“

Vont skap kallar á vont mataræði

Áherslan á að rækta andlega heilsu og hlúa að sálarlífinu hefur verið áberandi síðustu misserin og öll umræða þar í kring orðin mun opnari. Brynja er meðal þeirra sem setja andlegu hliðina í fyrsta sæti vegna þess að ef það er ekki gert þá fer annað af sporinu.

„Ef maður er í góðu andlegu jafnvægi sinnir maður yfirleitt mataræðinu vel en þegar ég er í vondu og neikvæðu skapi langar mig oftast að detta í einhverja óhollustu,“ segir hún og eflaust margir sem geta tengt við það.

Brynja fer ýmsar leiðir til að sinna andlegu hliðinni en best finnst henni að fara út í náttúruna.

„Ég eyði tíma í náttúrunni fyrir heilsuna. Mér finnst það gera mjög mikið fyrir mig og oft er ég alveg endurnærð eftir að hafa farið úr skóm og sokkum og gengið um á grasi eða sandi. Ég elska það. Svo finnst mér líka gott að hugleiða og gera jógaæfingar en ég byrjaði á þeim í sumar. Systir mín setti mig inn í þetta og við gerðum æfingar í gegn um Audible. Jóga er alveg frábært. Mér finnst svo svakalega mikilvægt að hlusta á líkamann, hvað hann þarf og hvenær er gott að stoppa. Ég er enn að læra það. Mér finnst ég til dæmis borða allt of hratt og svo borða ég yfir mig þegar ég verð of svöng. En svo eru líkamar auðvitað mismunandi og allir þurfa bara að finna út hvað er best fyrir mann sjálfan. Það er engin ein rétt formúla sem virkar fyrir alla,“ segir þessi glæsilega leikkona að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »