Jólagjöf Landspítala veglegri í ár

Starfsmenn Landspítala geta valið á milli sex gjafabréfa í ár, …
Starfsmenn Landspítala geta valið á milli sex gjafabréfa í ár, eða að gefa Mæðrastyrksnefnd gjöfina sína. Samsett mynd

Starfsmenn Landspítala gætu fengið valkvíða þegar þeir velja sér jólagjöf í ár, en alls hafa starfsmennirnir úr sex gjafabréfum að velja. Þá geta þeir einnig valið að gefa upphæðina til Mæðrastyrksnefndar. Jólagjafanefnd Landspítala sendi starfsmönnum sínum gjöfina í tölvupósti í gær.

Jólagjafir Landspítala til starfsfólks vöktu mikla athygli á síðasta ári en þá var um að ræða 7.000 króna gjafabréf í skóbúðinni Skechers og súkkulaði frá Omnom. Þótti mörgum lítið til jólagjafarinnar koma sem Landspítalinn sendi starfsfólki sínu, sem staðið hefur í framlínunni í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. 

Í ár geta starfsmenn valið um 14.000 króna gjafabréf hjá Sky Lagoon, 12.000 krónur hjá Bestseller, 9.000 krónur hjá Sælkerabúðinni, 12.000 hjá Cintamani, 12.475 krónur hjá FlyOver Iceland eða 14.990 krónur hjá Zipline  Ævintýri í Vík í Mýrdal. Þá geta þeir einnig valið að gefa Mæðrastyrksnefnd gjöfina sína, 7.000 krónur. 

Starfsmenn Landspítala eru að sögn Gunnars Ágústs Beinteinssonar, framkvæmdastjóra mannauðsskrifstofu Landspítala, mjög ánægðir með gjöfina.

mbl.is