„Þarft hvorki að skila eiginmanninum né gefa börnin“

Linda útskýrir hvað það er að fá sér lífsþjálfa og …
Linda útskýrir hvað það er að fá sér lífsþjálfa og ástæðuna fyrir því að konur hætta aldrei að læra. mbl.is/Ásta Kristjánsdóttir

Hlaðvarp Lindu Pét­urs­dótt­ur er vin­sælt um þess­ar mund­ir og fór fer­tug­asti og þriðji þátt­ur þess í loftið í vik­unni. Í þætt­in­um fjall­ar Linda um hvað það er að vera lífsþjálfari. Linda spjallar við Dögg Stefánsdóttir en báðar eru þær lífsþjálfar í Prógramminu Lífið með Lindu Pé. 

„Lífsþjálfun er orsakaþjálfun, sem þýðir að við vinnum með orsök aðgerða en ekki einkenni. Það snýst um að finna orsökina sem er á bakvið niðurstöðuna í lífi þínu í dag því það er eina leiðin til þess að geta gert langvarandi breytingu. Því ef þú ert alltaf að vinna einungis með einkennin eða afleiðingarnar, þá ferðu alltaf aftur í sama farið því þú varst ekki að ráðast á rót vandans. Þar liggur vandamálið.

Við þurfum ekki að breyta fólkinu í kringum okkur eða aðstæðum til þess að okkur geti liðið betur. Þú þarft hvorki að skila eiginmanninum, gefa börnin þín, kaupa annað hús eða skipta um vinnu til þess að þér geti liðið betur! Fólkið í kringum okkur þarf ekki að breytast svo að okkur geti liðið betur, og það er mikið frelsi sem felst í því að átta sig á því að allar breytingar á líðan okkar felast í hugsunum okkar, en ekki utanaðkomandi aðstæðum. Þegar ég lærði þetta fannst mér persónulega þetta vera bestu fréttir í heimi,“ segir Linda. 

Það sem megrunariðnaðurinn klikkar á er að hann er ekki að ráðast á rót vandans að mati þeirra Lindu og Daggar.

„Rótin er alltaf hugsanir okkar. Þess vegna þekkja svo margar konur að vera í svokölluð „jó-jó megrunarkúrum“. Hinn hefðbundni megrunarkúr byggir yfirleitt á athöfunum og gjörðum sem búa það svo til að þú getir losað þig við kíló en allar þekkjum við líka þetta „jó-jó ferli“ þar sem við missum og bætum aftur á okkur kílóunum sem við misstum. Það gerist af því það er ekki verið að vinna með hugarfarið og sjálfsmyndina. Ef þessi kona er með hugarfarið að hún sé kona sem geti ekki lést eða að hún bæti þessu alltaf á sig aftur, ef það er hugarfarið þá mun hún alltaf bæta þyngdinni á sig aftur,“ segja þær. 

Því sem þú veitir athygli vex og dafnar að mati Daggar.

„Heilinn fer alltaf í það að sanna að hugsun þín sé rétt og þú ferð að eyðileggja árangur þinn. En það sem við gerum hér í Prógramminu er að við vinnum með hugarfarið, og lærum á muninn á frum- og framheila, og þannig nærðu árangri.

Við skoðum sjálfsniðsrifshugsanir kvennanna okkar því þeim þarf fyrst og fremst að breyta til að vinna í því að fá breytta niðurstöðu í lífinu. Það er svo frábært að fylgjast með því hvernig konurnar sem við vinnum með hafa að lært að láta af sjálfsniðurrifi. Ávinningurinn af þessari vinnu er svo miklu meira en að losna við aukakílóin, það er bara bónus,“ segir hún. 

Sjálfsmyndin skapar umgjörð lífsins að mati Lindu. 

„Sjálfsmynd er einmitt það sem við vinnum með í Prógramminu og við höfum skipt því niður í þrjá meginstólpa en þeir eru: Hugarfar, stíll og umhverfi og vellíðan. 

Með þessari sjálfsvinnu erum við að gefa konum tól og verkfæri til þess að bæta líf sitt. Mér finnst ágætis myndlíking vera að við kennum konum að taka stjórnina með því fara úr farþegasætinu og yfir í bílstjórasætið.“

Annað sem þær gera er að fá konur til að spyrja sig spurninga. 

„Því það er vissulega algengt að konur gleymi oft og tíðum sjálfum sér og láti allt og alla aðra ganga fyrir. En til þess að gera breytingu á líðan þinni og lífinu þá er mikilvægt að taka sér tíma og spyrja sig kröftugra spurninga á borð við: Hvað langar mig að gera í þessu lífi? Hverjir eru draumarnir mínir? Hvað er að stoppa mig að fara á eftir draumunum mínum? Hvað þarf ég að gera og hugsa til að lifa draumalífinu mínu?“

Þær eru báðar sammála um að lífsþjálfun hafi breytt lífinu þeirra til batnaðar. 

„Það er aldrei of seint að gera breytingar. Við erum að vinna með konum frá þrítugu til áttatíu ára sem sannar að við konur viljum alltaf vera að vinna í líðan okkar, lífinu og lífstílnum, óháð aldri.

Aldur er afstæður og skiptir engu máli. Þessi vinna er fyrir allar konur, óháð aldri,“ segja þær. 

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is