Linda Pé segir að allir geti eignast nóg af peningum

Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi með þyngdartap sem sérgrein.
Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi með þyngdartap sem sérgrein.

Linda Pétursdóttir fyrrum Ungfrú heimur heldur úti hlaðvarpinu, Lífið með Lindu Pé. Í nýjasta þættinum talar hún um sjálfsmynd og peninga. 

„Hefur þú áhyggjur af peningum, að hafa ekki nóg, þéna ekki nóg, geta jafnvel ekki borgað reikningana þína, eiga ekki nægan sparnað eða bara alls engan sparnað? Trúir þú því að einungis gráðugt og vont fólk eigi mikla peninga,“ spyr Linda Pé í þessum nýjasta þætti: 

Kannstu við eitthvað af þessum hugsunum?

„Ef svo þá eru allar líkur á að þetta sé akkúrat það sem er sýnilegt í lífi þínu í dag, varðandi peninga. Hugsanir okkar búa til sjálfsmyndina okkar og við búum alltaf til í raunveruleikanum það sem sjálfsmyndin okkar segir til um. Við komumst í raun aldrei lengra en sjálfsmynd okkar leyfir, það eru hverju við trúum, í dag, um okkur sjálfar.

Mig langar að fá þig til að spyrja sjálfa þig hverju þú trúir í raun og veru, um peninga og skoðaðu virkilega svörin þín. Sjáðu hvaða svör koma upp í huga þinn. Það er trú þín um þig og peninga. 

Þessi svör þín búa til núverandi raunveruleika þinn af því að það er það sem þú trúir. Þegar þú spyrð þig hverju þú trúir um peninga hvort er þá svarið þitt á þá leið að þeir séu auðfengnir, auðveldir, skemmtilegir eða segir þér að þeir séu erfiðir, að það sé ekki til nóg, að þú þurfir að hafa mikið fyrir að þéna, að vinna langar vinnustundir, að þú hafir aldrei nóg og að einungis gráðugt og vont fólk eigi mikla peninga? 

Þessi svör sem koma upp hjá þér, segja þér allt um möguleikana þína á því að auka peningaflæðið í lífi þínu af því að það sem við lærum í Prógramminu mínu og þú færð innsýn í hér í podcastinu, er að heilinn vinnur alltaf að því að sanna að hugsanir okkar séu réttar.

Þannig að ef við trúum því að við getum ekki eignast peninga þá býr heilinn á okkur til þann raunveruleika. Þess vegna eru til ótal mörg dæmi þess að fólk vinni til dæmis stórar upphæðir í lottói og endi svo með því að tapa því öllu og jafnvel meiru til af því að það hafði ekki trú á að það gæti átt peninga,“ segir Linda. 

Hvernig breytum við þessu svo?

„Það að átta sig á hvaða hugsanir búa til raunveruleikann okkar er alltaf fyrsta skrefið. Vertu forvitin og spurðu þig kröftugra spurninga. Vertu hreinskilin í svörum þínum af því að þú græðir ekkert á því að fegra svörin þín. Það er bara lygi.

Ef þú ætlar að fara að auka peningaflæðið í lífinu þínu með nýjum hugsunum en hefur ekki afhjúpað trúnna þína sem þér var einhverntímann kennd, til dæmis að fólk með peninga sé gráðugt og óheiðarlegt þá ertu ekki að fara að eignast peninga. Það myndast svokallað hugsnamisræmi sem þýðir að þú ert að framkvæma gjörðir (búa til peninga) sem er á skjön við gildi þín og trú (að gott fólk eigi ekki mikla peninga).

Ég hvet þig til að fara í þessa vinnu og sjá hvað þú getur gert. Hafðu gaman af þessu, vertu forvitin og leyfðu huganum að fara á flug,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.  

 

mbl.is