„Ég vil að konur viti af hættunni“

Jónbjörg S. Hannesard. Guðrúnardóttir lét fjarlægja brjóstapúða fyrir nokkrum vikum.
Jónbjörg S. Hannesard. Guðrúnardóttir lét fjarlægja brjóstapúða fyrir nokkrum vikum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jónbjörg S. Hannesardóttir Guðrúnardóttir fékk sér sílikonpúða í brjóstin fyrir sjö árum. Í kjölfarið fór heilsa hennar að versna til muna og lét Jónbjörg loks fjarlægja púðana í byrjun apríl. Jónbjörg fann strax mun eftir aðgerðina og er hætt að taka inn gigtarlyf. Heilsa Jónbjargar var orðin það slæm að hún flutti af þriðju hæð niður á jarðhæð. 

„Í mars 2015 fór ég og fékk brjóstapúða frá Mentor. Þessir sem ég fékk voru með hrjúfri skel á yfirborðinu. Þeir eru taldir vera jafnslæmir og þeir sem búið er að innkalla. Ég bíð eiginlega eftir því að þeir verði innkallaðir líka,“ segir Jónbjörg og vísar til púða sem voru innkallaðir fyrir nokkrum árum. Púðarnir voru svipaðir og þeir sem Jónbjörg var með. 

Jónbjörg tók ákvörðun um að fá sér sílikonpúða eftir að hún var búin að eignast þrjú börn. Líkaminn hafði tekið miklum breytingum og hún var óörugg með sjálfa sig.

„Ég mjólkaði rosalega mikið eftir að þau fæddust og ég slitnaði alveg svakalega á brjóstunum. Ég var alveg með tóma lafandi tepoka, niður á nafla nánast. Ég lendi í skilnaði 2013 og mér leið mjög illa með sjálfa mig. Ég fór í sílikon af því að ég mér fannst brjóstin á mér ekki nógu góð og ekki öðrum bjóðandi,“ segir Jónbjörg. 

Hún segir að skaðlegar staðalímyndir í samfélaginu hafi haft áhrif á hana. Í dag er henni sama um útlitið og segir að mikil vitundarvakning um líkamsvirðingu hafi átt sér stað á undanförnum árum. Slík umræða hafi ekki verið komin langt á veg árið 2015.  

Fann fljótt fyrir versnandi heilsu

Jónbjörg hafði glímt við vefjagigt í nokkur ár áður en hún fékk sér brjóstapúðana en segir að einkennin hafi versnað til muna um fjórum mánuðum eftir aðgerðina.

„Ég fékk verki í bakið, á milli herðablaðanna, bólgu og stingverki sem voru bara komnir til að vera. Ég vaknaði einn morguninn með sjúklegan verk á milli herðablaðanna, meira við hægra herðablaðið. Svo fóru einkennin að ágerast, vefjagigtareinkennin urðu verri og verri. Ég varð þreyttari og þreyttari. Ég náði mér aldrei á strik, leið aldrei betur. Ég var mjög virk manneskja. Gerði helling með börnunum mínum, svo tapaði ég heilsunni jafnt og þétt eftir aðgerðina. Átti ekki einn góðan dag.“

Það sem Jónbjörg glímdi við er kallað Breast Implant Illness á ensku og er helst lýst sem veikindum vegna brjóstapúða. Hún segist oft hafa farið til heimilislæknis vegna versnandi heilsu, fór til gigtarlæknis og í endurhæfingu. Enginn benti henni á að ástæðu versnandi heilsu gæti verið að leita í brjóstapúðunum. „Þú ert bara með vefjagigt“ eða „við vitum ekkert hvað er að þér“ voru svör sem hún fékk gjarnan.  

„Svo fékk ég bólgur í fótinn, fór versnandi í hægri fæti alveg frá ökkla niður í tær. Það vissi enginn hvað þetta var. Blóðprufur sýndu ekkert, bara að það væru einhverjar bólgur. Ég var hrædd um að ég væri að fá alvarlega gigt sem ekki væri hægt að greina,“ segir Jónbjörg og bendir á að bólgur séu gigtareinkenni. Hún neyddist meðal annars til að flytja af þriðju hæð á jarðhæð þar sem hún gat ekki lengur gengið upp og niður stiga með góðu móti.

Eftir að Jónbjörg eignaðist fjórða barnið í október 2019, með núverandi manni sínum, hrakaði henni enn meira. „Eftir að ég átti hana var ég nánast rúmliggjandi.“

Heilsa Jónbjargar hefur skánað mikið eftir að hún lét fjarlægja …
Heilsa Jónbjargar hefur skánað mikið eftir að hún lét fjarlægja púðana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fann strax mun á orkunni

Það var fyrir fjórum árum sem Jónbjörg fór fyrst að leggja saman tvo og tvo. Hún áttaði sig á því að púðarnir væru aðskotahlutir í líkamanum og þeir gætu verið að hafa slæm áhrif á heilsu hennar. Hún tók þó ekki ákvörðun fyrr en í október á síðasta ári um að fjarlægja púðana.

„Það tekur tíma fyrir mann að sættast við þá tilhugsun að maður hafi gert sjálfum sér svona mikinn óleik með því að fá sér púða. Ég var í pínu afneitun. Ég vildi ekki missa púðana, vildi ekki missa brjóstin. En svo kom bara tímapunktur í október á síðasta ári þar sem ég fékk nóg. Ég gat ekki meira af þessu heilsuleysi, ég var svo búin á því.“

Þegar blaðamaður talaði við Jónbjörgu, um þremur vikum eftir aðgerð, hafði hún ekki enn upplifað að vera búin á því eftir daginn. Fyrir aðgerðina fann hún daglega fyrir því að vera uppgefin. 

„Ég fann strax mun á orkunni. Hún var miklu jafnari yfir daginn. Ég var þannig að ég gekk á orkudrykkjum. Ég gat varla hreyft mig, farið út í búð eða gert nokkurn skapaðan hlut án þess að drekka orkudrykki eða þamba kaffi,“ segir Jónbjörg. 

„Ég finn alveg fyrr vefjagigtareinkennunum ennþá en munurinn er svo mikill. Allar bólgur eru farnar úr fótunum. Ég hef ekki fundið fyrir þeim í þrjár vikur. Ég stíg bara fram úr rúminu og haltra ekki neitt. Þetta er bara lygilegt.“

Líkaminn sendi Jónbjörgu ýmis skilaboð um óþolið fyrir púðunum. Fyrir um fjórum árum hætti hún að þola epli og vínber. „Ég fékk mikla verki í bringubein og milli herðablaðanna þegar ég borðaði þessa ávexti, þetta var einhvers konar óþol. Í dag get ég borðað epli og vínber án vandkvæða og það gerðist eftir að púðarnir fóru. Ég prófaði reglulega að fá mér en fékk alltaf verki. Ég get ekki talið eplin eða magnið af vínberjum sem ég hef innbyrt eftir að púðarnir fóru.“

Fékk bara uppáskrifuð lyf

Jónbjörg segir að lækna hafi ekki skort viljann til að gefa henni lyf. „Það eru bara uppáskrifuð lyf, meiri verkjalyf, bólgueyðandi. Ég hef ekki þurft að taka inn gigtarlyf, bólgueyðandi eða verkjalyf til þess að sofa síðan ég kom úr aðgerðinni, ef frá er talið vegna verkja í brjóstum rétt eftir aðgerðina.“

Jónbjörg segir að ónæmiskerfið hennar hafi verið að berjast við aðskotahlutina, brjóstapúðana, í líkama hennar. Nú, þegar búið er að fjarlægja þá, fær líkaminn loks ráðrúm til að vinna í því sem hefur setið á hakanum. 

Hún segir mismunandi hversu opnir lýtalæknar séu fyrir því að viðurkenna að brjóstapúðar geti haft skaðleg áhrif á heilsu fólks. Jónbjörg ákvað að fara til Kristjáns Skúla Ásgeirssonar, sem er sérhæfður brjóstaskurðlæknir, en hún hafði heyrt góðar sögur um hann.

„Viðmótið hjá honum var mjög gott. Hann neitaði engu, þetta væri ekki bara ég að ímynda mér hluti eða eitthvað slíkt, eins og maður hefur heyrt að læknar segi. Það eina sem hann sagði, var að hann gæti ekki lofað mér betri heilsu, en benti mér á að margar konur fyndu fyrir betri heilsu eftir að púðarnir færu. Þannig viðurkenndi hann það strax.“

Jónbjörg var með lélegt sjálfstraust þegar hún fór og hitti …
Jónbjörg var með lélegt sjálfstraust þegar hún fór og hitti lýtalækni fyrir sjö árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fórst þú í aðgerðina á eigin kostnað?

„Heilsan var orðin það slæm að ég setti það ekki fyrir mig. Ég dreifði bara afborgununum, ég hafði ekkert annað val. Ég veit að það eru margar sem safna sér fyrir þessu en aðgerðin kostar alveg hátt í milljón,“ segir Jónbjörg sem lét bæði fjarlægja púða og þann örvef sem hafði myndast utan um púðana.

Útlitið er bara kápa

Jónbjörg er ekki mótfallin því að fólk fari í fegrunaraðgerðir. Hún hvetur fólk þó til þess að vera upplýst áður en það tekur stórar ákvarðanir á borð við þá sem hún tók.

„Mér finnst finnst það megi gefa konum betri upplýsingar um aðgerðina. Ég held að margar myndu sleppa því í dag, vitandi af skaðseminni. Ég hefði ekki farið í aðgerðina 2015 ef ég hefði vitað allt þetta, ef umræðan hefði verið orðin svona mikil. Læknirinn lét mig ekki fá upplýsingar, ég fékk ekki að vita neitt um innihaldsefni púðanna, ég fékk engan bækling, ekki neitt. Ég kom bara inn þarna með lágt sjálfsmat. Ég vildi bara ekki vera með brjóst sem löfðu niður á nafla og mér leið illa þannig. „Já, við skellum í þig sílikonpúðum,“ sagði læknirinn. Ég vissi ekki neitt. Ég vil að konur viti af hættunni,“ segir Jónbjörg. Henni var ekki bent á að tala við sálfræðing eða annan fagaðila, áður en henni var skellt upp á skurðarborðið.

„Útlitið mitt er bara kápa. Það hefur ekkert að gera með hver ég er, það skilgreinir mig ekki. Ég hef verið grönn á þessu tímabili og ég hef verið feit á þessu tímabili og ég hef verið þarna á milli. Andlega heilsan varð ekkert betri þótt ég yrði grönn,“ segir Jónbjörg þegar hún er spurð hvað hún myndi segja við yngri útgáfuna af sjálfri sér. 

„Aflaðu þér upplýsinga um það sem þú ætlar að setja í líkama þinn. Ekki fara í vanlíðan og taka ákvörðun um að setja aðskotahlut í líkamann sem sem getur gjörsamlega rænt þig lífinu, þeir gera það í svo mörgum tilfellum. Ég veit um svo margar sem hafa orðið jafnveikar og ég eða jafnvel veikari,“ segir Jónbjörg. 

Í dag er Jónbjörg full sjálfstrausts og það stendur ekki á svörum þegar blaðamaður spyr hana út í brjóstin sem hún er með í dag.

„Mér gæti ekki verið meira sama. Maðurinn minn á alveg stóran þátt í því. Ég hafði áhyggjur af því að hann yrði ekki ánægður með mig. Hann er svo mikill klettur og er mjög hvetjandi. Hann sagði: „Ég vil bara hafa þig“,“ segir Jónbjörg, ánægð með manninn sinn.

Hún horfir horfir björtum augum til framtíðar. Hún vonast til þess að klára grunnnámskeið í björgunarsveit sem hún þurfti að hætta á, þegar heilsunni hrakaði á sínum tíma. Hún segist lifa fyrir að hjálpa öðrum og gefa af sér og stefnir á að gera það einn daginn í björgunarsveit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál