Varð mér til lífs að detta úr staurnum

Guðmundur Felix fékk nýjar hendur í ár.
Guðmundur Felix fékk nýjar hendur í ár. Ljósmynd/Brynjar Snær

Guðmundur Felix Grét­ars­son, handhafi eins og hann kýs að kalla sig, lenti í slysi janúar 1998 þegar hann vann sem rafveituvirki. Slysið sem hefði dregið flesta til dauða varð til þess að líf hans breyttist úr hefðbundinni sögu yfir í hálfgerða hryllingsmynd á örskotsstundu. Guðmundur Felix var gestur í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu hjá Gunnari og Davíð Wiium.

Nú 23 árum síðar er Guðmundur í jólaheimsókn með konunni sinni Sylwiu og orðinn handhafi. Hann gekkst undir aðgerð í janúar á þessu ári þar sem græddir voru á hann nýir handleggir frá öxlum.

Guðmundur Felix fór yfir það í þættinum hvernig óskipulag og röð mannlegra mistaka urðu til þess að hann fór upp í vitlausan staur þennan afdrifaríka morgun með þeim afleiðingum að hendur hans nánast sprungu af. Hann féll átta metra niður á jörðu sem hann reyndar segir að hafi gert það að verkum að hann lifði af. Ef honum hefði ekki verið kastað á jörðina hefði hann einfaldlega brunnið upp til agna uppi í staurnum. Við fallið þríbrotnaði hann á hrygg ásamt því að rifbein losnuðu frá hryggjarsúlunni. Þar að auki fékk hann talsverða innri áverka sem þýddu að hann hefur tvisvar gengist undir lifrarígræðslu.

„Það sem verður mér til lífs er að detta úr staurnum. Þetta eru svona sérstakir skór sem maður er í sem krækjast utan um staurinn og svo er maður með belti og lífól utan um staurinn. Ég er sem sagt búinn að losa lífólina og gríp í línuna og ef ég hefði ekki dottið þá hefði ég bara verið þar þar til ekkert hefði verið eftir, þá er maður bara eins og kyndill,“ segir Guðmundur Felix.

„Já, í langan tíma var skömm því ég vissi ekki hvað hefði gerst, ég mundi ekkert. Það tók mig talsverðan tíma að muna atburðarásina, það fóru svo alls konar sögur af stað, meðal annars að ég hefði bara ætlað að kála mér,“ segir Guðmundur Felix. „Ég vissi samt að það var eitthvað óeðlilegt, ég meina ég var ekki fáviti. Ég vissi nákvæmlega hvað ég var að gera en eitthvað hefur farið úrskeiðis sem fær mig til að fara upp í rangan staur.“

Fljótlega eftir slysið byrjaði fjölskylduformið að molna undan honum. Hann segir að hann og kona hans þáverandi hafi bara verið krakkar með krakka. „Konan mín þáverandi verður fyrir alveg gríðarlegu áfalli þegar þetta gerist og er allt í einu bara þarna orðin ein með pínulítil börn og maðurinn hennar bara eins og pezkall,“ segir Guðmundur Felix.

Hann segist hafa verið þjakaður af sekt og skömm, fullur vanmáttar og sjálfsvorkunnar. Mikil verkjalyfjagjöf gerði það að verkum að hann ánetjaðist lyfjum sem leiddu hann í harðari fíkniefnaneyslu sem nánast gengu af honum dauðum. „Það kemur enginn leiðarvísir að því hvernig maður dílar við þetta og ein góð leið til að díla við þetta er bara að díla ekkert við þetta og ef þú ert bara í einhverju móki þá er þetta ekkert vandamál,“ segir Guðmundur Felix.

Hann minnist þess að hafa upplifað sig sem skrítna gula kallinn í Smáralindinni er hann kom auga á unga drengi sem eltu hann, störðu og gerðu grín að honum. Þarna hafi hann upplifað hálfgerðan augnabliksskýrleika og ákveðið að verða edrú. 

Guðmundur Felix var búinn að bíða lengi eftir handleggjunum. Hann fór til Frakklands og hóf vinnuna fyrir um sjö árum. Mikill tími hefur farið í alls konar rannsóknir og samsetningu á liði lækna og hjúkrunarfræðinga sem áttu að framkvæma aðgerðina þegar réttu handleggirnir dúkkuðu upp. Mikil bið beið Guðmundar Felix en líf hans tók miklum breytingum eftir að Sylwia birtist í lífi hans. Sylwia, sem er frá Póllandi, hefur verið Felix ómetanlegur styrkur í þessu ferli öllu saman. Hún starfar sem jógakennari og búa þau saman í úthverfi Lyon með þrjá hunda. Guðmundur Felix segist njóta lífsins í Frakklandi og segir að þrátt fyrir að planið hafi alltaf verið að flytja aftur heim til Íslands geti þau alveg séð fyrir sér að búa áfram í Frakklandi.

„Hún náttúrlega bara kynnist mér og ég er bara algjörlega handleggjalaus og ég segi henni hvað ég er að gera þarna í Lyon en hún bara einhvern veginn eins og svo margir aðrir hélt að það yrði aldrei neitt úr þessu og var bara algjörlega sátt við það. Við verðum ástfangin þegar staðan er svona,“ segir Guðmundur Felix og bætir svo við sposkur á svip og hlær: „En ég er rosa mikið að flengja hana núna því ég get það.“

Dagleg endurhæfing Guðmundar Felix er löng og ströng. Hann mætir snemma á morgnana og stendur endurhæfingin yfir nánast allan daginn. Hann segir hana ekki bara gríðarlega erfiða og krefjandi heldur einnig alveg drepleiðinlega oft og tíðum. Mikil endurtekning sem þarf til svo að nýjar tengingar taugakerfisins geti átt sér stað. Árangurinn sem Guðmundur Felix sýnir í sinni bataþróun er framar öllum vonum; taugar virðast vera að vaxa miklu hraðar en vonir stóðu til, en jákvæð viðhorf hans og þrautseigja hafa þar örugglega sitt að segja.

Gunnar bar upp spurningu úr sal. Spurningin kom frá góðvini Þvottahússins, honum Ívari á gröfunni. Ívar vildi vita hvort Guðmundur Felix væri búinn að „hrista“ hann. Guðmundur Felix svaraði þessari spurningu hlæjandi og þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hann væri spurður að þessu. Hann sagðist halda að þetta væri það fyrsta sem mörgum drengjum og mönnum dytti í hug. Hann sagði að gripstyrkur og hreyfigeta væru á hraðri uppleið og þegar hann myndi hverfa af samfélagsmiðlum eða sjónarsviði almennt í mánuð eða svo þá vissum við hvað hann hefði fyrir stafni og hvar hann væri staddur í sinni bataþróun! Það tæki líklega einhverja mánuði að vinna upp 23 ár án handleggja.

Við heimkomuna til Íslands hefur hann gengið í gegn um alla flóruna af tilfinningum. Til dæmis hitti hann og fékk að halda á mánaðargömlu barnabarni sínu, honum Felix yngri, í fyrsta skiptið en yngra barn hans var aðeins þriggja mánaða þegar hann lenti í slysinu. Hann upplifir ómælda heilun á fortíð sinni í þessu ferli öllu saman. Hann segist vera í þessum aðstæðum svo djúpt snortinn að það jaðri við taugaáfallioft og tíðum. Hann meira að segja óttaðist að verða í stanslausum grátköstum í Íslandsheimsókninni því tilfinningarnar bera hann oft og tíðum ofurliði. 

Hendurnar sem Guðmundur Felix fékk tilheyrðu áður manni sem var 35 ára þegar hann lést, annað veit Guðmundur Felix ekki. Hann sagði að aðstandendur gjafans vissu að öllum líkindum hver bæri hendurnar í dag og því í færi að fylgjast með þeim úr fjarlægð því gríðarleg umfjöllun er í gangi í Frakklandi.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál