Verða því miður ekki saman á jólunum

Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur eru veganistur.
Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur eru veganistur.

Systurnar Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur, betur þekktar sem Veganistur, kunna að útfæra hefðbundinn jólamat á vegan máta sem gestir kunna vel að meta. Þær hafa alltaf verið nánar. Helga býr í Svíþjóð þar sem hún hefur nýlega lokið bachelornámi í djasssöng við tónlistarháskólann í Piteå. Meðfram söngnum bloggar hún bæði á íslensku og sænsku og eyðir mestum sínum tíma í eldhúsinu við að þróa nýjar og skemmtilegar uppskriftir.

„Við elskum að elda vegan mat og búa til uppskriftir. Við reynum að hafa uppskriftirnar okkar einfaldar og með hráefnum sem allir þekkja. Einnig höfum við haft virkilega gaman af því að veganvæða hefðbundna íslenska rétti og þá sérstaklega kökur og bakkelsi. Á blogginu veganistur.is má sem dæmi finna vegan uppskrift að lakkrístoppum, lagtertu, brauðréttum og flestu sem myndi finnast í hefðbundnu íslensku jólaboði,“ segir Júlía.

„Jólin hafa alla tíð verið mjög stór hluti af okkar lífi. Mamma okkar er mikið jólabarn og var alltaf stemning á heimili okkar um jólin. Við byrjum snemma að huga að jólaundirbúningi og þá sérstaklega hvað varðar matinn. Við skreytum mikið og bara hreint elskum jólin,“ segir Helga.

Verða því miður ekki saman á jólunum

„Við systur verðum því miður ekki saman um jólin. Ég fæ stórfjölskylduna í mat en ég hef síðustu ár haldið vegan jól með allri fjölskyldunni. Þó svo að við séum ekki búin að ákveða nákvæmlega hvað verður í matinn þá eru alltaf ákveðnir hlutir sem verða að vera og það eru vegan aspassúpa í forrétt, síðustu ár höfum við haft vegan wellington með hefðbundnu jólameðlæti og svo heimagerðan jólaís,“ segir Júlía.

Helga mun halda upp á sín fyrstu jól í Svíþjóð í ár.

„Þar er borðað svokallað „julbord“ þar sem borðið er fyllt af alls konar réttum, svolítið eins og hlaðborð. Ég ætla að gera vegan útgáfu af því sem vaninn er að hafa á svoleiðis hlaðborði. Á blogginu okkar má einmitt finna uppskrift að sænskum jólamat. Góð vegan wellington er þó nauðsynleg yfir jólin svo ætli ég geri hana ekki um áramótin í staðinn,“ segir Helga.

Á jólunum í fyrra voru þær með fjölskyldunni sinni sem býr í Grundarfirði.

„Þar héldum við vegan jól með allri fjölskyldunni í rigningarstorminum sem reið yfir og var það virkilega notalegt,“ segja þær.

Flestar hefðir snúast um matargerð

Hvað gerið þið alltaf á jólunum?

„Ég hugsa að flestar okkar hefðir snúist um matargerð en það er algjörlega ómissandi fyrir okkur að baka ákveðna hluti fyrir jólin. Sem dæmi lakkrístoppa og súkkulaðibitakökur. Einnig er það heilög hefð hjá okkur að hafa heitan aspasbrauðrétt á jóladag.“

Hvað með aðdraganda jólanna, hvað gerið þið þá?

„Síðustu ár hefur sá tími snúist um að útbúa nýjar hátíðlegar uppskriftir fyrir bloggið. Við byrjum snemma að spá í hvaða uppskriftir við viljum gera fyrir jólin og er hátíðarflokkurinn á blogginu okkar einn stærsti flokkurinn þar inni. Fyrir tveimur árum gáfum við út fyrstu matreiðslubókina okkar og kom hún út í desember. Þá fór auðvitað mikill tími í það og síðan höfum við báðar verið í háskólanámi síðustu árin og þá er alltaf mikið um að vera tengt því í desember. Svo erum við að sjálfsögðu mikið að þrífa, skreyta og stússa í þessum hefðbundna jólaundirbúningi. Það má því segja að aðdragandi jólanna sé oft mikill annatími hjá okkur systrum en jafnframt einn af okkar uppáhaldstímum yfir árið,“ segja þær.

Eru góðar vinkonur og tala saman daglega

Þið notið liti á skemmtilegan hátt í matargerð ykkar. Skiptir útlitið miklu máli?

„Útlitið skiptir okkur að sjálfsögðu miklu máli þegar við erum að mynda mat fyrir bloggið og miðlana okkar. Dagsdaglega myndum við ekki segja að það skipti meira máli en hjá flestum held ég en þegar við erum til að mynda að bjóða í mat þá auðvitað skiptir það okkur máli.“

Hvað langar ykkur í í jólagjöf þetta árið?

„Mig langar í bækur. Það hafa komið út svo spennandi íslenskar skáldsögur og ljóðabækur á árinu sem mig langar að lesa,“ segir Helga.

Júlíu langar hins vegar í alls konar eldhúsdót og þá aðallega Smeg-brauðrist eða eitthvert fallegt barnadót þar sem hún á að eiga barn í janúar.

Þær Helga og Júlía eru góðar vinkonur og hafa alltaf verið.

„Við rifumst að sjálfsögðu eitthvað þegar við vorum yngri og var Helga oft þreytt á litlu systur sinni, sem hékk utan í henni allan daginn. En í dag erum við virkilega góðar vinkonur og tölum saman á hverjum einasta degi,“ segir Júlía.

Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

(15 stykki)

1 dl Alpro-þeytirjómi, ekki þeyta hann samt

25 g smjörlíki

200 g suðusúkkulaði

2 msk. Cointreau-appelsínulíkjör, eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður.

Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu áfengi og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur.

Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar.

Aðferð Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst. eða yfir nótt.

Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakói gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði er mælt með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mínútur og hjúpa þær svo. Það má rífa niður appelsínubörk og setja ofan á.

Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál