Hugmyndin um leti er lygi

Það er í lagi að gera stundum ekki neitt. Við …
Það er í lagi að gera stundum ekki neitt. Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar um leti. Unsplash.com/Adrian Swancar

Hver kannast ekki við að líða illa yfir að hafa ekki náð að áorka nógu miklu yfir daginn í stað þess bara að viðurkenna að maður sé þreyttur?

„Þessi hugsunarháttur getur leitt til kulnunar,“ segir Devon Price félagssálfræðingur. Price heldur því fram að hugmyndin um leti sé lygi. Í bókinni Laziness Does Not Exist færir Price rök fyrir því að þessi hugmynd um leti sé skaðleg heilsu okkar og velferð í bæði vinnu og samskiptum við aðra. Við verðum að þjálfa okkur til að hugsa öðruvísi.

„Hugmyndin um leti er gömul og er notuð til að lýsa einhverjum sem vill ekki vinna og leggja sig fram. Þessi hugmynd um að latt fólk sé veikgeðja og skorti hvatningu og sé því spillt er enn mjög ríkjandi í dag.“

„Margt af því sem við köllum leti á oft rætur að rekja til kvíða og fullkomnunaráráttu. Fólk til dæmis dregur lappirnar með að byrja á tilteknu verkefni og við köllum við þá lata,“ segir Price í viðtali við Goop.

Ekki búinn að vinna fyrir hvíldinni

„Afköst eru mikils metin í samfélaginu og maður á helst að hunsa allt sem kemur í veg fyrir að maður nái að afkasta miklu. Ef maður er þreyttur um miðjan dag, þá skammar maður sig. Maður er ekki búinn að vinna fyrir hvíldinni, maður er ekki búinn að gera nóg.“

„Það er hættulegt að hlusta ekki á merkin sem segja manni að hvílast. Við gerum ráð fyrir að maður verði vond manneskja ef maður slær slöku við. Fólk fær því ekki nægt andrými til að hvílast og það getur grafið undan heilsunni og leitt til kulnunar.“

Eðlilegt að sóa tíma sínum

„Hugmyndin um leti er lygi. Þú trúir lyginni ef þú til dæmis hvílir þig aðeins til þess að geta afkastað meiru síðar.“

„Að sóa tíma er nauðsynlegur hluti af lífinu. Okkar mannlegu þarfir, gildi, sambönd og það sem veitir manni ánægju er það sem skilgreinir líf okkar. Við þurfum ekki að vinna okkur rétt til þess að vera á lífi. Við eigum skilið að vera hamingjusöm sama hvað við gerum eða gerum ekki.

Hvað er hægt að gera?

„Ég mæli með að fólk skrái hjá sér hvernig það ver tíma sínum. Ekki með gagnrýnum hætti heldur uppbyggjandi. Spyrðu þig þegar þú sérð að þú gerðir ekki þetta eða hitt, hvort það hafi í raun skipt þig máli. Kannski finnst þér bara að það ætti að skipta þig máli.“

„Einnig þarf maður að venjast því að það er nú þegar búið að ráðstafa öllum tíma þínum. Ef þú tekur eftir tímum þar sem þú hættir að vinna og fyllir tímann með einhverju öðru, taktu eftir hvenær þetta gerist og sættu þig við að kannski þarf líkaminn að hvílast til að ná aftur fyrri einbeitingu.“

„Líttu á markmið þín og taktu eftir þeim sem þú nærð sjaldnast að áorka. Hugsaðu svo um hvernig þér líður þegar þú nærð ekki þessum markmiðum. Hver þeirra skiptir máli fyrir þig og hvaða markmið skipta litlu máli en þú eyðir miklum tíma og krafti í. Hverju má sleppa og hverju má bæta við.“

„Á sumum vinnustöðum snýst allt um samkeppni. Fólk vinnur framyfir af engri nauðsynlegri ástæðu og bætir við sig verkefnum þegar það má ekki við því, því það heldur að til þess sé ætlast. Fólk þarf að spyrja sig hvort það þurfi í raun og veru að vinna frameftir eða segja já við nýjum verkefnum.“

mbl.is