Lífið er til þess að njóta og matur er stór partur af því

Júlíana Sara Gunnarsdóttir, leikkona og handritshöfundur, er tveggja barna móðir sem setur heilsuna í fyrirrúm til að fjárfesta í sér fyrir framtíðina. Hún trúir ekki á boð og bönn og segir heilsusamlegt að finna hinn gullna meðalveg. 

Hvernig hugarðu að heilsunni almennt?

„Ég hreyfi mig reglulega, stunda aðallega hlaup en vil samt segja að öllu má ofgera. Ég hef brennt mig á því. Hvað varðar mataræði, þá er það hin gamla góða regla: Allt er gott í hófi.“

Ertu búin að setja þér einhver heilsutengd markmið í upphafi ársins?

„Í rauninni að slaka aðeins meira á í hreyfingunni og hafa hreyfinguna fjölbreyttari. Ég hef hlaupið mikið síðustu ár en öllu má ofgera. Það er auðvelt að detta í vítahringinn að finnast maður þurfa að bæta hlaup gærdagsins, eins og að hlaupa á betri tíma eða hlaupa lengra en í gær, sem er ekki gott til lengri tíma litið. Þá brennur maður bara út.“

Hvernig mataræði ertu á?

„Ég er aldrei á neinu sérstöku mataræði sem inniheldur einhver boð og bönn, enda myndi maður aldrei halda neitt slíkt út og til hvers? Lífið er til þess að njóta og matur er stór partur af því. Ég borða allt en reyni að gera það í hófi.“

Gerir þú alltaf sömu æfingarnar eða breytirðu inn á milli?

„Ég dett svolítið í að gera sömu æfingar en ætla að passa mig þetta árið að hafa æfingarnar fjölbreyttari, svona til að halda þessu skemmtilegu.“

Hvað með fallegan æfingafatnað, skiptir hann máli?

„Það er náttúrulega skemmtilegra að vera skvís í ræktinni. Mér tekst það þó aldrei þar sem maður er hvort sem er að svitna og þá finnst mér ekki skipta máli hvort ég er í einhverjum tískufatnaði eða fimm ára gömlum æfingabuxum.“

Hver er sú allra mesta vitleysa sem þú hefur heyrt í sambandi við heilsuna?

„Mesta vitleysan er að vera með boð og bönn. Þetta er spurningin um að leyfa sér allt en í hófi.“

En það sniðugasta?

„Sniðugasta er að finna hreyfingu við sitt hæfi og hlusta á líkamann í mataræðinu, borða þegar maður er svangur og hætta þegar maður er saddur. Þetta ætti allavega að vera það einfalt.“

Hefurðu alltaf verið dugleg að æfa eða meira bara hin seinni ár?

„Ég var alltaf í frjálsum íþróttum og hef því verið að hreyfa mig allt mitt líf. Ég var mikið að lyfta þá en hef hlaupið styrkinn af mér síðustu árin og þess vegna er markmiðið að styrkja sig á þessu ári.“

Hvaða merkingu leggur þú í orðin góð heilsa?

„Góð heilsa er að vera góður við sjálfan sig, sem þýðir að hreyfa sig fyrir heilsuna en ekki neitt annað. Að borða reglulega hollan og næringarríkan mat, en að banna sér það ekki þegar maður vill fá sér eitthvert gotterí.“

Áttu gott ráð til að líta vel út, þó þú sért að vinna mikið?

„Aðalmálið er svefn og að næra sig rétt. Oft verð ég mun orkumeiri á að ná að taka smá hreyfingu, þá reyni ég að fara í hálftíma göngu ef mér finnst ég þurfa orku fyrir daginn. En það er líka bara allt í lagi að missa út nokkrar æfingar ef maður hefur ekki tíma.“

Áttu skemmtilega sögu af þér í ræktinni?

„Ég man á einni lyftingaæfingunni í frjálsum að þá var ég að taka framstig með lyftingastöng á öxlunum, með einhverri þyngd á. Ég var búin að taka nokkur framstig og átti að hvíla inn á milli setta svo ég ætlaði að snara lyftingastönginni yfir höfuðið og niður á gólf. Það var að sjálfsögðu ekki svo auðvelt og ég endaði kylliflöt á andlitinu með stöngina á bakinu og leit út eins og bótoxuð önd í tvær vikur á eftir.

Hvert er mottó þitt í lífinu?

„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þessi setning á alltaf við. Verum bara góð hvert við annað.“

Hvaða tónlist er best í ræktina?

„Ég held að ég sé ekki best til þess fallin að svara þessari spurningu þar sem ég hlusta á allt frá gospel-tónlist upp í „techno“ þegar ég æfi.“

Hvað er mikilvægast að hafa í huga þegar við æfum?

„Það er gott að minna sig á að æfingar eiga að vera skemmtilegar, því lífið er til þess að njóta og heilsan er nú stærsti parturinn af því að geta notið. Ef við ætlum alltaf að púla og þræla okkur út, til þess eins að við lítum út á ákveðinn hátt, þá erum við ekki að hreyfa okkur á réttum forsendum. Hreyfing er fyrir heilsuna, ekkert annað.“

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Núna er ég að skrifa fimmtu seríu af Venjulegu fólki, en sú fjórða verður sýnd í heild sinni á Símanum Premium 27. janúar. Ég er einnig að fara að frumsýna leikrit í Gaflaraleikhúsinu 15. janúar sem heitir Langelstur að eilífu. Verkið er byggt á bókunum hennar Bergrúnar Írisar. Það verður í leikstjórn Bjarkar Jakobsdóttur. Þetta verður mjög skemmtileg sýning með frábæru fólki og vil ég hvetja allar fjölskyldur til þess að koma á sýninguna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »