Allir líkamar eru kraftaverk

Áskorun dagsins felst í hreyfingu, að breyta hreyfingu í hugleiðslu og njóta. Hvaða hreyfingu sem þú kýst hvetur Guðni þig til að breyta henni í hugleiðslu, að þú sért til staðar í líkamanum meðan á hreyfingunni stendur.

„Með því að veita þér athygli á meðan þú stundar hreyfingu ertu að gefa þér tækifæri til að vera í líkamanum, en ekki í vinnunni eða skipuleggja skutl svo dæmi séu tekin. Mörg okkar eru að þjálfa til að verða öðruvísi í stað þess að vera. Þess vegna er æfing dagsins svo mikilvæg því hún snýst um að njóta æfinganna og vera, án þess að veita viðnám og vilja vera öðruvísi en maður er,“ segir Guðni Gunnarsson. 

Líkaminn er farartæki sálarinnar. Þegar við hreyfum okkur af kostgæfni og í fullri vitund, athygli, varfærni og mildi til að styrkja og hlúa að þessu farartæki þá getum við notið uppskerunnar núna (ekki þegar við verðum eitthvað annað). Þannig verðum við öflug og sterk.

„Allir líkamar eru fallegir, allir líkamar eru kraftaverk. Ég hvet ykkur til að njóta samvista við ykkar eigin tilvist og þjálfa ykkur í að vilja ykkur eins og þið eruð, núna, í dag. Vissulega getum við breytt ýmsu en fyrst þurfið þið að mæta inn í ykkar tilvist í dag og njóta,“ segir hann. 

Enginn fer eða breytir fyrr en hann kemur og er. Tækifærið og áskorun dagsins er að mæta í þá birtingu sem þú ert, hér og nú, og njóta ferðalagsins með sjálfum þér. Þú ert það sem þú gefur.

Fyr­ir alla sem taka þátt í áskor­un­inni býðst op­inn hóp­ur Rope Yoga-set­urs­ins á Face­book, einnig eru æf­ing­ar öll­um til handa á heimasíðu Rope Yoga-set­urs­ins.

mbl.is