Brynja lét fjarlægja brjóstapúðana og sér ekki eftir því

Brynja Dan vill vekja athygli á þeim aukaverkunum sem geta …
Brynja Dan vill vekja athygli á þeim aukaverkunum sem geta fylgt brjóstapúðum. mbl.is/Hallur Már

Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins og stofnandi Extraloppunnar, lét fjarlægja brjóstapúða í síðustu viku. Brynja segir að hana hafi lengi langað til að losna við púðana og er fegin að hafa loksins gert það, enda losnaði hún við 650 grömm af bringunni.

Brynja vakti athygli á málinu á Instagram í vikunni en brjóstapúðum geta fylgt margar aukaverkanir. Brynja segist í samtali við Smartland ekki vera alveg nákvæmlega viss hvaða aukaverkanir hún hafi fundið, en hún hafi strax fundið að hún gat andað léttar og andað með nefinu.

Á meðal aukaverkana af brjóstapúðum eru vöðva- og liðverkir, síþreyta, einbeitingarskortur og minnisleysi, öndunarerfiðleikar, svefnörðuleikar, kvíði, þunglyndi, hárlos, höfuðverkir, meltingarerfiðleikar, húðvandmál og þurrkur í munni og augum.

Brynja fékk sér brjóstapúðana árið 2010, þegar hún var 25 ára gömul. „Ég var bara óharðnaður einstaklingur sem fann fyrir pressu um að maður ætti að lita einhvernvegin út. Var með tveggja ára barn og var enn að venjast nýjum líkama eftir það eins og gengur og gerist. Ég hafði grennst töluvert og þar af leiðandi með minni brjóst svo ég tók þessa mjög svo óupplýstu ákvörðun í skyndi, sem er svo ólíkt mér. Ég fékk tíma bara samstundis og þetta gerðist allt mjög hratt og var mjög skrítið allt þegar ég lít til baka,“ segir Brynja.

Spurð hvort hún hafi verið meðvituð á sínum tíma um þær aukaverkanir sem fylgt geta brjóstapúðum segist Brynja svo ekki vera. „Nei bara alls ekki og hefði að sjálfsögðu átt að leita mér upplýsinga um það. Mér hefði hinsvegar fundist eðlilegt líka að fá þær hjá lækninum sem framkvæmdi aðgerðina og get ímyndað mér að ef þú ert að fá einhvern aðskotahlut í líkamann þá fáir þú ítarlegar upplýsingar um hann og hvaða afleiðingar hann geti haft.“

Ekki erfið ákvörðun

Brynja segir að ákvörðunin sem slík hafi ekki verið erfið. Hún hræddist þó að fara í aðgerð og því hafði hún frestað því að fara um nokkurt skeið. „Ég er búin að tala um þetta í sirka 9 ár og hef aldrei þorað. Það hræðir mann alltaf að fara í svæfingu en svo er ég kannski búin að horfa á of mikið af Dr. 90210. Svo voru nokkrar í kringum mig með púða og með sömu áhyggjur og vinkonur sem fóru á þessu ári og létu fjarlægja og ég ákvað bara loksins að bóka tíma. Ég hafði farið annað í viðtal fyrir um það bil 3 árum en einhvernvegin ekki farið lengra með það þá. Fór svo og hitti annan núna sem vinkona og fleiri höfðu mælt með og hann einhvernvegin var svo dásamlegur,“ segir Brynja.

Hún bætir við að hún hafi mætt góðu viðmóti hjá lækninum sem tók brjóstapúðana úr og að hann hafi ekki þrýst á hana að fá sér aftur púða. Hann mælti frekar með því að þau myndu taka þessa púða og hún gæti komið aftur seinna ef hún vildi fara í lyftingu eða eitthvað slíkt.

Brynja segist þó alls ekki vera á móti brjóstapúðum og að þeir geti verið frábær laus fyrir þau sem kjósa það. „Svo lengi sem þú ert að gera það fyrir þig en ekki einhvern annan eða til að þóknast einhverjum hugmyndum samfélagsins um hvernig þú átt að líta út. og tala nú ekki um í uppbyggingu eftir krabbamein hinsvegar hafa þó nokkrar sent mér og vonað að einmitt svona umræða um aukaverkanir (e. breast implant illness) setji pressu á fyrirtækin að leita nýrra leiða þegar kemur að púðum. Að framleiða þá úr efnum sem hafa ekki þessi áhrif. Vonandi er það framtíðin því það er fullt af fólki sem bæði kemur til með að velja og þurfa fyllingar,“ segir Brynja.

„Mér finnst eitthvað rangt við það að lýtalæknar séu að pressa á konur og fólk að fá sér eitthvað sem þær vilja ekkert endilega og komu ekki til að fá. Mér finnst líka afar einkennilegar sögurnar sem konur eru að senda mér. Þar sem þær fara inn í aðgerð búnar að ræða ákveðna stærð við lækninn og samþykkja. Svo segir hann kannski að það geti skeikað um 10-20 grömm. Fólk samþykkir það, en að þær fari í aðgerð búnar að samþykkja 180 grömm og komi út með 450 finnst mér mjög alvarlegt og mál sem á heima hjá landlækni,“ segir Brynja.

Frelsandi tilfinning

Brynja segir tilfinninguna að losna við púðana frelsandi. Hún segir líka tilfinninguna að vera sátt í eigin skinni eftir allan þennan tíma vera frelsandi. „Svo var þetta bara ofsalega lítið mál. engir verkir og ég var mætt til vinnu tveimur dögum síðar. Ég var reyndar heppin með að púðarnir voru heilir og það var lítill sem enginn örvefur, en engu að síður mun minni aðgerð en ég hélt og svo yndislegt allt starfsfólkið.“

Brynja segist upphaflega ekki ætlað að ræða þetta mál. Hún er opinber persóna á samfélagsmiðlum og með stóran fylgjendahóp. Hún ákvað því að nýta þann stóra vettvang sem hún hefur til þess að ræða málefni líkt og þetta sem lítið hafa verið rædd. Hún vonast til þess að umræða skapist um brjóstapúða svo fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir um heilsu sína og útlit.

„Þegar ég fann muninn og sá að það voru mjög takmarkaðar upplýsingar um þetta og einhvernvegin lítið um þær, eða fáir að ræða þetta nema inni á lokuðum hópum á Facebook, þannig ég bara ákvað að ræða þetta og þörfin leynir sér ekki,“ segir Brynja sem hefur fengið skilaboð frá fjölda fólks um reynslu þeirra af brjóstapúðum.

„Mér fannst líka þurfa að koma fram að það séu til lýtalæknar sem hvetja mann til að taka þetta úr og til að fá sér ekki stærri eða öðruvísi og það er heilbrigð nálgun að mínu mati og sendir falleg og mikilvæg skilaboð útí samfélagið,“ segir Brynja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál