Keypti vodka alla morgna og gat ekki sótt börnin

Michelle Heaton var söngkona í bresk/írsku poppsveitinni Liberty X.
Michelle Heaton var söngkona í bresk/írsku poppsveitinni Liberty X. Skjáskot/Instagram

Michelle Heaton, fyrrverandi söngkona bresku poppgrúppunnar Liberty X, segist hafa verið hætt komin af áfengisfíkn. Hún fór í meðferð fyrir tæpu ári og heldur sig nú frá áfengi. Hún segir að fíknin hafi verið orðin það sterk að hún var hætt að geta séð um börnin sín.

„Ég var sífellt að lofa mér að þetta yrði í síðasta skipti sem ég drykki eða notaði kókaín. En svo vaknaði ég og óttaðist það eitt að eiga ekkert áfengi til á heimilinu. Ég plataði vini og kunningja til þess að sækja börnin úr skóla. Ég var sjálfselsk og uppgefin. Ég vildi ekki ljúga en ég varð að gera það til þess að geta drukkið.“

Heaton fór hvern morgun út í búð og keypti sér áfengi til þess að róa taugarnar eftir mikla drykkju sem varði svo allan sólarhringinn. Loks var henni sagt að hún myndi deyja ef hún breytti ekki lífsstílnum. Lifrin var í rúst.

Álagið var líka mikið á maka hennar til ellefu ára. Hann vissi að ef hann yfirgæfi hana myndu börnin þeirra tvö missa móður sína innan skamms því hún myndi þá algjörlega missa stjórn á neyslunni.

Heaton viðurkennir að hafa verið tilbúin að deyja þar sem hún sá enga leið út úr fíkninni. Vinir hennar og fjölskylda gripu í taumana og hvöttu hana til þess að leita sér hjálpar sem hún gerði.

„Ég er í dag þakklát fyrir að hafa verið edrú í átta mánuði. Ég hef þurft að læra að elska sjálfa mig upp á nýtt. Hugur minn og líkami eru uppfull af ást.“

Heaton hefur verið dugleg að birta myndir af sér á Instagram fyrir og eftir að hafa hætt að drekka og er munurinn sláandi.

mbl.is