Orðið fyrir fordómum vegna greininga sonar síns

Berglind er tveggja barna móðir og hefur þurft að berjast …
Berglind er tveggja barna móðir og hefur þurft að berjast með kjafti og klóm fyrir eldri syni sínum.

Berglind, 35 ára tveggja barna móðir í Kópavoginum, segist finna fyrir miklum fordómum vegna þess að sonur hennar sé á lyfjum. Hún á tvo syni og hefur þurft að berjast með kjafti og klóm fyrir eldri syni sínum í kerfinu. Berglind er nýjasti gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpsþáttunum Sterk saman. 

Eldri sonur Berglindar er níu ára gamall, með fimm greiningar og þykir Berglindi líklegt að hann fái sjöttu greininguna í haust. Hún hefur lengi þurft að berjast fyrir honum en hann fór fyrst í forgreiningu á leikskóla, þá þriggja ára gamall.

„Sonur minn er yndislegur, með sínum kostum og göllum en hann þarf vissulega stuðning og aðstoð. Hann talar um að ætla að drepa sig og mig“, segir hún og bætir við að BUGL hafi vísað málinu frá því hann þyrfti fyrst að skaða sig.

Faðir drengsins er lítið sem ekkert inni í lífi drengsins og hefur í raun aldrei verið regluleg umgengni en gagnvart kerfinu hefur hann samt völd í þeirra lífi.

Tilkynnti sjálfa sig til barnaverndar

Berglind talar opinskátt um þær hindranir sem verða á vegi foreldra barna með fjölþættan vanda, barna sem passa ekki í box samfélagsins og skólakerfisins. „Ég hef upplifað og fundið fyrir miklum fordómum gagnvart því að barnið mitt sé á lyfjum til dæmis. Í mínum huga munu lyfin ekki lækna neitt en þau eru hjálpartæki og halda einkennum niðri auk þess að láta mínu barni líða betur“.

Berglind hefur eftir sínum geðlækni að hún sé í svokallaðri foreldrakulnun, hún er með öll einkenni kulnunar og kerfið sé hreinlega búið að bregðast henni og börnunum hennar. Berglind hefur sjálf tilkynnt sig til barnaverndar til þess að reyna að fá aðstoð fyrir barnið sitt og sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál