„Við trúum of oft bullinu sem við erum að hugsa“

Linda Pétursdóttir lífsþjálfi hjálpar konum við að léttast.
Linda Pétursdóttir lífsþjálfi hjálpar konum við að léttast. mb.is/

Hlaðvarp Lindu Pét­urs­dótt­ur er vin­sælt um þess­ar mund­ir og fór fer­tug­asti og fjórði þátt­ur þess í loftið í vik­unni. Í þættinum fjallar Linda um hvernig hægt er að verða ritstjóri í eigin lífi. 

Að hennar mati skiptir sjálfsmyndin miklu máli. 

„Sjálfsmynd þín skapar það líf sem þú lifir í dag og ef þú vilt gera breytingar þar á þá þarftu að vinna í sjálfsmynd þinni og þar byrjum við á hugsunarhættinum. 

Við trúum of oft bullinu sem við erum að hugsa því það bara skýtur upp kollinum. Ég ákveð hverju ég ætla að trúa og ef það þýðir að ég þurfi að vanda mig og hugsa hugsanir mínar meðvitað þá geri ég það.

Það er ekki þess virði að trúa sjálfgefnum efasemdum og ljótu sjálfsniðurrifi, bara vegna þess að því skýtur upp í kollinn á okkur.

Ef þú lítur í kringum þig, á lífið þitt, þá er það allt sköpun hugsanna þinna. Hugsanir sem þú hugsaðir í fortíðinni, bjuggu til allt í kringum þig. Þú þarft ekki að leita lengra til þess að sjá mátt hugsana þinna. Þannig að ef þú vilt breyta lífinu þínu þarftu að byrja á því að breyta hugsunum þínum. Allt sem þú hugsar skapar líf þitt. Ef þú vilt meðvitað breyta lífi þínu þarftu að velja hugsanir þínar vandlega. 

Þegar þú skiptir út gömlum hugsunum fyrir nýjar, þá ferðu að framkalla framtíðina þína. Ég hef sjálf gert miklar breytingar á eigin lífi, og líðan, með því að vera meðvituð um hugsanir mínar. Þannig hef ég náð að gera stórfenglegar breytingar á lífi mínu og síðast en ekki síst á líðan minni. Það fylgir þessu svo mikið frelsi! Og líf mitt verður bara betra og betra. Ég neita að nota fortíð mína til að spá fyrir um framtíð mína.“

Hún útskýrir hvernig er best að gera breytingar á hugsunum. 

„Það hefur ekkert með það að gera að ég sé betri en þú eða hafi það betra en þú. Alls ekki, ég er bara stelpa úr litlu sjávarþorpi á Íslandi sem trúði á drauma sína og fór á eftir þeim. Ég hef upplifað allskyns verkefni sem hafa tekið á og oft sjálfsagt verið auðveldara að leggja árar í bát heldur en að fara á móti bárum- en með því að vinna stöðugt í hugsunum mínum held ég alltaf áfram og skapa betra líf fyrir sjálfa mig og mína með hverju ári sem líður. Það er máttur hugsanastjórnunnar og ég veit að þú getur þetta líka. Ég æfi mig í að velja hugsanir sem koma mér nær framtíðarútgáfunni af mér, í átt til drauma minna. Þú getur ákveðið hvað þú vilt hugsa um allt og alla- og þig líka.

Ég vil hvetja þig til að byrja strax í dag að vera meðvituð um orðin sem þú segir við þig. Samtalið sem þú átt við þig og færa það upp á hærra stig. Æfðu þig í að tala eins og framtíðarsjálfið þitt myndi tala. Við ættum að tala betur við okkur sjálfar en nokkra aðra manneskju.

Ef þú gerir þetta muntu upplifa allt aðra orku, aðrar tilfinningar, sem munu þjóna þér á allt annan hátt og auðga líf þitt meira en þú getur ímyndað þér í dag.“

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál