Guðrún Eva klessti á vegg með sjálfa sig

Guðrún Eva Mínervudóttir var gestur í Þvottahúsinu.
Guðrún Eva Mínervudóttir var gestur í Þvottahúsinu.

Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttur var gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í Þvottahúsinu. Guðrún Eva hefur gefið út yfir tug metsölubóka og þýðingar. 

Í upphafi rifja þau Guðrún og Gunnar upp tíma sem þau eyddu saman fyrir hálfgerða tilviljun í Evrópureisu árið 1996 þegar þau voru tvítug. Gunnar hafði veikst illa af kíghósta á ferðalaginu sem varð til þess að hann þurfti að taka sér tíma í Aþenu til að ná sér af rifbeinsbrotum sem kíghóstinn hafði valdið. 

Guðrún Eva hjúkraði honum með þverflautuspili og heimspekilegum samræðum þar til leiðir þeirra skildi. Þá tók Guðrún ferju til Krítar þar sem hún eyddi vetrinum í skrif á sinni fyrstu skáldsögu sem svo seinna var gefin út í tíu eintökum. 

Guðrún Eva ræddi um hvernig hún fór á flug sem rithöfundur um aldamótin. Hún fór yfir hvernig ritstíll hennar og nálgun hafi tekið þroska á þeim rúmum tuttugu árum sem hún hefur setið við skrif. Hún talar um sig sem barn hraðans lengi vel. Hún virðist róleg og yfirveguð að utan, en að innan í miklum hraða, hraða sem svo leiðir hana í hálfgerðar maníur á tímabilum vinnu sinnar vegna með tilheyrandi svefn- og stjórnleysi. Guðrún þreifst vel í því umhverfi.

Fyrir um fimm árum klessti Guðrún á vegg með sjálfa sig. Hún segist hafa verið „aðeins skelþunnri himnu frá algjörum terror“. Hún fann að hún var að brenna upp í báða enda, tætt að innan og korter í kulnun leitaði hún sér hjálpar hjá vinkonu. Vinkonan sendi hana til dáleiðara frá Rúmeníu sem kenndi henni að það eina sem hún gæti gert í þessu ástandi væri að hugleiða. Hugleiðslan leiddi hana í djúpslökun. 

Í kjölfarið fór hún að finna fótfestuna aftur í lífinu á hátt sem henni var ekki kunnugur. Hún segist hafa farið úr því að vera barn hraðans og yfir í hægðina, áreynsluleysið. Síðan þá hefur hún starfað án strits. Hún skrifar frá óþekktum stað þar sem afstaðan er engin, stað þar sem eru engir fastir punktar og efnið einfaldlega kemur til hennar. 

Viðtalið í heild sinni má finna á hlaðvarpsvef mbl.is og á YouTube.

mbl.is