Var hinum megin við borðið

Ásbjörg Morthens er einkaþjálfari.
Ásbjörg Morthens er einkaþjálfari.

Ásbjörg Morthens einkaþjálfari og hóptímakennari hjá Reebok Fitness finnur mikinn mun á andlegri heilsu sinni þegar hún er dugleg að hreyfa sig. Hún segir mikilvægt að fólk hreyfi sig til þess að líða vel en ekki til þess að líta út á ákveðinn hátt. 

Ásbjörg var í fimleikum sem barn en hætti í kringum tíu ára aldurinn og hreyfði sig lítið í mörg ár. „Ég þyngdist mikið sem unglingur, varð of þung og leið illa líkamlega og andlega í mörg ár. Þegar ég var að koma úr löngu sambandi fyrir nokkrum árum langaði mig að gera loksins eitthvað fyrir sjálfa mig. Ég hafði látið það sitja á hakanum í of mörg ár og þá fór ég af stað að mæta í ræktina. Þegar ég byrjaði á því þá var ekki aftur snúið þar sem að ég fann að hreyfing gaf mér andlega og líkamlega vellíðan sem að mig var búið að vanta allt of lengi. Í dag skiptir hreyfing mig miklu máli því að það er það sem heldur andlegri og líkamlegri heilsu minni gangandi og hefur hjálpað mér mest í gegnum erfið tímabil sem ég hef gengið í gegnum,“ segir Ásbjörg.

Það hafði blundað lengi í Ásbjörgu að þjálfa og hjálpa þar með öðrum áður en hún ákvað að skrá sig í ÍAK einkaþjálfaranám hjá Keili. „Að geta hjálpað öðrum í átt að því að líða betur líkamlega og andlega skiptir mig miklu máli. Þar sem ég hef reynsluna að hafa verið hinu megin við borðið þá langaði mig að hafa tækifæri til að koma fólki á þann stað að líða vel í eigin líkama og sál sem fæst með því hreyfa sig og næra sig rétt og vel. Þetta fylgist jú allt að, hreyfing og næring. Að sjá fólk fyllast sjálfstrausti og kannski framkvæma hluti sem að það var búið að missa trú á gefur mér mikið og ýtir mér áfram í mínu starfi sem þjálfari.“

Ekki kvöl

Hún segir mikilvægt að fólk átti sig á að það er ekki bara ein tegund af hreyfingu sem er góð, öll hreyfing er góð að hennar mati. Hún leggur áherslu á að fólk finni sér hreyfingu sem hentar hverjum og einum. Þetta getur verið göngutúrar, skokk eða hjólaferðir og ef fólk treystir sér ekki í líkamsræktarstöðvar getur það gert æfingar heima. „Hreyfing á að vera lífstíll en ekki kvöl.“

Eins og svo svo margir hefur Ásbjörg ætlað sér of mikið í einu og segir það nýtast í vinnunni. „Ég held að við höfum mörg þarna úti prófað einhverja skyndikúra og ætlast til þess að þeir virki. Þeir gera það kannski í einhvern smá tíma en á endanum þegar maður hættir þá fer maður oftast á sama stað og áður. Ég hef alveg æft of mikið og keyrt mig út þá gengur það á þessa andlegu vellíðan sem maður vill fá út úr hreyfingunni. Einnig hef ég prófað marga kúra í mataræði í gegnum árin og ég hef líka verið á þeim stað að borða sem minnst yfir daginn og halda að það sé gott en það hafði akkúrat bara öfug áhrif og kallaði fram vonda líðan og endalaust orkuleysi og þreytu. Allt þetta sem maður hefur prófað fer þó í reynslubankann góða sem að hjálpar manni líka þegar kemur að því að gefa kúnnum sínum ráð. Ég er alfarið á móti öfgum þegar kemur að þjálfun og næringu og myndi ekki persónulega mæla með slíku við mína kúnna.“

Ásbjörg kennir í Reebok Fitness.
Ásbjörg kennir í Reebok Fitness.

Allt er gott í hófi

Hvernig æfir þú og borðar í dag?

„Ég vil komast á góða æfingu fjórum til fimm sinnum í viku að minnsta kosti og fer ég þá helst og lyfti í tækjasalnum. Núna þegar farið er að kólna finnst mér gott að fara í hóptíma í heitum sal. Mér finnst gott að fara í góða göngu og fá gott súrefni. 

Ég hugsa mikið um það næra mig vel og það skiptir máli að borða jafnt og þétt yfir daginn til þess að halda orkunni. Ég passa mig vel að borða það sem inniheldur góða næringu og að ég sé að fá prótein, fitu og kolvetni yfir daginn. Ég elska góðan mat og finnst gaman að elda. Að njóta þess að borða góðan mat skiptir mig miklu máli. Það þarf ekki að vera leiðinlegt að borða mat sem er góður fyrir mann. 

Ég á alveg mína rusldaga og ætla ekki einu sinni að reyna að fela mig á bakvið það að vera þjálfari og segjast aldrei að borða neitt óhollt. Maður á ekki að þurfa að hætta að borða eitthvað sem manni þykir gott heldur bara borða í hófi eins og gamla góða orðtækið segir, allt er gott í hófi. Auðvitað ætla ég ekki að segja að allir geti gert það því að jú sumir eru með óþol eða annað slíkt sem gerir því erfiðara fyrir. Ég reyni að vera dugleg að drekka vatn yfir daginn og er blessunarlega laus við það að vera gosfíkill eða nú lýg smá þar sem mitt uppáhaldsgos er ískalt sódavatn með sítrónu, ég drekk ég þrjár dósir daglega.”

Ásbjörg lyftir vanalega fjórum til fimm sinnum í vikum.
Ásbjörg lyftir vanalega fjórum til fimm sinnum í vikum.

Eigum enn langt í land

Ásbjörg segir að umræðan á samfélagsmiðlum um líkamsvirðingu hjálpi en hún vill sjá enn meiri breytingar til þess að eyða umræðu um megrun. Henni finnst til dæmis sorglegt að sjá unga krakka pæla í útlitinu. 

„Við erum og verðum áfram með myndir á samfélagsmiðlum og í umhverfi okkar sem að ýta því miður undir þessa útlitsdýrkun og ég myndi alveg segja að það sé langt í land með að slíkt hverfi. Megrun er því miður bara eitthvað sem að er að fara að vera til staðar þegar fólki líður ekki vel andlega né vel í eigin skinni.

Mér finnst frábært að það sé meiri vakning á því að líkamar okkar séu byggðir á ólíkan hátt og að útlit segir ekki hvernig manneskju líður eða að ef hún sé að hreyfa sig þá eigi maður að líta svona eða hinsegin út. Það sem getur komið fólki á óvart er að þétt manneskja getur til dæmis verið með mun lægri fituprósentu en grennri manneskja og stundar kannski miklu meiri hreyfingu. Útlit segir okkur ekki allt þó að við séum því miður of oft fljót að dæma aðra í kringum okkur frekar en að hugsa um okkar sjálf.“

Hreyfing hefur fyrst og fremst góð áhrif á andlega líðan.
Hreyfing hefur fyrst og fremst góð áhrif á andlega líðan.

Ásbjörgu finnst skipta mestu máli að hreyfing fái fólk til þess að líða betur. Hún vonast til þess að fólk hreyfi sig ekki til þess að líta út á ákveðinn hátt. Hún segir offitu vissulega geta haft áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma en að sama skapi geta átröskunarsjúkdómar og mikil megrun haft slæm áhrif á hjartað og önnur líffæri.

„Það sem á að skipta mestu máli er að manneskjan sé að hreyfa sig, hafa gaman af því að stunda hreyfingu og líði vel í eigin líkama óháð útliti og líkamsbyggingu. Ég vona innilega að þessi megrunarkúltúr fari að líða sitt skeið og að við getum farið að njóta þess að lifa lífinu, borða góðan mat, hreyfa okkur og fagna fjölbreytileikanum að við erum öll misjafnlega byggð.“

Skipuleggur sig vel daginn áður

Margir tala um tímaleysi. Kannast þú við að hafa ekki gefið þér tíma til að borða hollt eða mæta í ræktina?

„Það er vissulega oft erfitt í mjög þéttri dagskrá að hugsa fyrir því að koma fyrir hreyfingu og að borða vel og næringarríkt. Það er mjög auðvelt að finna sér afsökun að komast ekki í ræktina og að mikla það fyrir sér að hafa ekki tíma í að koma sér á staðinn. Ég hef tamið mér að fara á æfingu þó svo að mér finnist ég kannski ekki hafa tíma. Þá einmitt mæti ég þó að stutt sé. Ég finn mun af því að mér líður alltaf betur eftir á. Það er líka eitt af því sem ýtir manni áfram að hreyfa sig, þessi góða tilfinning eftir á.“

Ásbjörg fann mun á sér eftir að hún byrjaði að …
Ásbjörg fann mun á sér eftir að hún byrjaði að hreyfa sig og elskar að gefa til baka.

„Ég átti það til að gleyma að borða þegar það var mikið að gera og þegar það gerðist fann ég fyrir mikilli þreytu og andleysi sem helltist yfir mig. Það tekur ekki langan tíma að undirbúa eitthvað fyrir morgundaginn til þess að eiga á hlaupum eða í hléum næsta dag. Fólk á það til í tímaleysi og á hlaupum að grípa sér mat sem gefur því skammtíma, næringarlausa orku.
Það er ekki erfitt að temja sér það að gera sér eitthvað gott og næringarríkt nesti til að taka með sér út í daginn. Ef að fólk kýs að kaupa sér frekar mat þá er ekkert mál að velja sér eitthvað sem er að fara að gefa manni þessa góðu orku sem líkaminn sækist eftir.“

mbl.is