„Blæðingar eiga ekki að vera feimnismál“

Rósubox er eins og góð vinkona í formi box.
Rósubox er eins og góð vinkona í formi box. Ljósmynd/Aðsend

Fanndís Dóra Þórisdóttir er þrítugur Húsvíkingur og stofnandi fyrirtækisins Organized. Organized er lítið fyrirtæki í sókn og sérhæfir sig í sölu á áskriftarboxum. Hugmyndin fæddist fyrr á árinu en Fanndís hafði verið á fullu hugarflugi fram og til baka og hafði haft í hyggju að útbúa einhvers konar áskriftarbox í þó nokkurn tíma. Þegar hugmyndin um Rósubox kom svo til hennar varð ekki aftur snúið. 

„Rósubox eru áskriftarbox fyrir konur sem hafa reglulegar tíðir. Ég vildi finna eitthvað sem myndi virkilega koma að góðum notum, ekki eitthvað algerlega handahófskennt sem kemur ekki neinum að gagni. Ég hafði hugsað þetta lengi en þegar þessi hugmynd kom til mín þá var hún bara komin til að vera,“ segir Fanndís.  

Rósubox eru óhefðbundin áskriftarbox sem hugsuð eru sem sjálfvirk leið fyrir konur til að gera mánaðarlegu heimsóknina frá Rósu frænku örlítið bærilegri. 

„Rósubox er í rauninni eins og góð vinkona í formi box,“ útskýrir Fanndís. „Hún kemur einu sinni í mánuði og færir þér box sem inniheldur þær tíðarvörur sem þú veist að þú kemur til með að nota og vanta, súkkulaði og góðgæti sem þú veist að þig mun langa í og síðast en ekki síst dekur- og hreinlætisvörur. Það er nauðsynlegt að dekra við sjálfa sig þegar maður er á blæðingum og hugsa vel um hreinlætið. Ég hef aðeins skoðað innihaldið út frá sjálfri mér. Túrtappar og álfabikar hafa hentað mér best í gegnum tíðina og svo er ég mjög hrifin af mjólkursúkkulaði, sætu og söltu. Margar konur upplifa sykurþrá meðan á blæðingum stendur, ég er ein af þeim.“

Fanndís Dóra er konan á bakvið Rósubox.
Fanndís Dóra er konan á bakvið Rósubox. Ljósmynd/Aðsend

Mánaðarlegt dekur

Fanndís segir að í boxunum séu alltaf tólf stykki af þeim tíðavörum sem hver og ein kona velur fyrir sig í upphafi áskriftarleiðarinnar. Í boði sé að fá nánast allar tíðarvörur sem til eru. Í raun allt það sem hver og ein kona kýs að nota. Boxin séu því vegleg og hafi ríkt notagildi fyrir þann tíma mánaðarins. Fanndís segir það geta verið þýðingarmikið fyrir konur að dekra svolítið við sig endrum og eins. 

„Svo eru líka súkkulaði og nammi í boxunum, tvenns konar dekurvörur, te, heitt súkkulaði og alls konar. Þetta kemur allt að góðum notum enda höfum við verið að byggja upp góðan og tryggan áskriftarhóp síðustu misseri en tökum nýjum áskrifendum að sjálfsögðu fagnandi,“ segir Fanndís og bætir við að vegna fjölda áskorana hafi hún ákveðið að bjóða upp á Rósubox í formi dekurs fyrir þær konur sem ekki hafa tíðir en hafa ánægju af því að fá óvæntan dekurglaðning einu sinni í mánuði. Þá séu stöðugar endurbætur að eiga sér stað á vefsíðu Rósuboxa og vöruþróun í vinnusluferli.

„Þú þarft því ekki að fara á túr til þess að geta notið innihalds boxins, þú færð bara box án tíðavara og getur dekrað við þig eins og enginn sé morgundagurinn. Við erum að vinna í ýmsum nýjungum sem verða í boði á vefsíðunni innan skamms.“

Boxin eru hugsuð fyrir konur sem reglulega hafa tíðir en …
Boxin eru hugsuð fyrir konur sem reglulega hafa tíðir en líka sem dekurbox fyrir þær sem ekki fara á blæðingar. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfisvæn box

Hugsar þú um umhverfismál við þróun og rekstur Rósuboxa?   

„Algjörlega, okkur er mjög umhugað um það. Boxið sjálft er úr endurvinnanlegum sléttum pappa sem þú getur flokkað með mjólkurfernum og kössunum utan af morgunkorninu þínu og ýmsu öðru sem fer í grænu endurvinnslutunnuna.“

Fanndís segir mikið magn af plasti að finna í mörgum tíðavörum sem geti verið heilsusamlega slæmt fyrir konur og sé einstaklega óumhverfisvænt.

„Við notum eingöngu tíðavörur frá Natracare. Það eru ekki allar konur sem vita að það er ekkert smáræði af plasti notað í margar tíðavörur, en Natracare-tíðavörurnar eru unnar úr endurvinnanlegum og niðurbrjótanlegum efnum sem eru plastfrí að öllu leyti. Mér finnst líka mikilvægt að nota vörur sem innihalda engin ofnæmisvaldandi efni, sérstaklega þegar viðkvæm svæði eru annars vegar. Þessar vörur henta því langflestum.“

Boxin sjálf eru umhverfisvæn og endurvinnanleg.
Boxin sjálf eru umhverfisvæn og endurvinnanleg. Ljósmynd/Aðsend

Brýnt að fræða börn um blæðingar

Tíðablæðingar kvenna hafa oft mætt skilningsleysi í samfélaginu og verið svokallað „tabú“ þrátt fyrir að vera konum eðlilegar. Fanndís segir það vera tilkomið vegna upplýsingaleysis og fræðluskorts og hvetur hún skólastjórnendur til að gera betur í kynfræðslu í skólum.

„Blæðingar ættu ekki að vera feimnismál hjá neinum. Hvorki stelpum né strákum. Á minni skólagöngu var kynfræðslan ekki upp á marga fiska en ég vona að hún sé skárri í dag. Það skiptir svo miklu máli að útskýra fyrir börnum hvað þetta er og af hverju. Það er ekki talað nógu opinskátt um þessi mál. Ef við fræðum börnin okkar vel og örugglega eru miklar líkur á að þau líti öðruvísi á þessa hluti þegar þau fullorðnast,“ segir Fanndís.

Hefur þú einhver góð ráð fyrir konur á túr?

„Leyfið ykkur. Það er vísindalega sannað að ástæðan fyrir því að margar konur upplifa oft mikla löngun í súkkulaði þegar þær eru á blæðingum er sú að hormónin estrógen og prógesterón eru á lægsta punkti sem veldur því að við upplifum meira hungur en vanalega. Svo getur skortur á magnesíum spilað inn í þetta líka, það getur valdið þreytu en á þessum tíma mánaðarins þurfum við á meiri orku að halda. Leyfið ykkur dökkt súkkulaði, það er talið hafa góð áhrif á túrverki.“

Að hlusta á líkamann er vísa sem aldrei verður of oft kveðin. Fanndís segir það svo sannarlega eiga vel við þegar konur eru á blæðingum. „Þó svo að þig langi kannski bara til að liggja uppi í rúmi í fósturstellingunni, þá getur verið gott að gera léttar æfingar, jóga eða fara í stuttan göngutúr. Það getur hjálpað til með uppþembu og kemur blóðflæðinu af stað, sem leiðir til losunar á vellíðunarhormóninu endorfíni. Ég ráðlegg konum sem eru á blæðingum líka að hugsa um koffínneysluna. Það er gott að halda henni í lágmarki því mikið magn af koffíni getur ýtt undir slæma túrverki. Passa svefn, slaka á, dekra við sig, fara í heitt bað og vera áskrifandi að Rósuboxi – þá verður allt bærilegra,“ segir Fanndís að lokum.  

Hér má sjá dæmi um innihald boxanna.
Hér má sjá dæmi um innihald boxanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is