Fyrstu veganjólin voru fátækleg

Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir varð vegan 2016.
Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir varð vegan 2016.

Þórdís Ólöf varð vegan árið 2016 og telur veganmataræði einföldustu leiðina til að stuðla að betri heimi fyrir alla.

„Grænkerar.is er síða sem ég held úti, til að sýna hversu auðvelt og skemmtilegt er að elda veganmat. Eins vildi ég sýna að grænkerar geta verið sælkerar líka.“

Hún segir fátt annað komast að þessa dagana en að undirbúa komu annars barns hennar í heiminn, en hún á von á sér í þessum mánuði.

„Þegar ég er ekki að snúa öllu heimilinu á hvolf í þrifum, tiltekt, enduruppröðun og almennri hreiðurgerð stunda ég meistaranám í umhverfis- og náttúrusiðfræði og vinn í stökum hönnunarverkefnum en ég er með BA-gráðu í arkitektúr.“

Meðlætið skiptir ekki síður máli á jólunum

Hvað verður í matinn á jólunum?

„Áður fyrr var fjölskyldan alltaf með lambahrygg á jólunum en eftir breytinguna yfir í grænkerafæði þróuðum við hnetusteik sem inniheldur allt það sem okkur fannst passa vel með lambahrygg ásamt sömu kryddum. Niðurstaðan var svo góð að síðan þá höfum við haldið okkur við þessa dásamlegu hnetusteik á aðfangadag. Mér finnst meðlætið þó ekki síður mikilvægt en aðalrétturinn og legg ég mikið upp úr því að hafa góða sósu, brúnaðar kartöflur, sætkartöflumús, ofnbakað rósakál og að sjálfsögðu heimagert laufabrauð. Ef ég get ekki búið laufabrauðið til þá hika ég ekki við að kaupa það úr búð.

Ég hef aðeins prófað mig áfram með ólíka forrétti og útbjó vegan graflax í fyrra sem var vel heppnaður. Eftirrétturinn er einnig breytilegur en ég hef til dæmis gert saltkaramelluostaköku með hindberjasósu en í ár ætla ég að útbúa súkkulaðimús sem ég hef undanfarið verið að fullkomna.“

Bakarðu eða gerir eitthvað annað huggulegt fyrir jólin sem er í takt við það sem þú borðar vanalega?

„Fyrstu jólin eftir að ég varð vegan var ósköp lítið úrval fyrir mig og matarlega séð voru jólin ansi fátækleg. Ég einsetti mér því að veganvæða allt það sem mér finnst gott að borða á jólunum og hef meðal annars gert vegan hangikjöt, hamborgarhrygg, sörur, súkkulaðitrufflur, ostakökur og laufabrauð. Þar að auki hefur veganúrval í verslunum og á veitingastöðum stóraukist á síðustu árum og get ég nánast fullyrt að grænkerar séu ekki að missa af neinu yfir jólahátíðina, nema þá kannski sleninu sem fylgir gjarnan miklu áti á söltu og reyktu kjöti.“

Hamborgar-oumph vinsælast á jólunum

Hver er vinsælasta uppskrift grænkera á jólunum?

„Það vinsælasta er hamborgarhryggur, eða hamborgar-oumph, sem ég og mamma þróuðum í sameiningu.

Fjölskyldan mín hefur aldrei verið með hamborgarhrygg, hvorki á jólum né áramótum, en uppskriftin tókst svo vel að Hamborgar-oumph-ið fékk sinn stað í nýjum jólahefðum fjölskyldunnar og ég mæli virkilega með að prófa. Ég útbý réttinn vanalega nokkrum vikum áður og geymi í frysti. Vinsælasti eftirrétturinn er svo karamelluostakaka sem er syndsamlega góð og holl í þokkabót.“

Hamborgar-oumph Hleifur, innihald

1 laukur

300 g gulrætur

¼ rauðkálshaus

1 grænmetisteningur

2 teskeiðar hlynsíróp

1 pakki Hangi-oumph frá Jömm

2 dl kasjúhnetur

2/3 dl haframjöl, glútenlaust sem dæmi

Gljái

2 dl púðursykur eða hrásykur

2 matskeiðar eplaedik

1 matskeið tómatsósa

1 dl vegan rjómi, sem dæmi frá Soyatoo

2 teskeiðar dijon-sinnep

Rífið lauk, gulrætur og rauðkál nokkuð smátt. Skerið oumph einnig tiltölulega smátt.

Setjið grænmetið og oumph á pönnu og látið malla í hálftíma. Setjið grænmetistening og hlynsíróp út í og smakkið til. Bætið við vatni eftir þörfum en reynið að hafa þetta nokkuð þykkt og þurrt.

Þegar blandan hefur mýkst vel á pönnunni er hún sett í matvinnsluvél og blönduð í örskamma stund þar til þykkt mauk hefur myndast, en þó með smá áferð. Blandið frekar of stutt en of lengi.

Þurrristið kasjúhnetur á pönnu og setjið í blandara ásamt haframjöli.

Blandið kasjúhnetum og haframjölinu saman við grænmetis-oumph blönduna.

Nú á blandan að vera orðin mjög þykk. Leyfið henni að kólna örlítið og mótið hana svo í hleif.

Smyrjið ofnfat með olíu og leggið hleifinn ofan í. Fallegt er að skera rákir í hleifinn.

Gljáinn er þannig gerður að púðursykurinn er bræddur ásamt eplaediki í potti. Bætið síðan tómatsósu, veganrjóma og sinnepi út í. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan þykknar. Ef afgangur er af gljáanum getur hann passað vel í sósuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál