„Það sér enginn eftir því að hafa ekki unnið meira“

Líney Úlfarsdóttir.
Líney Úlfarsdóttir.

Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur er með meiri hæfni en margir aðrir til að skoða undir yfirborðið þegar upp kemur samskiptavandi hjá eldra fólki. Hún segir oft og tíðum flókið að setja sig í spor þeirra sem hafa upplifað stór áföll í lífinu en blessunarlega séu nú til verkfæri til að vinna úr flestu. 

Líney Úlfarsdóttir, klínískur sálfræðingur, sérhæfir sig í öldrunarsálfræði og starfar sem slíkur sérfræðingur fyrir Reykjavíkurborg og Samskiptastöðinni. Líney hefur frá því hún man eftir sér haft áhuga á fólki. Góð samskipti verða mikilvægari með árunum að hennar mati og fólk virðist fá meiri þörf fyrir sína nánustu þegar árin færast yfir.

„Ég hef líklega alltaf verið svolítill sálfræðingur í mér. Frá því ég var lítil hafði ég mikinn á huga á því af hverju fólk hagar sér eins og það hagar sér. Ég hef örugglega verið gömul sál, því ég var mjög róleg og man að vinirnir leituðu mikið til mín með málin sín. Ég hef því oft sagt í gamni mínu að það er eins gott að ég lærði fagið, svo nú get ég sent út reikninga fyrir eitthvað sem hefur átt hug minn frá fyrstu tíð,“ segir hún.

Líney lærði klíníska sálfræði í Háskólanum í Árósum og starfaði með náminu á öldrunargeðdeildinni á háskólasjúkrahúsinu.

„Mig langaði alltaf að læra taugasálfræði en svo voru námskeið í boði í Árósum, tengt öldrun sem ég sótti og áður en ég vissi af var þetta orðið mitt sérsvið.“

Kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn

Hún segir að það skipti miklu máli að huga að andlegri líðan ekki síður en þeirri líkamlegu.

„Mörg okkar ganga á fjöll eða fara í ræktina til að losa um kvíða og fá vellíðan í okkur. Þegar líkamleg færni skerðist með árunum, þá þurfum við að finna nýjar leiðir til að láta okkur líða vel.“

Hún segir að það sé ekki hægt að laga allt með réttum svefni.

„Það er rosalega persónubundið og skiptir máli að hver sinni sínum hugðarefnum. Að mínu mati ætti fólk að rækta það sem gefur því næringu. Maður sefur ekki andlega þreytu úr sér, heldur þarf maður að sækja orku þaðan sem maður fær hana frá. Það getur verið með því að umgangast annað fólk, hlusta á tónlist eða með því að ástunda frístundir.

Kórónuveiran hefur gert eldra fólki sérstaklega erfitt fyrir, því nú fer fólk ekki reglulega í leikhús, á tónleika og sækir síður félagsstarf en áður.

Ég mæli með því fyrir alla að nýta sér þær leiðir sem í boði eru núna. Stundum geta einfaldir hlutir eins og að sitja ekki alltaf í sama stólnum inni í stofunni eða í vinnunni haft áhrif svo ekki sé talað um mikilvægi þess að vera reglulega að tileinka sér eitthvað nýtt. Það þarf ekki að vera stórt í sniðum eða flókið.“

Samskipti geta verið jákvæð og neikvæð

Samskipti eru lykilatriði í lífinu að mati Líneyjar sem segir að þegar samskipti gangi illa, sé það oft uppspretta streitu.

„Eins getur það gefið okkur mikla orku þegar samskiptin ganga vel. Það sem dró mig í átt að þessari hlið sálfræðinnar var grunnurinn minn og þá sér í lagi þegar ég fór að sjá hversu mikilvæg samskipti verða fyrir okkur með árunum.“

Hún segir að ef fólk kemst að kjarnanum þegar kemur að samskiptum, sé hægt að leysa nánast hvað sem er.

„Ég er ekki að segja að það taki stuttan tíma, því stundum getur mikill vani búið að baki því hvernig við bregðumst við í samskiptum við aðra. En það er von fyrir alla sem þora að kafa aðeins undir yfirborðið og að tileinka sér nýja hluti þegar kemur að samtali við annað fólk.“

Hvernig er aðkoma þín að samskiptum fyrir Reykjavíkurborg?

„Í gegnum störf mín í heimahjúkrun og fyrir heimaþjónustuna hef ég farið ofan í saumana á þessum málum. Ég er meðvituð um að þeir sem eru vanmáttugir þegar kemur að samskiptum við starfsfólk okkar, þeir hafa vanalega góðar ástæður fyrir því.“

Líney segir að það skipti máli að fólk horfist í augu við gömul og flókin mál sem fólk er oft að burðast með.

„Ég trúi því að þeir einstaklingar sem eiga í góðum samskiptum við sína nánustu, þeir öðlist færni og öryggi til að eiga í góðum samskiptum við okkur sem þjónustum þá. Þegar kemur að okkar veikustu hópum, þá eru oft að dúkka upp gömul flókin mál sem fólk hefur ekki fengið tækifæri til að vinna úr. Það er eins og þessi mál fái oft meira vægi með árunum, og þótt við breytumst kannski ekki svo mikið frá því að vera 24 ára þar til við verðum 94 ára, þá breytist ýmislegt í kringum okkur, þá í umhverfinu. Það hægir á öllu og við fáum meiri tíma til að hugsa málin.

Rannsóknir styðja að með aldrinum þráum við nánari tengsl við færri einstaklinga, á meðan við getum haft þörf fyrir að hitta sem flesta þegar við erum yngri. Ef þessi djúpu nánu tengsl skortir finnur fólk átakanlega mikið fyrir því. Ef þú átt erfitt með að treysta öðrum getur verið erfitt að fá ókunnuga þjónustuaðila inn á heimilið þitt. Það getur verið mjög erfitt að sitja einn með óþægilegar tilfinningar og vita ekki hvernig er best að vinna úr þeim.“

Það er hægt að læra nýja hluti á öllum aldri

Hvers konar mál eru að koma upp hjá fólkinu sem þú vinnur með?

„Saga þeirra sem eru fæddir fyrir miðja síðustu öld er margslungin. Það geta fáir sett sig í spor þeirra sem hafa gengið í gegnum það að missa barn og fá kannski þau ráð að fara út að ganga til að ná sér upp úr því.

Eins upplifðu margir það að missa börnin sín frá sér en rannsóknir á tengslum voru ekki til staðar á þessum tíma og því voru börn oft tekin af foreldrum sínum og sett í fóstur. Að missa frá sér barn á þann hátt er einstaklega sársaukafullt, ekki síst þegar almenn þekking á tengslum er önnur og nú þykir ekkert sjálfsagðara en að styðja við foreldra að vera með börnin sín ef mögulegt er. Eins er erfitt að setja sig í spor þeirra sem voru teknir af foreldrum sínum sem börn og þvælt á milli staða, hvernig er að fara út í lífið með þannig tengslarof. Það er alltaf hægt að vinna með slíkt, þó að það taki tíma.

Besta meðalið inn í þannig aðstæður að mínu mati er alltaf að vera sá sem færir hlýju og frið til fólks sem finnur fyrir vanmætti á tilfinningasviði sínu.“

Það er oft talað um að þegar heilinn eldist þá eigi hann erfiðara með að læra. Það er ekki raunveruleikinn að mati Líneyjar.

„Það tekur kannski lengri tíma að tileinka sér nýja hluti, en við getum lært nýja hluti þótt við séum orðin fullorðin.“

Mikilvægt að þykja vænt um okkur sjálf

Hvaða ráð áttu fyrir fólk á miðjum aldri til að vera sem best til staðar fyrir foreldra sína í lífinu?

„Bara að þau muni að foreldrar þeirra eru ekkert öðruvísi en við. Auðvitað geta sjúkdómar haft áhrif á okkur, en ég tala oft um þetta þegar ég er að kenna í háskólanum, að ef þú hefur áhuga á fallegum skóm þá er alltaf til einhver á sínum efri árum með sama smekk á skóm og þú.

Svo er einnig gott að hafa í huga að við getum orðið viðkvæmari fyrir öllu því sem gerist í lífinu, með aldrinum. Það gerist ekki á ákveðnum aldri, heldur er eins konar ferli sem verður til með árunum.

Ég finn að eldra fólk er aðeins hræddara um fólkið sitt en þeir sem yngri eru. Eins er gott að hafa í huga að ef komin er hugræn breyting hjá foreldrum okkar ættum við ekki að reyna að leiðrétta þá. Reynum frekar að tengja í það sem er heilt í huga fólks en að vera að setja athyglina á það sem er að fjara út eða minnka.“

Hvað hefur starfið þitt kennt þér um lífið?

„Það hefur kennt mér að vera þakklátari fyrir lífið utan vinnunnar. Ég hef aldrei hitt manneskju sem komin er á sín efri ár sem vildi óska þess að hún hafi unnið meira. Allir þeir sem ég hitti, tala um að það sem skiptir mestu máli er að rækta vinina, börnin og fjölskylduna. Það getur eins verið fjárfesting til framtíðar að rækta andlega og líkamlega heilsu á öllum aldursskeiðum. Að við gefum okkur tíma til að vera, í stað þess að gera, og að þykja vænt um okkur sjálf. Það er eitthvað sem vinnan hefur kennt mér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »