Hvað er meira „bad ass“ en að lyfta þungu?

Ólöf Tara Harðardóttir, einkaþjálfari og femínisti, valdeflir konur í gegnum …
Ólöf Tara Harðardóttir, einkaþjálfari og femínisti, valdeflir konur í gegnum líkamsrækt. mbl.is/Unnur Karen

Einkaþjálfarinn og femínistinn, Ólöf Tara Harðardóttir, byrjaði ung að æfa fimleika og æfði þá í 15 ár. Í dag vinnur hún við fjarþjálfun hjá Alpha Girls sem hún tók við nú í haust. Nafn Ólafar Töru hefur oft borið á góma í fjölmiðlaumfjöllun undanfarnar vikur og mánuði en hún er í aðgerðahópnum Öfgum sem hafa látið til sín taka í Me Too-byltingunni.

Ólöf er 31 árs gömul og er fædd í Hafnarfirði en flutti síðar í Grafarvog. Hún var einkaþjálfari í World Class í tæplega sjö ár þar til hún færði sig alfarið yfir í fjarþjálfun. 

„Markmiðið er að byggja upp sterkan líkama, styrkja andlegu hliðina og hjálpa konum að auka sjálfstraustið í gegnum fræðsluefni og síðast en ekki síst í gegnum styrktarþjálfun. Hvað er meira „bad ass“ en að lyfta þungt?“ segir Ólöf við Smartland. 

Ólöf var einkaþjálfari í World Class í rúm sex ár …
Ólöf var einkaþjálfari í World Class í rúm sex ár áður en hún sneri sér alfarið að fjarþjálfun hjá Alpha Girls. mbl.is/Unnur Karen

Alpha Girls var stofnað af Einari Inga Kristjánssyni og Telmu Ýr Þórarinsdóttur árið 2014. Ólöf var hjá þeim í rúmlega fjögur ár en árið 2018 ákváðu þau að leggja fyrirtækið til hliðar á meðan þau sinntu öðrum verkefnið. 

„Einar hefur svo samband við mig árið 2019. Engin fjarþjálfun hafði brúað þetta bil sem þau skildu eftir og þau bæði á fullu í ýmiss konar fyrirtækjarekstri og niðurstaðan varð sú ég tæki við. Við færum í samstarf og ég tæki þennan bolta. Byggja upp æfingarkerfin, búa til allt fræðsluefnið og byggja aftur upp þetta sterka samfélag sem myndaðist á sínum tíma,“ segir Ólöf. 

Alpha Girls fór því aftur af stað í nú í september eftir töluverða undirbúningsvinnu sem litaðist af heimsfaraldrinum. 

Í þjálfuninni leggja þau mikið upp úr vísindalegri nálgun og fræðslu. Kenndar eru helstu aðferðir í styrkarþjálfun og næringu og lögð áhersla á næringu, hugarfar og markmiðasetningu.

„Hugarfarið er einn mikilvægasti þátturinn í lífi okkar og hefur áhrif á allt sem við gerum og gerum ekki. Sterkt hugarfar tekur þig upp á næsta plan,“ segir Ólöf. 

Ólöf lyftir til að vera sterk. Spurð hvað hún eigi …
Ólöf lyftir til að vera sterk. Spurð hvað hún eigi í hnébeygju segir hún að 95 kíló séu þægileg á góðum degi. Hún er þó mun meiri hip thrust-aðdáandi þótt henni finnist beygjur skemmtilegar. mbl.is/Unnur Karen

Gerði ekkert í sex ár

Ólöf hætti í fimleikum eftir 15 ára feril vegna meiðsla. Eftir það tók við kafli hjá henni þar sem hún gerði næstum ekki neitt. Árið 2012 hóf hún störf hjá World Class og þar kviknaði áhuginn á hreyfingu aftur. 

„Í kjölfarið fór ég að læra hóptímakennslu hjá Fusion fitness og svo fann ég að þjálfun kallaði meira til mín og ég ákvað að skella mér í ÍAK-námið,“ segir Ólöf. 

Spurð hvort hún hafi mætt einhverjum hindrunum á leið sinni í átt að sterkari líkama og sál segir Ólöf að hún hafi mætt hindrunum eins og flestir. „Já, ég held að við mætum flest öll einhvers konar hindrunum á þessari vegferð. Hindraninar geta verið misjafnar. Mínar hindranir voru helst að vera hrædd við að borða nóg. Það gerði auðvitað erfitt fyrir að byggja upp vöðvamassa sem mig langaði að gera og frammistaðan á æfingum var heldur ekki að verða betri því ég borðaði allt of lítið. Það tók töluverðan tíma fyrir mig að vinna í jákvæðari líkamsímynd. Í dag æfi ég til að vera sterk og hraust.“

Þegar kemur að líkamsrækt leggur hún mest upp úr því að hafa æfingaplan sem er miðað út frá hennar markmiðum. Hún hugsar líka um hreyfingu sem mikilvægan hluta af því að halda líkamanum heilbrigðum. 

Ólöf leggur mikla áherslu á andlegu hliðina í sinni þjálfun …
Ólöf leggur mikla áherslu á andlegu hliðina í sinni þjálfun og á vísindalega nálgun þegar kemur að því að byggja upp styrk og þol. mbl.is/Unnur Karen

Heilbrigð sál í hrausum líkama

Í þjálfun sinni leggur Ólöf ekki síst áherslu á jákvætt hugarfar og góða andlega líðan. „Að æfa hefur auðvitað jàkvæð áhrif á andlega líðan. Að æfa eflir sjálfstraustið þitt, valdeflir trúna á eigin getu og byggir upp þrautseigju. Þetta eru allt eiginleikar sem hjálpa okkur á öðrum sviðum í lífinu. Þess vegna er hreyfing, að æfa markvisst og hafa markmið svo miklu meira en bara að æfa, þetta hefur bein áhrif á andlega líðan, hugarfarið þitt sem hefur svo bein áhrif á allt sem þú gerir.“

„Við erum stöðgugt að læra í gegnum lífið. Vegferð að bættari heilsu er lærdómur líka. Leyfðu þér að prufa þig áfram, fagnaðu erfiðleikum og lærðu af þeim í stað þess að leyfa þeim að draga úr þér. Haltu alltaf áfram,“ segir Ólöf þegar hún er spurð hvaða ráð hún geti gefið þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í átt að bættri heilsu. 

Ólöf fór af stað með Alpha Girls í september á …
Ólöf fór af stað með Alpha Girls í september á þessu ári. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál