Er hægt að tækla breytingaskeiðið?

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Ég var á báðum áttum hvort að ég ætti að skella í þennan pistil. Kannski bíða í nokkra daga á meðan mesta hormónasveiflan og úrillan var að ganga yfir en svo hugsaði ég FOKKIT. Hann fangar líklega aldrei betur augnablikið og líðanina en akkúrat núna. Ég viðurkenni að ég ritskoðaði hann samt alveg hressilega. Ef ég hefði ekki gert þá þá hefði hann líklega samanstaðið af “#$”#%”#$&#”$&”$%#&”#$&$”#&#” og FOKKIT, HELVÍTIS og fleira í þessum dúr. Þannig að ég vil vara þig við. Þessi er ansi beinskeyttur og ekki fyrir viðkvæm blóm að lesa,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir miðaldra kona og fasteignasali í sínum nýjasta pistli: 

Ég skipti um lífstíl í ágúst 2017 og og lífsstílsbreytingin gekk eins og í sögu fyrir utan hressilegt kvíðakast og bugun í janúar 2018. Ég var stöðugt að bæta mig og formið og almenn líðan var á bullandi uppleið.

Ég hafði skráð mig í FÍ Landvætti 2018 en náði ekki að klára þar sem ég datt á hjóli og lenti í gifsi viku fyrir Bláalónshjólakeppnina. Ég hélt þó mínu striki og haustið 2020 skráði ég mig aftur í FÍ Landvætti. Ég var að æfa hjól, sund, hlaup og gönguskíði og skellti mér einstaka sinnum í fjallgöngu. Lífið var dásamlegt og ég var stútfull af orku og almennri lífsgleði. Ég naut þess að taka þátt í mótum þar sem ég var alltaf að bæta mig. Ég var eingöngu að keppa við sjálfa mig og þegar hér var komið við sögu þá gat ég farið að setja mér raunhæf markmið um hvaða árangur ég vildi ná á mótum þar sem ég átti mótasögu og gat því gert áætlun um persónulegar bætingar.

Fyrsti skellurinn

Eftir síðustu áramót var ég þó aðeins farin að finna fyrir þreytu og lífsgleðin tók sér stundum frí. Stundum fór einhvern allt í taugarnar á mér og það varð ótrúlega mikið af ÖSNUM í kringum mig. Ég skráði mig í Strandamótið sem er 20 km skíðagöngukeppni. Ég var ansi peppuð fyrir hana. Ég hafði klárað Fossavatnsgönguna 2019 sem voru 42 km og það gekk svona glimrandi vel. Fyrsta skíðagöngukeppnin mín hafði verið stuttu árið. Það var Bláfjallagangan sem hafði líka verið 20 km og ég vissi að ég myndi ALDREI ná verri tíma en í henni þar sem ég hafði svo litla reynslu þegar ég tók þátt í henni. ALDREI_SEGJA_ALDREI.

Strandagangan gekk einfaldlega ekkert alltaf of vel. Ég var þreytt og þung á mér. Mér fannst ég orkulaus og stundum fannst mér ég ekki komast áfram. Margir tóku fram úr mér en ég tók ekki fram úr neinum. Þetta var eiginlega alveg glatað og til að toppa þetta allt saman þá var ég á verri tíma en í Bláfjallagöngunni. Þetta var í fyrsta skipti síðan ég breytti um lífstíl að ég náði ekki að bæta mig persónulega. Vinkonur mínur reyndu að peppa mig: „Ásdís, þetta getur verið dagsformið“. „Halló, ég var á verri tíma en þegar ég tók þátt í Bláfjallagöngunni fyrir 2 árum og þá hafði ég stigið nokkrum sinnum á gönguskíði, kunni hvorki að fara upp né niður brekkur og var svo mikið klædd að ég ældi næstum því í keppninni með hitaóráði.“ „Það hægist á fólki með aldrinum“, bættu þær við. Þarna voru þær heppnar að ég var óvopnuð... Það var alveg sama hvaða rök þær komu með. Ég vissi innst inni að þetta var ekki eðlilegt. Ég hafði bara ekki hugmynd um hvað gat verið að.

Skugginn af sjálfri sér

Eftir Strandamótið versnaði ástandið. Ég var orkulaus, uppstökk og datt reglulega niður í óskilgreinda depurð. Ég hafði ekki alltaf orku til að fara á æfingar og stundum þegar ég fór fannst mér allir á æfingunni ömurlegir. Mér er sérstaklega minnisstætt að hafa þurft að labba upp brekku á hjólaæfingu og sjá á eftir öllum upp brekkuna. Ég fór að grenja því mér fannst ég svo ömurlega léleg og æfingafélaganir hundleiðinlegir að stinga mig svona af. Ég var orðin skugginn af sjálfri mér. Ég var skíthrædd um að síðustu ár hefðu verið frávik. Þetta hefðu verið 3 ár sem ég fékk að prófa að vera í toppformi og svo væri það búið.

Núna tæki við tímabil orkuleysis, pirrings og almennra leiðinda. Ég var svo ekki tilbúin að fara þangað en ég vissi bara ekkert hvað ég átti að gera eða hvernig ég átti að tækla þetta. Eina sem virkilega virkaði vel á þessu tímabili var þvagblaðran. Hún fór á yfirsnúning og ákvað að virkilega fara í full swing. Ég náði nú reyndar að googla þetta og greindi hana sem ofvirka þvagblöðru. Algjör snilld get ég sagt ykkur. Fátt betra en að pissa 15 sinnum á dag og vakna einu sinni til tvisvar á nóttunni til að skvetta úr skinnsokkunum. Við vorum reyndar svo heppnar þvagblaðran og ég að komast í sjúkraþjálfun og núna sofum við á okkar græna eyra alla nóttina.

Pottþétt ofþjálfun

Almannarómur var með þetta á hreinu. Þetta er líklega OFÞJÁLFUN var samdóma álit Almannarómsins, já pottþétt OFÞJÁLFUN. Ég var ekki alveg að kaupa þessa skýringu þar sem ég hafði einmitt verið í óstuði í nokkurn tíma og æft óvenju lítið. Allir sem voru sammála um að ég þjáðist af OFÞJÁLFUN áttu eitt sameiginlegt. Enginn þeirra var sérfræðingur. Enginn þeirra var þjálfari og enginn þeirra hafði skoðað Stravað mitt til að sjá hvað ég var í raun og veru að æfa mikið. Fossavatnsgangan var framundan og það var ekki laust við að ég væri að verða pínu stressuð fyrir hana þar sem ég treysti orkunni minni ekki alveg. Hvað ef ég myndi hreinlega klára orkuna mína á leiðinni og ekki drífa upp einhverja brekkuna? Fossavatnsgangan er hvorki meira né minna en 50 km skíðaganga.

Fossavatnsganga dauðans

Hún byrjaði frábærlega. Það var gott veður og við höfðum náð góðu númeri þannig að við byrjuðum snemma. Vegna Covid var ræst út eftir skráningaröð. Ég vissi að ég yrði að byrja snemma til að ég myndi ekki koma í mark eftir að búið væri að taka niður marklínuna og loka fjallinu. Ég var vel stemmd í upphafi. Svo fór gleðin að minnka. Það hjálpaði sannarlega ekki til að þetta varð ein erfiðasta ganga í manna minnum. Þegar verst var sást ekki í næsta mann fyrir snjóstormi og í mesta hliðarvindinum var ég skíthrædd um að ég myndi fjúka ofan af fjallinu.

Gangan varð alltaf erfiðari og erfiðari og ég man þegar ég sá skiltið 29 km þá hugsaði ég það eru Hel... hálfmaraþon eftir. Það hvarflaði samt aldrei að mér að klára ekki. Ég vissi að ég gæti þetta þó að ég yrði ROSALEGA lengi. Ég er með mjög gott grunnþol þó að orkulega séð hafi ég verið ónýt. Ég var farin að fá mér orku á 2ja km fresti og það elskurnar mínar tefur heilan helling.

Síðustu 7 km er brun í mark. Flestir nýta sér það til að ná upp meðalhraðanum. Þreyttar orkulausar brunhræddar miðaldra konur fara þetta í plóg. Niðurstaðan var að ég var ekki nema 8:04:57:8 að klára þetta. Jú þú last þetta rétt, áttaklukkutímarfjórarmínúturfimmtíuogsjösekúndurogáttasekúndubrot. Ég kom í mark nr 216 og það voru ekki nema 10 keppendur fyrir neðan mig. Ég kláraði Fossavatnið en algjörlega gleðilaust og þegar ég kom í mark langaði mig að kveikja í öllu draslinu. Það vottaði ekki fyrir stolti að hafa klárað þessa erfiðu göngu og blessuð medalían er ennþá í plastinu. Þegar ég kom í mark þá vissi ég að það væri eitthvað hressilegt líkamlegt ójafnvægi í gangi og pantaði mér tíma hjá  heimilislækninum. Ég fór í nokkrar blóðprufur og þetta var fljótgreint...

Velkomin á breytingaskeiðið

„Mæling á kvenhormónum sýnir að það er skortur á þeim og þú virðist vera komin í tíðahvörf. Nú já, ég ætla að fá nokkur kvenhormón takk og redda þessu. Þá kom stóri skellurinn. “Ég myndi ráðleggja þér frá því að taka inn kvenhormón meðan blóðfiturnar eru svona háar því slík meðferð eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.“
 
Þetta var hriklega skellur. Ég tók tvær vikur í sjálfsvorkun og velti mér upp úr því hvað lífið er ógeðslega ósanngjarnt. Ég er búin að taka lífstílinn í gegn. Ég er búin að vera hriklega dugleg bæði í mataræði og hreyfingu og svo er þetta niðurstaðan. Alveg sama hvað ég geri. Þetta HELV kolesteról er alltaf til vandræða.

Svo tók ég eitt skref til baka. Ég rifjaði upp þegar ég tók 4ja mánaða Clean mataræði hjá Greenfit og svindlaði EKKERT. Ég var í fullkomnu jafnvægi bæði andlega og líkamlega. Ég svaf eins og engill og kolesterólið lækkaði úr 8.2 í 6.7 á 4 mánuðum. Þetta var því auðleyst. Ég þarf einfaldlega að lifa svona út ævina. Þann 13.maí 2021 ákvað ég því að hætta að borða sykur. Hann gerir ekkert fyrir mig og er í raun lífshættulegur.

Okkar á milli þá var það ekki alveg raunhæft markmið. Sykur er einfaldlega út um allt og mig langar stundum að vera með hinum og fá mér tertusneið í brúðkaupi eða fara með dóttur minni á kaffihús án þess að fá samviskubit dauðans. Eftir nokkra mánaða tilraunastarfssemi varð niðurstaðan að vera 90% Clean.

Hristu þetta af þér

Ég finn gífurlegan mun á viðhorfi fólks hvort að ég er að glíma við sýnilegt tjón eða ósýnilegt. Ég hef tvisvar dottið á hjóli og lent í gifsi. Ég fékk mikla samkennd og fólk sýndi því mikinn skilning að ég vildi taka því rólega og sleppa hlaupa- og hjólaæfingum. Samt er augljóst að ég get alveg hlaupið þó að ég sé í gifsi á annari hendinni, það er ekki eins og ég sé að fara í handahlaup? Hins vegar þegar hormónin fara í rugl þá finnst fólki tilvalið að ég hristi þetta af mér. Ég eigi að harka af mér. Ekki láta þetta hafa svona mikil áhrif á mig. 

ERUÐ ÞIÐ AÐ FOKKA Í MÉR!!!

Ég nenni ekki einu sinni að vera kurteis lengur þegar kemur að þessari umræðu. Samt til að vera alveg sanngjörn hefði ég líklega veitt svipaða ráðgjöf áður en ég upplifði þetta á eigin skinni. Það er meinholt að lenda reglulega í smá krýsum. Það gerir þig mannlegri og þú þróar meiri samkennd.

Það er lægð yfir konunni

Ég verð stundum aðeins „off“ þegar það er lægð yfir landinu. Það er svo hægt að taka þá tilfinningu og margfalda hana með pí nokkrum sinnum þegar breytingaskeiðslægðin skellur á. Hjá mér byrjar lægðin alltaf á því að ég verð svakalega döpur. Það hellist yfir mig vonleysi, orkuleysi, bugun og gífurlegur einmannaleiki. Það er skrýtið hvernig þetta skellur á. Gærdagurinn var kannski alveg frábær og svo vaknar þú með allt á hornum þér og þessa yfirþyrmandi óskilgreindu depurð, svona eins og þú sért alein í heiminum.

Það var mikill léttir þegar ég vissi hvað var í gangi. Þá var amk hægt að vinna í kringum þetta. Mín leið til að díla við lægðirnar er að minnka umfangið. Ég tek að mér færri verkefni meðan þetta er að ganga yfir. Ég legg mig. Ég prjóna. Ég les góða bók. Ég fer út að hlaupa. Ég nýti tímann til að Kjarna mig og hlúa að mér. Ég minnka mig aðeins. Ekki misskilja mig samt. Ég má nú ekki við því að minnka mig, enda ekki nema 1.65 sm, hálfgerður hobbiti. Ég hef aldrei verið hávaxin, nema þegar ég bjó í Honduras, þá var ég hávaxin og ljóshærð og heyrði reglulega kallað á eftir mér á götum úti. Hey Barbie. Ég segi bara eins og Colin vinur minn í Love Actually, ég er í raun ekkert lágvaxin: „I’m just in the wrong continent.“

Það var ansi margt sem ég sleppti á þessu ári. Ég varð pínu andfélagsleg og treysti mér ekki í stórar æfingar og ferðalög. Ég sleppti öllum hópaæfingum með Landvættinum sem var eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í fyrra skiptið. Ég reyni að vanda mig extra mikið í samskiptum. Stundum á ég erfitt með að greina á milli hvort að viðkomandi sé virkilega svona ósanngjarn eða hvort að breytingaskeiðið sé að skella á. Ég er mjög fegin fyrir hönd kærastans að við búum ekki saman. Ég veit að ég er að fara í gegnum snjóstorm núna og sem betur fer er ég alltaf að læra betur á mig og hvað ég get gert til að bæta mína líðan. Ég næ að stjórna þessu að mestu með hreyfingu og mataræði. Ef ég borða mikinn sykur þá er ég næmari fyrir áreiti. Ef ég tek margar álagsæfingar þá er ég verri. Löng róleg hlaup henta mér betur en stutt hröð hlaup.

Breytingaskeiðið er furðulegt

50% af mannkyninu þjást af þessu á einhverjum tímapunkti. Mjög mismikið. Sumar konur fara mjög illa út úr breytingaskeiðinu og aðrar finna varla fyrir þessu og svo eru það konur eins og ég sem erum svona mitt á milli. Samt er rosalega lítið vitað um breytingaskeiðið og því meira sem ég kynni mér málið því augljósara er að konur eru oft greindar með allskonar aðra kvilla áður en breytingaskeiðið er kannað, sérstaklega yngri konur sem passa ekki inn í aldurskassann. Ég hefði mögulega ekki kveikt á perunni strax ef ég hefði ekki verið búin að skipta um lífstíl. Ég þekki minn líkama mjög vel og er fljót að átta mig á því hvenær ég er off og hvenær ekki.

Ég á mína slæmu daga. Mér finnst stundum alveg glatað að þurfa að hugsa svona vel um mataræðið. Mér finnst glatað að alveg sama hvað ég hreyfi mig mikið þá get ég ekki borðað allt sem mig langar í þegar ég vil. Mér finnst líka glatað hvað sykurpúkinn er fljótur að kveikja á sér. Fyrir mér er þetta samt ekki val. Með því að vanda mataræðið og hreyfinguna er ég heilbrigðari og í miklu betra jafnvægi. Það geta liðið mánuðir án þess að ég finni fyrir einkennum breytingaskeiðsins. Svo einn daginn skellur það á mér af fullum þunga og þá er bara að anda sig í gegnum þetta. Tímabilin verða alltaf styttri og stundum er þetta bara dagspartur.

Cleanlife.is

Ég og Axel Valur sonur minn erum með matarblogg sem heitir því einfalda nafni Cleanlife.is. Það eru stærri framtíðarplön fyrir þetta verkefni en í dag læt ég duga að halda úti matarbloggi. Þarna set ég inn matseðlana mína og uppskriftir sem við erum að þróa. Ég fæ mikið af hugmyndum af Instagram og aðlaga þær svo að mínu mataræði. Því minni sykur sem ég borða því betur líður mér og því sætari finnst mér matur. Strákarnir mínir tala stundum um að ég sé með gallaða bragðlauka því mér finnst allt dísætt í dag. 

Eru konur að brenna yfir?

Mér finnst mikið um að konur á mínum aldri séu að brenna yfir. Þær eru með alltof mikið á sinni könnu. Um hvað ertu að tala Ásdís mín, þú ert nú heldur betur ofvirk og gerir alltof mikið og sefur of lítið. Nei, alls ekki, það lítur kannski þannig út. Ég er í raun með 4 verkefni. Fjölskyldan, hreyfing, hvíld og vinnan. Ég er ekki í námi með vinnu. Ég er ekki í neinni nefnd. Ég er ekki í neinu sjálfboðastarfi af því að ég kemst ekki yfir meira en þessi fjögur verkefni sem eru í algjörum forgangi hjá mér. Þau eru í raun öll jafnmikilvæg. Ég var einu sinni í allskonar nefndum og ráðum og með milljón og tvo bolta á lofti. Sá tími er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur.

Má vera leiður?

Hvers vegna má ekki bara vera off? Hvers vegna þurfum við alltaf að vera í lagi?
Eigum við kannski að taka bara Lego Movie á þetta og allir eiga að vera AWESOME ALWAYS....

„Everything is awesome
Everything is cool when you're part of a team
Everything is awesome
When you're living out a dream“

Mín reynsla að díla við tilfinningar er að ef ég leyfi þeim að flæða og bæli þær ekki niður þá gengur þetta fyrr yfir. Ef ég leyfi úrillunni að sleppa út í staðinn fyrir að halda henni inni þá fer hún fyrr. Við göngum öll í gegnum allskonar áföll á lífsleiðinni og hvers vegna ekki bara að leyfa okkur að eiga ömurlegan dag eða viku eða mánuð eftir tilefni. Það er held ég öllum hollt að vera dapur og syrgja þegar eitthvað kemur upp á.

Ég útskýrði þetta einu sinni fyrir vini mínum sem fannst ég eitthvað pirruð og sagði: „Ekki sleppa úrillunni út í andrúmsloftið.“ Að ráðleggja pirraðri konu að slaka á er svipað og fara með flugelda niður á bensínstöð, henda þeim ofan í púðurtunnu við hliðina á bensíndælu, kveikja í öllu draslinu og vona að það verði ekki sprenging.

2021 er árið sem ég notaði í að finna jafnvægi og hvað virkar fyrir mig og hvað ekki. Ég hef hins vegar fulla trú á því að 2022 verði frábært ár og því er ég búin að skrá mig bæði í Maraþon og hálfan Járnkarl á næsta ári.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál