Var komin með sykursýki 2 og læknaði sig með mat

Erna Lóa Guðmundsdóttir er ánægð á ketó.
Erna Lóa Guðmundsdóttir er ánægð á ketó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir tveimur árum greindist Erna Lóa Guðmundsdóttir með sykursýki 2. Læknirinn hennar hvatti hana til þess að prófa ketómataræði í stað þess að fara á lyf strax. Erna Lóa sér ekki eftir því að hafa tekið áskoruninni og segist hafa læknað sig með mat. Hún er hætt á hjartalyfjum og stóri bónusinn er sá að hún er 40 kílóum léttari.  

„Mánuðina áður en ég fór á ketó var ég ekki í góðu ástandi. Ég var alltaf dauðuppgefin alveg sama hversu vel eða illa ég svaf. Ég ákvað að fara til læknis og biðja um blóðprufu til að athuga hvort einhver skýring gæti verið á þessari síþreytu enda var ég búin að greina mig með allt mögulegt á Doktor Google. Út úr blóðprufunni kom að ég væri komin með sykursýki 2,“ segir Erna Lóa um ástandið á sér áður en hún fór á ketó. 

Læknirinn hennar vildi þó ekki setja hana á lyf og mælti með því að hún prufaði ketó mataræðið fyrst. Erna Lóa kannaðist vel við mataræðið enda móðir hennar búin að dásama það í töluverðan tíma. „Þessi greining var vendipunktur í mínu lífi því maður hefur heyrt slæmar sögur af fólki sem tekur sykursýki 2 ekki alvarlega og hefur endað á að missa útlimi. Það vildi ég alls ekki og vissi að ef ég myndi ekki breyta um lífsstíl myndi ég stefna þangað. Þetta var um miðjan desember 2019 sem ég fæ greininguna og ég ákvað að gefa mér til 2. janúar til að undirbúa mig andlega og skipuleggja hvernig ég vildi fara að þessu. Það hefði líka verið alveg glatað að byrja á ketó korter í jól.“

Jólin 2019 leyfði Erna Lóa sér að syrgja uppáhalds óhollustuna sína. Hún undirbjó sig vel undir nýja árið, las innihaldslýsingar vel og segist hafa gert allskonar misgóðar tilraunir í eldhúsinu. „Þegar síðan loksins kom að því að byrja á ketó var ég tilbúin og spennt að takast á við þessa áskorun.“

Ekki megrun

„Ég var búin að prufa allskonar kúra áður. Flestir höfðu það sameiginlegt að þurfa að vigta eða skrá allt sem maður borðaði og telja ofan í sig. Hver máltíð var svo flókin að ég gat aldrei séð þetta fyrir mér sem framtíð, bara sem kúr enda gafst ég alltaf upp. Verstir þóttu mér kúrar þar sem maður átti að drekka einhvern ólystugan þeyting í stað máltíðar. Það er ekkert líf að mega ekki borða mat. Sumt sem að ég prufaði var ekki alslæmt og virkaði í einhvern tíma en hugurinn var bara ekki alveg með mér í liði þá,“ segir Erna Lóa. 

„Þegar ég byrjaði ákvað ég strax að þetta væri ekki megrun. Ég var að breyta um lífi mínu og hvernig ég borðaði til frambúðar. Ketó hentaði mér mjög vel því það er auðvelt að elda góða máltíð sem er ketó sem lætur manni ekki líða eins og maður sé í megrun. Ég hef ekki verið að mæla ketósu á nokkurn hátt. Mér finnst ekki hluti af venjulegu lífi að pissa á prik eða stinga sig eitthvað til að vita hvort maður sé í ketósu. Ég finn ef ég dett úr ketósu en er ekkert of upptekin af því. Ég tel heldur ekki hvert einasta kolvetni ofan í mig en er vakandi fyrir því ef ég borða eitthvað sem er í hærra lagi í kolvetnum yfir daginn. Þá kannski passa ég að hafa eitthvað kolvetnalágt um kvöldið eða passa mig betur daginn eftir. Ég vil að mataræðið sé þægilegt og fyrst og fremst venjulegt. Ekki eins og kúr.

Stærsta hugarfarsbreytingin hjá mér er sú að ég er ekki að banna mér neitt. Ég kýs hins vegar að borða ekki hvað sem er og vel hollari kosti. Ég hika ekki við að leiðrétta fólk þegar það spyr hvort að ég megi borða hitt og þetta. Ég má borða það sem ég vil enda fullorðin kona. Svo svindla ég ekki. Ég leyfi mér stundum að taka kolvetnakvöld við sérstök tilefni. Svindl er neikvætt og kallar á skömm og skömmin er svo hættuleg fyrir fólk eins og mig sem borðar yfir tilfinningar sínar. Eins þegar fólk talar um að ég þurfi stundum að gera vel við mig þegar kemur að einhverju gotteríi þá segi ég því bara að ég sé að því á hverjum degi. Geri vel við mig með því virða líkama minn og borða hollt,“ segir Erna Lóa. 

Erna Lóa ákvað að breyta lífi sínu til frambúðar.
Erna Lóa ákvað að breyta lífi sínu til frambúðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er léttari á sér andlega og líkamlega

„Stærsti árangurinn minn er heilsan mín. Blóðsykurinn minn mælist nú eðlilegur. Ég losnaði nýlega, í samráði við lækninn minn, af beta blocker hjartalyfi sem ég tók við of hröðum hjartslætti. Ég hef ekki fundið fyrir bakflæði síðan ég byrjaði en ég tók inn brjóstsviðatöflur daglega. Ég er alveg laus við bjúg og finn varla fyrir astma eða mígreni lengur. Svo er ég búin að missa 40 kíló sem er þvílíkur munur því ég er svo miklu léttari á mér og með svo miklu betra þol,“ segir Erna Lóa. 

„Ég vil halda mig við ketó töluvert lengur. Ég er ekki alveg búin að ná þeim markmiðum sem mig langar að ná. Þegar það gerist hugsa ég að ég muni forðast flest kolvetni áfram en kannski bæta við ávöxtum og rótargrænmeti. Ég vil aldrei fara aftur í þann lífstíl sem ég var í áður. Ég var fíkill á sælgæti og allt sætt. Hafði engar hömlur þegar kom að því. Ketó mataræðið getur verið dýrt en ég eyddi svo miklu í nammi áður að það kom út á eitt í kostnaði. Það var ekkert dýrara fyrir mig.“

Hvernig var að geta hætt að taka lyf bara með því að breyta um lífsstíl?

„Það er ótrúlega góð tilfinning að hætta að taka lyf því það þýðir að ég er heilbrigðari. Ég læknaði mig með mat. Ég gerði það að sjálfsögðu með samráði við lækninn minn. Myndi aldrei gera það öðruvísi. Ég er enn að taka blóðþrýstingslyf og hlakka til þegar ég vonandi losna við þau.“

Erna Lóa er ekki hrædd við að vera með séróskir …
Erna Lóa er ekki hrædd við að vera með séróskir á veitingastöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erna Lóa segir að það hafi ekki alltaf verið auðvelt að vera á ketó en það hafi heldur ekki verið allt of erfitt. Hún þakkar móður sinni, sjálfmenntaða ketó sérfræðingnum fyrir stuðninginn.

„Ég gat alltaf leitað til hennar ef mig vantaði að vita eitthvað eða fá hugmyndir að uppskriftum. Svo var líka ein að vinna með mér sem var á ketó líka. Það var svo þægilegt því að þá var ég ekki sú eina sem var að taka nesti eða að spyrja um innihald í matnum sem var í boði. Við vorum stuðningur fyrir hvora aðra. Ég var viðkvæmust fyrir því þegar kom að því að fara út að borða. Miklaði það fyrir mér að vera með sérþarfir. Það reyndi samt ekki mikið á það út af ónefndum vírus. Núna finnst mér ekkert mál að fara út að borða. Kann betur á mataræðið og finnst ekkert mál að vera með sérþarfir. Ég má taka pláss.“

Líf Ernu Lóu er allt annað í dag enda líður henni mun betur, bæði líkamlega og andlega. „Það var svo íþyngjandi hversu illa mér leið áður og hafði áhrif á andlega heilsu. Slæm andleg heilsa fyrir manneskju sem borðar tilfinningar sínar er ávísun á vítahring. Það munar svo miklu að vera ekki alltaf þreytt eða móð. Ég er ekki með verki í fótum út af bjúg. Ég vakna ekki upp á nóttunni með munninn fullan af magasýrum og finn fyrir höndunum á morgnana. Ég get varla lýst því hversu miklu léttari ég er á mér núna, bæði andlega og líkamlega. Þetta er allt annað líf,“ segir Erna Lóa. 

„Ég horfi björtum augum á framtíðina og hlakka til að halda áfram á ketó. Mig langar að léttast aðeins meira og ná enn betri heilsu,“ segir Erna Lóa að lokum sem langar einnig til að koma blóðþrýstingnum í lag. Hreyfa sig meira, styrkja og bæta þolið enn frekar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál