Sér ekki eftir því að hafa selt bílinn fyrir magahjáveitu

Hrafnhildur Jóhannesdóttir fór í magahjáveituaðgerð í október.
Hrafnhildur Jóhannesdóttir fór í magahjáveituaðgerð í október. Kristinn Magnússon

Hrafnhildur Jóhannesdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, fór í magahjáveituaðgerð í október. Hrafnhildur segist hafa fitnað og fitnað þar til hún fór í aðgerðina. Hún var búin að bíða lengi eftir viðtali við lækni þegar hún ákvað að selja bílinn sinn og fara í aðgerðina hjá Klínikinni og hún sér ekki eftir þeirri ákvörðun. Það er ekki langt um liðið frá aðgerðinni en henni líður strax betur. 

„Læknirinn mælti með magahjáveituaðgerð fyrir mig vegna þyngdar minnar auk þess sem ég er með bakflæði. Magaermin getur látið fólk fá mjög slæmt bakflæði en hjáveitan getur læknað hana,“ segir Hrafnhildur um ástæðu þess að hún fór í magahjáveituaðgerð en ekki magaermi.

Andlegt niðurrif var daglegt brauð

Hrafnhildur var alltaf í kjörþyngd en byrjaði svo allt í einu að fitna. „Ég hef alltaf verið dugleg að æfa en ég hélt áfram að fitna sama hvað ég gerði,“ segir Hrafnhildur sem leitaði meðal annars til innkirtlasérfræðings sem athugaði með skjaldkirtil hennar sem var alltaf á mörkunum. „Eitt skiptið sagði hann við mig að hann væri ekki fegrunarlæknir og þá var ég ekki orðin of þung en á leiðinni þangað, talan hækkaði og hækkaði.“

Hrafnhildur segir að hún hafi verið orðin allt of þung þegar hún fór í aðgerðina. „Ég átti erfitt með marga hluti. Mér leið mjög illa líkamlega og andlega. Það var erfitt að vera í lélegu formi eftir að hafa verið í ágætis formi lengi vel. Mér leið ekki vel andlega og niðurrif var daglegt brauð hjá mér. Mér líður betur núna og það eru ekki nema nokkrar vikur síðan ég fór í aðgerðina.“

Hrafnhildur á góða að sem standa við bakið á henni.
Hrafnhildur á góða að sem standa við bakið á henni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tókst ekki að grennast

Hvernig leið þér eftir aðgerðina?

„Ég var rosalega þeytt og verkjuð en það lagaðist fljótt þannig að mér leið bara furðu vel, miklu betur en ég þorði að vona. Ég er enn að jafna mig, kannski meira að safna orku. Fyrst fór ég of fljótt í ræktina að hjóla og þá fékk ég svima og allt byrjaði að hringsnúast í hausnum á mér en það var líka bara viku eftir aðgerð. Ég á það til að fara svolítið fram úr mér,“ segir Hrafnhildur sem ætlar að æfa með Hafdísi eiganda Virago auk þess sem hún ætlar að hjálpa húðinni til baka með því að fara í trimform hjá Virago.

Hrafnhildur var búin að hugsa um að fara í aðgerð í um það bil tvö ár áður en hún lét til skarar skríða. „Ég frestaði því alltaf að tala við lækni. Ég var alltaf að fara að reyna þetta fyrst sjálf, sem mér tókst ekki. Ég var á biðlista að tala við lækni sem sér um það hvort þú fáir að fara í aðgerð á vegum ríkisins en svo kom símtalið aldrei þannig að ég ákvað að hafa samband við Klínikina og fékk tíma. Viku áður en ég fór í aðgerðina fékk ég símtalið sem ég var búin að bíða eftir en þá var ég búin að panta tíma og borga aðgerðina,“ segir Hrafnhildur sem seldi bílinn sinn og keypti sér ódýrari bíl til þess að borga og segist alls ekki sjá eftir því. 

Hrafnhildur horfir björtum augum á fram á veginn.
Hrafnhildur horfir björtum augum á fram á veginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkefnið er rétt að byrja

Hrafnhildur þurfti ekki að gera margt fyrir aðgerðina en segir mörg krefjandi verkefni bíða sín nú þegar hún er búin að fara. „Það er langt frá því að vera búið og ég er rétt að byrja. Ég þarf að læra almennilega á magann, hvað ég get borðað og þess háttar. Mér finnst finnst mjög erfitt að borða hægt þar sem ég var algjör hakkavél en núna er ég bara að læra að njóta matarins,“ segir Hrafnhildur þegar hún er spurð hvort verkefnið sé búið. 

Stundum er talað um hættu á að falla aftur, ertu meðvituð um slíkt? „Algjörlega, þetta er engin töfralausn, maður er eiginlega bara að núllstilla sig og byrja á nýjum venjum,“ segir Hrafnhildur, sem horfir björtum augum fram á við og segist ætla að reyna að vera heilsusamleg og njóta lífsins í framtíðinni. Þeir sem vilja fylgjast með árangri Hrafnhildar geta fylgst með henni á Instagraminu hennar, Hrabbalitla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál