Á síðasta snúningi þegar hún uppgötvaði Pilates

Guðrún Svava Kristinsdóttir er Pilateskennari.
Guðrún Svava Kristinsdóttir er Pilateskennari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Svava Kristinsdóttir er með marga hatta en auk þess að vera með tvær meistaragráður í upplýsingaverkfræði frá Cornell-háskóla er hún Pilates- og jógakennari og dansari. Guðrúnu Svövu finnst skemmtilegt að hjálpa fólki sem glímir við meiðsli með aðferðum Pilates en hreyfingin hjálpaði henni mikið fyrir nokkrum árum. 

„Ég hafði alltaf mun meiri áhuga á dansinum og hreyfingu eins og jóga sem er með meiri andlegan og kannski æðri tilgang heldur en bara hreyfa sig. En ég leiddist út í Pilates eftir þrálát meiðsli sem ég hafði reynt að vinna bug á lengi. Ég var eiginlega á síðasta snúningi og var orðin mjög þreytt andlega á að líkaminn væri alltaf að gefa sig þannig ég tók ráðum vinkonu minnar og keypti mér byrjunarpakka í einkatíma í Pilates. Strax eftir fyrsta tímann fann ég mun og í lok tímanna þriggja var ég orðin næstum góð og hafði tækin og tólin til að halda áfram eigin uppbyggingu! Sá kennari hvatti mig til að taka full réttindi sjálf og gerði ég það að lokum,“ segir hún. 

Færir New York heim

Guðrún Svava tók kennararéttindi frá Pilatesskólanum Kane School í New York og heldur hún nú utan um Pilateskennaranám í samstarfi við sama skóla á Íslandi. 

„Pilateskennaranámið er haldið yfir nokkrar helgar og er samblanda af fyrirlestrum, hreyfingu, æfingakennslu, endurgjöf og samræðum. Námið hentar öllum með áhuga á líkamanum og heilbrigðri hreyfingu, en ekki er nauðsynlegt að stefna á kennslu því að námskeiðið er frábær leið til að læra að þekkja líkama sinn. Pilates er styrkjandi kerfi bæði andlega og líkamlega og er frábært fyrir alla aldurshópa. Námið hentar öllum sem vilja fræðast meira og bæta við sig þekkingu á líkamsstöðu, styrktaræfingum og líffærafræði á lifandi og skemmtilegan hátt,“ segir Guðrún Svava en námið á Íslandi hefst 23. apríl. 

Nemendur fá full réttindi sem Pilateskennarar standist þeir kröfur námsins. „Námið er ítarlegt og sameinar hefðbundnar platesstyrktaræfingar út frá nútímalegu klínísku sjónarhorni á mannslíkamann. Námið býður upp á mjög vandað kennsluefni þannig að nemendur munu öðlast djúpa þekkingu á líkamanum sem þeir geta svo miðlað til annarra. Námið er viðurkennt af PMA (Pilates Method Alliance) og NASM (National Academy of Sports Medicine) í Bandaríkjunum. Þetta eru ein bestu réttindi sem hægt er að fá vilji maður öðlast grunnskilning á góðri líkamsbeitingu og leiðbeiningar sem einnig er hægt að byggja á, í annars konar hreyfingu eins og lyftingum, íþróttum eða yoga og dansi.“

Guðrún Svava lærði pilates í New York og deilir nú …
Guðrún Svava lærði pilates í New York og deilir nú þekkingu sinni á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gott form er ekki sama og gott form

Þarf maður að vera í rosalega góðu formi til þess að verða Pilateskennari?

„Nei alls ekki! Eða jú? Málið er, að í Pilates er „gott form“ bókstaflega það að hafa góða hreyfigetu og góða líkamsstöðu, það snýst ekki um það sem í hefðbundnum líkamsræktarheimi er kallað gott form - það er sjáanleg vöðvabygging á ákveðnum stöðum, eða ofuráhersla á mótun ákveðinna líkamshluta yfir aðra eða óhófleg fituminnkun.

Gott form fyrir mér er hversu vel líkaminn nær að hreyfa eða kyrra/gefa stöðugleika ákveðin liðamót og í framhaldi gæði hreyfingarinnar. Það snýst um að geta beitt djúpum stöðuleikavöðvum (e. Local stabilizers) í kringum liðamót til að gefa stöðugleika áður en stóru hreyfivöðvunum (e. Global movers) er beitt, það snýst um að líða vel og geta viðhaldið mjúkri og yfirvegaðri hreyfingu og vera í heilbrigðum og hamingjusömum líkama út lífið. Þetta snýst eiginlega um að vera ekki að flækja hlutina of mikið fyrir líkamanum og greiða úr óæskilegu vöðvamynstri til að gera líkamanum kleift að beita sér eðlilega og sem best.“

Guðrún Svava hóf ferilinn sem dansari.
Guðrún Svava hóf ferilinn sem dansari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þú kennir líka jóga sem margir þekkja, hvernig er Pilates öðruvísi?

„Munurinn er kannski helst sá að jóga byggir á mörg þúsund ára gamalli heimspeki og menningararfi frá Indlandsskaga en Pilates er æfingakerfi sem þróað er af líkamsræktarfrömuði á 20. öld að nafni Joseph Pilates. En það sem er sameiginlegt með þessu tvennu er að hluti af jóga snýst um öndun og hreyfingu líkamans til að breyta og hreyfa við orku og það gerir Pilates líka. Einnig eru þetta svokölluð „low impact“ æfingakerfi sem mikið er hampað fyrir að vera góð fyrir líkamann út lífið fyrir unga sem aldna í hvaða líkamlega ásigkomulagi sem er.“

Í hlutverki rannsóknarlögreglu

Þú ert verkfræðingur, af hverju brennur þú fyrir að kenna jóga og Pilates og dreifa þessum boðskap?

„Það er bara einfaldlega svo gaman! Það er sérstaklega gaman að geta aðstoðað fólk sem var kannski í svipaðri stöðu og ég, með einhvers konar þrálát meiðsli eða verki og komast mögulega að lausninni. Launin er oft einfaldari en maður heldur og getur leynst í því að ákveðnir líkamshlutar taka við óhóflegri hreyfingu vegna of lítillar hreyfingar einhvers staðar og öfugt. Leitin að vandanum er ákveðin rannsóknarlögregluvinna sem mér finnst mjög skemmtileg. Ég er oft þá í samstarfi eða samskiptum við lækni eða sjúkraþjálfara manneskjunnar og virka þá oft sem ákveðin brú á milli endurhæfingar og fulls bata.“

Guðrún Svava segir Pilatesæfingar vera góðar fyrir unga sem aldna.
Guðrún Svava segir Pilatesæfingar vera góðar fyrir unga sem aldna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Svava er oft spurð hvort að Pilates, jóga og dans eigi eitthvað sameiginlegt með verkfræði. Hún segist eiginlega ekki vita hvernig hún eigi að svara þessari spurningu.

„En varðandi Pilates þá er það ákveðinn agi sem maður þarf að hafa til að gera hreyfinguna rétt frá grunni svo maður geti byggt ofan á hana, og verkfræði þá er það ótrúlega flóknir og næstum óhugsandi hlutir sem geta gerst þegar grundvallaratriðum í stærðfræði og eðlisfræði er beitti eins og til dæmis tungllending. 

En annars snýst verkfræði mikið um að finna hugvitsamlegar lausnir á vandamálum og spyrja spurninga út fyrir kassann og það er það sem ég elska við Pilates og hreyfingu að nota æfingakerfið til að styðja við og umbreyta lífi fólks með eins litlu atriði og breytingu á líkamsstöðu.“

Guðrún Svava stundar ekki bara pilates heldur líka jóga og …
Guðrún Svava stundar ekki bara pilates heldur líka jóga og hugleiðslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ertu með fleiri klukkutíma í sólarhringnum en aðrir? 

„Ég er ekki með fleiri klukkutíma en ég vildi óska þess! Ég er alls ekki ofvirk, ég er mjög mikið í kósýheit og afslöppun og skipulag er eitthvað sem ég er alltaf að vinna í að vera betri í. Ég held bara að mér finnist svo rosalega gaman að kenna og miðla á formi hreyfingar að ég geti einfaldlega ekki sleppt því sem hluta af lífi mínu. Mér finnst líka mjög gaman að heyra frá nemendum mínum að eitthvað hafi hjálpað þeim eða þeir hafi náð að komast í gegnum einhverja hluti í eigin lífi með þekkingu sem þau hafa lært í tíma hjá mér.“

Æfir ekki þegar hún kennir

Hvað gerir þú til þess að nústilla þig og halda þér í formi? 

„Ég geri nær aldrei æfingar sjálf í tímum þegar ég kenni, nema ef þess er sérstaklega þörf - þannig ég fæ mína æfingu ekki í eigin kennslutímum. Ég legg mikið upp úr því að leiðbeina með orðum og snertingu eða annars konar leiðbeiningum. Ef nemendur eru að horfa á kennarann meðan á æfingum stendur getur það leitt til rofs á tengingu þeirra við sinn eigin líkama og uppbyggingu innsæis þeirra í hreyfingu. Enn fremur getur komið spenna í háls og axlir ef fólk er að reigja og sveigja hálsinn til að fylgja kennara á meðan fólk framkvæmir flóknar hreyfingar.

Ég held mér sjálf í formi með gönguferðum og tíma í náttúrunni, svo stunda ég mikið jóga og hugleiðslu og Pilatesæfingar eru oft í eigin upphitun eða þegar mér finnst ég þurfa aðeins meiri styrk og stöðugleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál