Dabbi T byrjaði að drekka 12 ára

Davíð Tómas er nýjast gestur hlaðvarpsins Það er von. Við …
Davíð Tómas er nýjast gestur hlaðvarpsins Það er von. Við hlið hans eru stjórnendur þáttarins þau Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn.

Davíð Tómas Tómasson var á árum áður þekktur undir listamannsnafninu Dabbi T. Davíð sem er í bata frá fíknisjúkdómi er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Það er von. Davíð er einnig aðstandandi en hann ólst upp við alkóhólisma og var tekinn af heimili móður sinnar sem barn. Davíð hefur unnið mikið í sínum málum síðan hann varð edrú fyrir níu árum síðan. Hann hefur greint sína líðan, orsakir og afleiðingar neyslunnar. 

Davíð byrjaði að drekka 12 ára gamall og fór í sína fyrstu meðferð 16 ára. „Ég var að detta í það aftur og aftur þegar ég var yngri því ég varð bara edrú en hugmyndir mínar um lífið breyttust ekki samhliða,“ segir Davíð. Hann bætir við að hann hafi verið léleg fyllibytta og hafi alltaf verið fljótur að keyra allt í þrot.

Eitt það stærsta sem Davíð hefur lært í edrúmennskunni er að taka ábyrgð á lífinu og því sem maður gerir. „Ég hef gert ótrúlega mörg mistök á þessum tíma en fegurðin í því er að geta horfst í augu við það og taka ábyrgð á því, það er mesti skólinn.“

Í þættinum segir Davíð frá því í einlægni af hverju hann hætti endanlega í neyslu. Botninn hans er öðruvísi en margir þekkja ef svo má að orði komast. „Loksins þegar ég sagði sannleikann þá hafði það ekkert vægi.“

AA samtökin hjálpuðu honum að byggja upp grunninn að edrúmennsku en á ákveðnum tímapunkti þurfti hann meira og byggja ofan á þann grunn með aðstoð sálfræðings. Hann tók sjálfsvinnuna alla leið og áttaði sig á því að hann vildi ekki lengur kenna æskunni um líðan sína heldur taka líf sitt í eigin hendur og sækja sér það sem hann vildi.

Davíð er svokallaður dellukall, tekur tímabil í hinu og þessu, setur sér markmið og nær þeim en gleymir stundum að njóta. „Ég varð „yes man“,“ segir Davíð um það hvernig hann prófaði endalausa nýja hluti með fólki og reyndi þannig alltaf að fara út fyrir kassann sinn til að vaxa sem mest.

Níu ár inn í edrúmennskuna er Davíð enn þá að læra á sjálfan sig, eins og með marga hefur sjálfsást þvælst fyrir honum. Kærleikur í eigin garð er verkefnið endalausa.

Hægt er að hlusta á Það er von á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál