Þyngri en aldrei í jafn góðu formi andlega og líkamlega

Hafdís Vera Emilsdóttir einkaþjálfari segir ekki nóg að hugsa bara …
Hafdís Vera Emilsdóttir einkaþjálfari segir ekki nóg að hugsa bara um spegilmyndina. Það skipir máli að horfa inn á við.

Hafdís Vera Emilsdóttir, 43 ára einkaþjálfari, segir að þegar áherslan er alfarið á útlitið sé fólk ekki besta útgáfan af sjálfum sér. Að hennar mati er ekki nóg að stunda líkamsrækt og borða hollt. Hún hefur reynt á eigin skinni að hugsa of mikið um spegilmyndina og tekur meðal annars svo sterkt til orða að fitnessárin hennar hafi verið verstu ár lífs síns. 

Stór hluti af starfi Hafdísar er að sinna heimaþjálfum þar sem hún þjálfar fólk sem glímir meðal annars við kvíða eða félagsfælni og á erfitt meðal að mæta í líkamsræktarstöð.

„Vegna ítrekaðra áfalla þá hef ég sjálf þurft að glíma við kvíða og það besta sem ég gerði var að hreyfa mig jafnvel þó mig langaði ekki til þess. Ég á auðvelt með að ná til fólks og mynda sterkt samband. Í þjálfuninni legg ég mikið upp úr því að styrkja fólk sem hefur lent í áföllum eða á andleg vandamál að stríða. Maður getur einfaldlega ekki verið besta útgáfan af sjálfri sér ef maður stundar bara líkamsrækt og borðar hollt heldur þarf maður líka að gefa sér tíma til að líta inn á við. Samspil þessara þriggja þátta tel ég skipta höfuðmáli. Maður þarf alltaf að huga að sinni andlegri heilsu og legg ég mikið upp úr því í minni þjálfun.“

Hún þjálfar líka fólk sem hefur lítinn tíma og íþróttafólk. Hún þjálfaði fjallgöngumanninn John Snorra Sigurjónsson heitinn og eiginkonu hans Línu Móey Bjarnadóttir en hún er góð vinkona Hafdísar. „John Snorri var á þeim tíma að undirbúa sig til að vera fyrstur manna til að klífa K2 að vetrarlagi og ég þjálfaði hann á hverjum degi í rúmt ár.“

Fáar konur voru í bardagaíþróttum

„Ég hef alltaf hugsað um heilsuna mína og stundað líkamsrækt en með mismunandi áherslum. Til að mynda þá tók ég þátt í fitness tvisvar sinnum á árunum 1999 og 2003. Áherslan var bara á útlitið og ég hugsaði alls ekkert um mig andlega. Satt að segja að ef ég lít til baka þá voru þetta mín verstu ár. Ég er ekki að segja að þetta eigi við um alla sem taka þátt í fitness en þetta á við um mig,“ segir Hafdís. 

„Í dag stunda ég líkamsrækt með öðrum áherslum. Ég geri það til að vera sterk og byggja mig upp andlega. Ég get ekki sagt hversu þung ég er í dag, enda vigta ég mig aldrei. Ég veit þó að ég hef aldrei verið jafn þung. En ég veit líka að ég hef aldrei verið í eins góðu formi né á jafngóðum stað andlega. Ég vona að fólk í dag, þá sérstaklega ungt fólk, tileinki sér líkamsrækt með öðrum markmiðum en bara útlitslegum.“

Hafdís er hraust og hreyfir sig á fjölbreyttan hátt, meðal …
Hafdís er hraust og hreyfir sig á fjölbreyttan hátt, meðal annars úti eins og hér sést.

Síðastliðin 16 ár hefur Hafdís stundað hinar ýmsu bardagaíþróttir. „Þegar ég byrjaði vorum við líklega um fimm konur á landinu öllu að glíma. Í dag hefur íþróttin stækkað gríðarlega mikið og margir að æfa jafnt sem konur sem karlar. Viðhorfið hefur líka breyst en þetta er viðurkenndara sem íþrótt en ekki eitthvað sem eitthvað ofbeldi. Á þetta við um allar bardagaíþróttir. Mér finnst að allir, sérstaklega konur, ættu að læra Jiu-jitsu þar sem þetta er besta sjálfsvörn sem þú getur fundið,“ segir Hafdís sem sér fram á framúrskarandi árangur íslensk íþróttafólks í bardagaíþróttum í framtíðinni. 

Einblína ekki á útlitið lengur

„Þegar ég byrjaði að fara í líkamsræktarstöðvar þá var það helsta að maður fór í lyftingarsalinn, í brennslutæki og síðan í þoltíma, svo sem spinning. en það hentar alls ekki öllum. Í dag er þetta miklu fjölbreyttara og mikið í boði. Crossfit, víkingaþrek og bardagaíþróttir er orðið vinsælt. Með tilkomu þessara fjölbreytileika finnst mér eins og áherslan er meira á styrk og þol en að hugsa bara um útlitið. Ég fagna þessari þróun mikið og ég held að þetta hafi jákvæð áhrif á ungt fólk í dag. Mér finnst ungar stelpur í dag vilja vera sterkar, ná ákveðnum markmiðum í sinni íþrótt frekar en að vilja einblína á útlitið.“

Glíman er aðalíþrótt Hafdísar en hún gerir margt annað og segir að helst ætti að spyrja hana hvað hún geri ekki. Fjölbreytni í hreyfingu í dag heillar hana. 

„Maður þarf ekki að standa fyrir framan spegil í lyftingarsal til að styrkja sig og fá á sig vöðva. Maður getur æft þessa vöðva heima, úti eða hvar sem er með miklu minni búnaði og náð góðum árangri. Ég tek það þó fram að mér finnst gott að mæta í lyftingarsal annað slagið, mæta í þoltíma eins og spinning en mér finnst fjölbreytileikinn þó frábær. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“

Svefn og hvíld númer eitt

Hvernig hugsar þú um andlega heilsu?

„Ég legg mikið upp úr því að huga að henni en ég hef ekkert alltaf gert það. Ég átti það til að setja hana til hliðar og hugsa um líkamlega heilsu. Síðan kom í ljós að maður hugsar ekki bara um líkamlega heilsu því andlega heilsan helst saman við þá líkamlegu.

Mín andlega heilsa er best þegar ég er með börnunum mínum og vinum. Mér finnst gott að vera meðal fólks og ég er mikil félagsvera. Áður fyrr átti ég erfitt með að vera ein með sjálfri mér en í dag þá finnst mér það gott og jafnvel nauðsynlegt fyrir andlegu heilsuna. Göngutúrar gera mikið fyrir mig en þá fæ ég tíma til að staldra við og hugleiða. Þá er mín besta afslöppun að fara í sund. Besta af þessu öllu, ef maður þarf, er að leita sér aðstoðar og hitta sálfræðing. Ég gerði það á sínum tíma og er það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Svefninn er líka mikilvægastur af öllu en ég legg mikið upp úr því að sofa að minnsta kosti átta tíma á dag.“

Angleg heilsa er í fyrsta sæti hjá Hafdísi.
Angleg heilsa er í fyrsta sæti hjá Hafdísi.

Ekkert bannað

Ásamt hreyfingu og andlegu heilsunni segir Hafdís að mataræðið skipti máli. Hún segir þó að í hennar bókum séu engin boð eða bönn. 

„Það versta sem ég veit er að banna mér eitthvað. Ég er mikið matargat, ég elska að borða en þegar ég er búin með eina máltíð þá er ég farin að hugsa um næstu. Þetta hefur kannski hjálpað mér að vera sterk. Ég er þó svo heppin að mér finnst hreinn matur langbestur. Ég leita ekki mikið í sætindi, nema á næturnar en ég á það til að borða í svefni. Í undirmeðvitundinni minni þá reyni ég að borða 80% hollt yfir daginn.“

Hafdís er með marga bolta á lofti en ásamt því að hreyfa sig mikið, sinna vinnu á hún þrjú börn. Hún segir gott skipulag vera mjög mikilvægt. „Ég veit alltaf hvernig dagurinn verður, jafnvel viku fram í tímann. Ég nota dagbók fyrir þessa skipulaggningu. Ég æfi alltaf í hádeginu þannig ég á alltaf tíma fyrir heimilislífið. Þegar það er mikið að gera þá er allt í lagi að æfingar mæta afgangi annað slagið,“ segir Hafdís að lokum og leggur áherslu á að gæta að hvíldinni sem hún segir jafnmikilvæga ef ekki mikilvægari en að mæta á æfingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál