Bjössi í World Class þarf ekki að missa svefn

Atli Fannar Bjarkason hefur, ásamt félögum sínum í Afrek, unnið …
Atli Fannar Bjarkason hefur, ásamt félögum sínum í Afrek, unnið undanfarna mánuði við að breyta pústverkstæði í líkamsræktarstöð. Samsett mynd

Um miðjan desember mun líkamsræktarstöðin Afrek opna í Skógarhlíð í Reykjavík. Að baki verkefnisins standa átta fjölskyldur úr ólíkum áttum en ástríða þeirra fyrir að sveifla ketilbjöllum leiddi þau saman. Fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason er einn af þeim sem hefur unnið baki brotnu undanfarna mánuði við að gera stöðina klára. 

„Við höfum lengi látið okkur dreyma um að stofna eigin stöð og það er frekar langt síðan við ákváðum að kýla á það. Nú þegar hillir undir að Afrek opni erum við hreinlega að bilast úr eftirvæntingu,“ segir Atli. 

Snemma í haust fékk hópurinn húsnæðið í Skógarhlíð afhent en þar var áður pústverkstæði og hefur það því verið ærið verkefni að breyta húsnæðinu úr verkstæði í líkamsræktarmusteri. Hópurinn valdi nafnið með vísan til þess að það er ákveðið afrek að mæta á æfingu, bæði þegar maður hefur varla tíma eða bara nennir ekki. 

„Orðabókin segir að afrek sé verk sem innt er af hendi með sérstökum dugnaði og skilar miklum árangri. Það er erfitt að finna betri lýsingu á því að mæta á æfingu. Svo má ekki gleyma að þegar kemur að hreyfingu eru afrekin persónubundin,“ segir Atli og bætir við að þau vilji að nafnið bjóði fólk velkomið, hvort sem það er búið að sveifla ketilbjööllum í tíu ár, þurfi að rifja upp tæknina eða læra hana frá grunni. „Fyrsta afrekið er að mæta.“

Undan farnar vikur hefur hópurinn lyft timbri frekar en lóðum en nú fer að sjá fyrir endann á því verkefni. „Við erum búin að vera á fullu undanfarnar vikur og nú erum við nánast dag og nótt með hamarinn á lofti í Skógarhlíð. Eftir þrotlausa vinnu erum við byrjuð að sjá til lands í framkvæmdunum og getum ekki beðið eftir því að opna í desember. Hvenær í mánuðinum kemur í ljós en við hvetjum áhugasöm til að finna okkur á samfélagsmiðlum og fylgjast með lokametrum framkvæmdanna,“ segir Atli.

Fjölskyldurnar átta láta drauminn um að opna líkamsræktarstöð verða að …
Fjölskyldurnar átta láta drauminn um að opna líkamsræktarstöð verða að veruleika í desember.

Áherslan á hagnýta hreyfingu

Í Afreki fylgja þau hugmyndafræðinni um hagnýta hreyfingu eða functional fitness á ensku. „Það þýðir að við leggjum áherslu á að iðkendur okkar hreyfi sig vel og að æfingarnar nýtist þeim í daglegu lífi og að öll hreyfing og líkamleg átök í daglegu lífi verði auðveldari,“ segir Atli. 

Í fyrstu verða tvær tegundir af hefbundnum tímum sem bera heitin Krafur og Úthald. „ Í Krafti verður meiri áhersla á lyftingar með stöng, kraft- og ólympískar en í Úthaldi verður meira unnið með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd. Við ætlum líka að bjóða upp á mjög metnaðarfulla tíma fyrir verðandi og nýbakaðar mæður og skráning á fyrsta námskeiðið sem hefst í janúar er einmitt nýhafin á vefnum okkar. Svo verðum við að sjálfsögðu með sérstök námskeið fyrir byrjendur. Þetta er bara byrjunin og planið er að vaxa með iðkendahópi okkar og bjóða upp á fjölbreytta tíma og námskeið. “

Fjölskyldurnar hafa meira verið að lyfta timbri en lóðum undanfarnar …
Fjölskyldurnar hafa meira verið að lyfta timbri en lóðum undanfarnar vikur.

Jólaæfingar í bland við smákökurnar

Staðsetning Afreks er mjög góð, í útjaðri hlíðanna og í alfaraleið ef svo mætti að orði komast. Í grenndinni er Mjölnir og niðri í Vatnsmýrinni er World Class með World Fit. Spurður hvernig samkeppnin á svæðinu leggist í þau segir Atli að þau kvíði engu.

„Við bjóðum ekki upp á uppgjafarglímu og það verður ekkert hlaupabretti í húsinu þannig að Halli Nelson, vinur okkar í Mjölni, og Bjössi í World Class þurfa ekki að missa svefn. En svona án gríns þá erum við að einbeita okkur hundrað prósent að því sem við ætlum að gera – sem er að bjóða upp á æfingar í hæsta gæðaflokki, ásamt topp aðstöðu og frábærri stemningu. Ef það verður til þess að fólk vilji æfa hjá okkur frekar en öðrum er það bara geggjað,“ segir Atli.

Afrek opnar núna í desember, svo gott sem korter fyrir jól, og því verður allt klappað og klárt fyrir janúarvertíðina. Atli segir þau ekki vera stressuð að opna stuttu fyrir jól, þegar fólk er kannski ekki í hvað mesta líkamsræktarstuðinu. 

„Janúar er handan við hornið og dyrnar verða opnar í Skógarhlíðinni þegar fólk er tilbúið að leggja frá sér konfektkassann. Sjálfum finnst mér ekkert skemmtilegra en góðar jólaæfingar í bland við smákökurnar og maltið. Það hlýtur einhver að tengja við það.“

Hægt er að kynna sér starfsemi Afreks nánar á nýjum vef þeirra. 

Afrek opnar um miðjan desember.
Afrek opnar um miðjan desember.
mbl.is