Í bata frá átröskun

Evanna Lynch lýsir baráttu sinni við átröskun í nýrri sjálfsævisögu.
Evanna Lynch lýsir baráttu sinni við átröskun í nýrri sjálfsævisögu. Skjáskot/Instagram

Harry Potter-leikkonan Evanna Lynch er í bata frá átröskun sem hún glímir við. Í nýrri sjálfsævisögu vill hún sýna aðdáendum sínum hvert hennar raunverulega andlit er og segja frá baráttu sinni. 

Lynch fór með hlutverk Lunu Lovegood í kvikmyndunum um galdrastrákinn Harry Potter. 

Sjálfsævisaga Lynch ber titilinn The Oppostie of Butterfly Hunting: The Tragdedy and The Glory of Growing Up. Í viðtali við E! News sagði leikkonan að í bókinni segði hún frá átröskuninni og hvernig batinn hefði verið, bæði andlega og líkamlega. 

„Ég er ekki lengur með átröskun. Ég hef átt nokkur ár þar sem ég borða venjulega, er heilbrigð og með góðar venjur. Og það er öðruvísi, einhver spurði mig nýlega hvort þetta væri eins og alkóhólismi þar sem maður þarf alltaf að vera í fráhaldi. Það er í raun ekki þannig; maður þarf að borða, maður þarf þess bara,“ sagði Lynch og bætti við að hún hefði hins vegar þurft að læra að borða rétt og nálgast mat á réttan hátt. 

„Mig langaði virkilega að skrifa þessa bók í mörg ár því ég hef verið að tala um öll þessi málefni, þennan hluta lífs míns, í langan tíma en ekki fundist ég ná að miðla skilaboðunum, hversu flókin og blæbrigðarík þau eru,“ sagði Lynch.

Skjáskot/Instagram
mbl.is