„Þarf ekki að tilheyra karli til að lifa af“

Valgerður Ólafsdóttir, rithöfundur og sálfræðingur, er ljóslifandi dæmi þess hversu …
Valgerður Ólafsdóttir, rithöfundur og sálfræðingur, er ljóslifandi dæmi þess hversu öflugt það er þegar sérfræðingar landsins setjast niður og skrifa skáldsögur. mbl.is/Árni Sæberg

Valgerður Ólafsdóttir, rithöfundur og sálfræðingur, er á því að ofbeldi þrífist í þögn og skömm. Það sé einskonar skuggavera sem þolir ekki sólina. Hún er ánægð með þá sem hafa sent tröll sín út í sólarljósið þar sem þau verða að steini. Sýnileg öðrum.

Bók Valgerðar, Konan hans Sverris, sem kom út í fyrra, sýnir hversu mikilvægt er að alls konar fagfólk komi að ritlistinni. Enda geta án efa flestir speglað sig í sögunni eða í það minnsta þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem hefur lent í ofbeldi. Valgerður er bæði sálfræðingur og kennari að mennt. Hún hefur unnið við hvort tveggja til skiptis og samtímis síðustu 12 árin, allt frá því að hún lauk háskólanámi.

Svona lýsir hún í stuttu máli bókinni sinni: „Konan hans Sverris er skáldverk um Hildi, sem er fráskilin tveggja barna móðir. Í sögunni segir Hildur sögu sína. Hún beinir frásögninni til fyrrverandi mannsins síns, Sverris, og segir frá minningum sínum af óheilbrigðu sambandi þeirra. Sagan gefur lesanda mynd af því hvernig Hildur sér samhengi hlutanna eftir að hún er komin út úr sambandinu við Sverri. Þetta er saga um ótta og vanmátt en líka um hugrekki og sátt,“ segir Valgerður.

Óttinn er sterkt afl í lífinu

Sagan er bæði flókin og einföld í senn.

„Hún er einföld, því á vissan hátt eru sambönd eins og samband Hildar og Sverris víða svipuð. Hildur og Sverrir snúast í hringiðu sem er kunnugleg mörgum þeim sem verið hafa í sambandi af þessu tagi. Flókin, því tilfinningalíf fólks er ekki einfalt og það getur verið erfitt að skilja hvað óttinn er sterkt afl í lífinu og hvað það þarf að beita miklu afli til að rífa sig úr viðjum hans,“ segir Valgerður.

Nú er ofbeldi alls konar og margar konur eru að átta sig á því að þær hafa snúið blinda auganu að því. Nokkuð sem margar læra í æsku.

Hefur þú heyrt um slíkt?

„Já, ég held að það sé samfélagsmein að við látum eins og ekkert sé þegar ofbeldi er annars vegar.“

Telur þú að það þurfi að kenna uppbyggileg samskipti í skólakerfinu?

„Mér finnst mikilvægt að samskipti séu kennd markvisst í skólakerfinu, þá jafnvel sem hluti af geðræktarkennslu. Geðrækt ætti að vera grunnstoð í námi á öllum skólastigum, ekki síður en líkamsrækt og sund. Geðheilsan er svo stór hluti af heilsunni og það þarf að kenna fólki að hlúa að henni. Geðheilsa og samskipti hanga á sömu spýtunni og samskiptafærni er meðal annars lykill að tengslum og nánd sem eru svo mikilvæg fólki. Félagsleg samskipti eru ein af grunnþörfum mannsins, rétt eins og hreyfing, svefn og næring.“

Finnst þér munur á viðhorfi ólíkra kynslóða til ofbeldis? Er meira eða minna umburðarlyndi fyrir ofbeldi í dag en áður, að þínu mati?

„Jú að vissu leyti breytist menning milli kynslóða en um leið virðist sumt endurtaka sig kynslóð eftir kynslóð. Það á til dæmis við um óhamingjusöm og ofbeldisfull ástarsambönd. Upp á síðkastið hefur verið mikil vakning og umræða í gangi um hvað sé ofbeldi. Hugrakkt fólk hefur verið tilbúið að segja frá sinni reynslu, í því skyni að reyna að bæta samfélagið. Ofbeldi þrífst í þögn og skömm. Það er skuggavera, tröll sem þolir ekki sólina. Ýmsir hafa nú sent þessi tröll sín út í sólarljósið og þar með verða þau að steini og sýnileg öðrum. Ég hef trú á að allar þessar frásagnir og þessi opnun minnki umburðarlyndi fyrir ofbeldi.“

Að vissu leyti breytist menning milli kynslóða en um leið …
Að vissu leyti breytist menning milli kynslóða en um leið virðist sumt endurtaka sig kynslóð eftir kynslóð. Það á til dæmis við um óhamingjusöm og ofbeldisfull ástarsambönd að mati Valgerðar. mbl.is/Colourbox

Konur oft nafnlausir makar

Valgerður var alin upp af sjálfstæðri og sterkri móður og á þar að auki margar aðrar fyrirmyndir í sjálfstæðum konum.

„Ég er einstæð þriggja barna móðir og finnst ég ekki þurfa að „tilheyra karli“ til að lifa af. Ég held þó að sama hvernig fólk er alið upp, þá hafi pör tilhneigingu til þess að verða samofin hvort öðru þegar fólk leggur tilfinningar sínar að veði í ástarsambandi - hvort sem sambandið einkennist af heilbrigðri eða sjúkri ást. Og það tíðkast svo sannarlega að kenna fólk við maka, ekki síst konur við menn sína. Það þarf ekki annað en að fletta blöðum til að koma auga á það hversu oft konur eru nafnlausir makar eiginmanna sinna eða kærasta, á opinberum vettvangi.

Ef þú slærð orðaparið „konan hans“ inn í Google þá leggur leitarvélin til fjölmarga möguleika á konum hinna og þessara manna. Ef þú, hins vegar, slærð inn orðaparið „maðurinn hennar“ þá koma ekki tillögur að mönnum sem kenndir eru við konurnar sínar. Fólk virðist því leita, á Google, að konum hinna og þessara manna - en ekki mönnum kvenna. Sem segir kannski eitthvað um menningu okkar.“

Valgerður á syni og dóttur og óskar þeim öllum þess sama þegar kemur að samböndum í framtíðinni.

„Að þau séu sátt í sínum eigin félagsskap og finni í sér styrk og þor til að gefa af sér og tengjast fólki. Ég vona að þau upplifi nánd og traust í góðu jafnvægi með félögum sem leyfa ljósi þeirra að skína og að þau séu einnig þannig félagar sjálf. Góð samskipti einkennast af vexti og trausti, ekki ótta og niðurbroti. Uppbyggileg samskipti gefa meira en þau taka, eru gefandi á gagnkvæman hátt. Ég reyni að ala börnin mín upp við það. Svo finnst mér mikilvægt að þau átti sig á muninum á ágreiningi og ofbeldi.

Ég held að við sem samfélag séum stundum blind á ofbeldi og valdbeitingu, ruglum því jafnvel saman við ágreining, ekki síst í nánum samskiptum. Setningin „sjaldan veldur einn þá tveir deila“ á ekki við um ofbeldi. Ofbeldishegðun snýst fyrst og fremst um að hafa völd yfir annarri manneskju, brjóta niður varnir hennar og láta hana efast um sig sem manneskju. Ofbeldi snýst ekki um að finna sameiginlega niðurstöðu, sátt og samkomulag. Ég held að fólk sé stundum blint á muninn á þessu tvennu.“

Aðrir miðlar búa ekki yfir sömu göldrum

 Valgerður er stöðugt að skrifa og ætlar að halda því áfram. „Mig langar að senda fleira frá mér - en sjáum til hvað verður. Allt hefur sinn tíma.“

Við lærum með því að lesa sögur og í gegnum …
Við lærum með því að lesa sögur og í gegnum þær er hægt að spegla ýmislegt innra með okkur sjálfum og í umhverfinu. mbl.is/Colourbox
Af hverju ætti að segja sögu eins og Konuna hans Sverris í bók?
„Jú – vegna þess að skáldskapurinn er svo magnaður. Í sögum kemst lesandi alla leið inn í hugann á sögupersónum en aðrir miðlar búa ekki yfir sömu göldrum. Einmitt þess vegna geta skáldverk hjálpað lesendum við að setja sig í spor alls kyns fólks og við að skilja mismunandi aðstæður. Til dæmis af hverju Hildur var öll þessi ár í þessu erfiða sambandi við hann Sverri og hvað varð til þess að hún fór að lokum. Lestur getur aukið samkennd og skilning á mismunandi aðstæðum og hleypt lesendum inn í nýja hugarheima.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál