Svona heldur Anna Sigríður upp á páskana

Anna Sigríður Ólafsdóttir næringafræðingur.
Anna Sigríður Ólafsdóttir næringafræðingur.

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands og stjórnandi þáttanna Nærumst og njótum, leggur mikið upp úr fallegu skrauti, útiveru og góðum mat um páskana. Hún deilir sínum páskahugmyndum í páskablaði Nettó. 

„Ég bjó í Svíþjóð sem barn og mér finnst páskaskrautið sem fylgdi æskunni algjörlega nauðsynlegt. Skreyttar trjágreinar með eggjum og fjöðrum og páskaliljur skipta mig meira máli en súkkulaðið,“ segir Anna Sigríður. „Það er samt ekki þannig að ég fúlsi við súkkulaði – mér finnst það gott í hófi – en ég kýs frekar góðan konfektmola en páskaeggin. En lítið egg til að fá málshátt gleður samt alltaf! Svo er góður páskadögurður, eða -bröns, uppáhalds máltíðin mín um páska – og hænueggin eru þá alltaf hluti af því sem er borið á borð ásamt góðu úrvali af ferskum ávöxtum.“

Anna Sigríður nýtir páskafríið gjarnan til að stunda útivist í góðum félagsskap og helst fer hún á skíði.

„Það er kostur hvað páskafríið er langt, auk þess sem árstíminn, með hækkandi sól, fuglasöng og gróðri sem er að vakna til lífsins, gefur mér aukna orku. Ég nýti því tækifærið til að vera dugleg að stunda útiveru og hreyfa mig og fer gjarnan á einhvers konar skíði – svig, fjalla eða göngu – í góðum félagsskap vina og fjölskyldu.“

Hvernig er best að njóta páskanna?

„Matur er í mínum huga órjúfanlegur hluti af hefðum okkar og menningu og ég ver sjálf talsverðum tíma í matargerð yfir páskana,“ segir Anna Sigríður. Hún nýtur þess að dunda sér í eldhúsinu í rólegheitum og finnst skemmtilegast að gera tilraunir með grænmeti af ýmsu tagi.

„Einhvern tímann hef ég verið kölluð meðlætisæta – en í dag myndu líklega fleiri kalla það vistkerafæði. Það er okkur öllum hollt, bæði heilsunnar vegna og fyrir plánetuna að auka hlut jurtafæðis á kostnað dýraafurða, að borða meira og fjölbreyttara meðlæti – líka sem aðalrétt!“

Páskasteikin á þó sinn sjálfsagða sess á veisluborðinu.

„Steikin má alveg vera á sínum stað en það er fínt að huga að hlutföllunum á disknum og fækka kjötmáltíðunum svona almennt,“ segir Anna Sigríður. „Það skiptir þó ekki síður máli að huga að matarumhverfinu og því hvernig, hvar og hvers vegna við nærumst.“ Hún er ekki hlynnt boðum og bönnum. „Það er svo mikilvægt að finna ánægjuna af því að borða, njóta félagsskapar og umfram allt gefa sér tíma til að nærast og njóta. Það eru ágætis gildi óháð því hvort við erum að keppast við að halda okkur gangandi í hversdagsleikanum eða erum að skipuleggja frídagana okkar.“

Í því samhengi bendir Anna Sigríður á sjónvarpsþættina Nærumst og njótum sem hún hafði umsjón með og skrifaði handritið fyrir. Þeir voru framleiddir af Sagafilm fyrir RÚV í vetur og verða aðgengilegir í Sarpinum fram á sumar.

„Þar má finna ýmsar einfaldar lausnir við vandamálum sem vilja fylgja matarlífi margra, jafnt einstaklingra sem samsettra stórfjölskyldna.“

Tilraunaeldhúsið

Anna Sigríður er lítið fyrir að fylgja uppskriftum.

„Dass eða dreitill, hnefi og þumall eru algengari mælieiningar en grömm og desilítrar í mínum orðaforða. Ég vann samt á rannsóknarstofu á námsárunum og þurfti þá jafnvel að mæla upp á míkrógramm – en sem betur fer gildir slík nákvæmni ekki um mat.“

Anna Sigríður hélt fermingarveislu fyrir fimmtíu manns skömmu fyrir páska.

„Það var indverskt þema að ósk fermingarbarnsins og þá las ég líklega tugi uppskrifta að hinum og þessum réttum og endaði svo á því að búa til mína eigin útgáfu af tikka masala út frá því sem mér fannst hljóma vel. Það heppnaðist frábærlega, en vandinn er að ég get líklega aldrei hent í sama réttinn aftur!“ 

Það er mikilvægt að prófa sig áfram, nýta hráefnin sem eru til og geta beitt hugmyndafluginu ásamt skynfærunum til að búa til það sem fellur að eigin smekk, útskýrir Anna Sigríður. „Að horfa, þefa, þreifa, hlusta og smakka – eins og við gerum í bragðlaukaþjálfun sem er eitt af þeim rannsóknaverkefnum sem ég hef verið að vinna að með mínu frábæra samstarfsfólki – til að draga úr matvendni og auka ánægjuna af því að borða alls konar mat. Slíkt kemur um leið í veg fyrir matarsóun.“

Uppskrift að ætu páskaföndri

Anna Sigríður vill leggja meiri áherslu á að kenna færni tengda fæðuvali, hráefnisþekkingu og vinna með sjálfstraust og sjálfstæði þegar kemur að matargerð. „Hluti af því er að leyfa börnunum að leika sér með matinn og gefa þeim tækifæri til að takast á við matarundirbúninginn án of mikilla afskipta en þó með stuðningi. Slíkt bætir fæðuvalið og gerir matarlífið ánægjulegra.“

Uppskrift Önnu Sigríðar er því páskaföndur með krökkunum í eldhúsinu. „Ein slík hugmynd er að fara saman og velja fjölbreyttar tegundir af fallegum ávöxtum, gjarnan einhverjar tegundir sem þið hafið ekki smakkað áður. Hugið að litavalinu og, þegar heim er komið, farið í gegnum formin, áferðina og bragðið. Skerið í mismunandi form og raðið eftir litum, annað hvort í fallegt mynstur á disk, búið til ávaxtaspjót eða jafnvel ávaxtasalat.“

Það er í uppáhaldi hjá Önnu Sigríði að skera innan úr stórri melónu.

„Hana má nota eins og páskaegg sem er fyllt með fallegum ávaxtabitum í stað sælgætis – listugt, næringarríkt og fallegt í senn. Prófið ykkur áfram og eigið skemmtilega samverustund þar sem þið undirbúið eitthvað gott.“ Það er jafnvel hægt að búa til smá samkeppni úr þessu: „Hver í fjölskyldunni er með frumlegustu eða bestu útgáfuna?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál