Fór úr einu sambandi í annað og lenti á botninum

Berglind Rúnarsdóttir var viðmælandi bræðranna Davíðs og Gunnars Wiium.
Berglind Rúnarsdóttir var viðmælandi bræðranna Davíðs og Gunnars Wiium.

Öndunarþjálfinn Berglind Rúnarsdóttir var gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í Þvottahúsinu. Hún er ástar- og kynlífsfíkill í bata og kennir fólki að öðlast hugarró, tækla streituna og læra að elska sig.

Í þættinum ræddi Berglind um þráhyggjuna, hneigðina til að fara hratt úr einu sambandi í annað, óttann, kvíðann og viðkvæma egóið, og hvernig hún fór á botninum í samtök ástar- og kynlífsfíkla og hóf að þroskast þar. 

Eftir fyrsta sporahring hélt Berglind til Taílands að læra köfun. Síðasta daginn þar lenti hún í lífsháska þegar hana rak út fyrir það svæði þar sem kafa mátti og bátur sigldi yfir höfðinu á henni. Það varð henni til bjargar að við köfun er iðkuð stjórnuð og virk öndun og hún vön henni. Öndunin varð til þess að Berglind hélt ró sinni og náði að komast upp á yfirborðið í öryggið.

Eftir þessa lífsreynslu fór Berglind að tileinka sér öndunartækni til að tækla streitu og kvíða og öðlast hugarró. Byrjunina sagði hún hafa verið brösuglega, hún kunni ekki að hugleiða og fannst erfitt að sitja lengi við án þess að finna árangur, enda bæði ofvirk og með athyglisbrest, greind á ytri skekkjumörkum með ADHD. Þessir erfiðleikar urðu til þess að hún þróaði öndunartækni- og hugleiðsluaðferð sína. Aðferðina kallar hún jógaín, sökum þess hversu hraðvirk og áhrifarík hún er, en finna má mikinn mun á líðan eftir einungis eina umferð af öndunartækninni, sem tekur um eina og hálfa mínútu.

Eftir erfiðan skilnað stóð henni til boða að annaðhvort halda í biturleikann eða taka psilocybin-sveppi og upplifa egódauða. Hún valdi seinni kostinn og sér ekki eftir því.

Berglindi hafði lengi langað í jógakennaranám og ákvað loksins að skella sér. Hún hóf einnig að stunda fríköfun. Eftir námið gerðist hún einkaþjálfari og lífþjálfi og segir það sinn tilgang í lífinu að kenna fólki að losna undan kvíða og ótta, upplifa hugarró og læra að elska sig.

Öndunartæknin er stór hluti af meðferðarúrræðum hennar, og kom hún sér heldur betur vel þegar hún ökklabrotnaði síðastliðið sumar. Fóturinn fór á hlið og bæði fibia- og tibula-beinin brotnuðu. Berglind andaði sig í gegnum sársaukann, rétti fótinn af og bað kærastann að hringja á sjúkrabíl. Hún virkaði svo róleg að hann hélt að hún væri að gera of lítið úr málunum, allt þar til sjúkraliðarnir mættu og hrósuðu henni fyrir að rétta fótinn af sjálf.

Berglind telur að það að hafa haft stjórn á sjálfri sér í aðstæðunum hafi gert þær bærilegri. Hinn kosturinn sem henni hafði staðið til boða  að horfa á fótinn afmyndaðan meðan hún beið eftir aðstoð  hefði verið mun erfiðari vegna vanmáttartilfinningarinnar sem honum hefði fylgt. Það að upplifa stjórn á sér í aðstæðunum breytir aðstæðunum.

Berglind segir að við tökum öðruvísi ákvarðanir þegar við upplifum ótta og við eigum ekki að láta stjórnast af honum. Hún trúir því að mannkynið geti fræðilega breytt stefnu sinni á einum degi. Ef við losnuðum við óttann og leyfðum honum ekki að taka ákvarðanirnar fyrir okkur gætum við sameinað krafta okkar og gáfur, auðlindir og hráefni. Unnið saman, gert uppgötvanir, kannað heiminn, ferðast til annarra sólkerfa og fræðilega lifað að eilífu.

Þáttinn má finna í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál