Leitaði að hamingjunni á Google

Davíð Tómas Tómasson brennur fyrir því að hjálpa öðrum að …
Davíð Tómas Tómasson brennur fyrir því að hjálpa öðrum að bæta sig og verða betri útgáfa af sjálfum sér. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Á degi sjö af ellefu í þöglum hugleiðslubúðum í suður Taílandi fékk Davíð Tómas Tómasson mikla hugljómun sem varð síðar uppspretta að nýjum fyrirlestri hans, Innri samskipti.

Eftir áratuga sjálfsvinnu og mikla þekkingaröflun á sviði andlegrar heilsu og samskipta áttaði hann sig á því að grunnurinn að raunverulegri hamingju lægi í samskiptunum sem við eigum við okkur sjálf. Þau samskipti eru oftar en ekki vanrækt og lítið um þau talað, en Davíð er staðráðin í að breyta því og miðlar nú reynslu sinni og þekkingu til annarra, enda brennur hann fyrir því að sjá aðra bæta sig. 

Davíð hefur náð ótrúlegum árangri og eftir þrotlausa vinnu síðustu ár hefur honum tekist að vinna sig í gegnum fjölda áfalla og erfiðleika og í kjölfarið öðlast einstakt hugarfar og fallega sýn á lífið. Í dag starfar Davíð sem Boot Camp þjálfari, fyrirlesari og er þar að auki með fremstu körfuboltadómurum landsins. Það er ekki erfitt að fá innblástur frá Davíð sem leyfði okkur að skyggnast inn í líf hans og vegferðina að bættri heilsu.

„How to be happy“

Margir þekkja Davíð úr tónlistarheiminum sem rapparann Dabba T, en hann skaust ungur upp á stjörnuhimininn og gaf út hvern smellinn á eftir öðrum. Síðan hefur vegferð Davíðs verið löng og á köflum erfið, en andlega vegferð hans hófst árið 2012 þegar hann var 25 ára gamall. Þá hafði hann sagt skilið við neysluna og óregluna sem einkenndu unglingsár hans og var staðráðin í því að finna gleðina á ný.

Hér er Davíð á hátindi rapparaferilsins, 19 ára gamall.
Hér er Davíð á hátindi rapparaferilsins, 19 ára gamall. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

„Þarna áttaði ég mig á því að ég mundi ekki hvenær ég hafði síðast verið raunverulega hamingjusamur,“ segir Davíð, en hann fór í kjölfarið á fullt að leita sér hjálpar, meðal annars hjá sálfræðingi. „Á þessum tíma vissi maður voða lítið um þessi mál svo ég fór bara á Google og skrifaði „how to be happy“.“

Á Google komu upp ýmsar leiðir að hamingjunni, en að sögn Davíðs voru þær þó misgóðar. Hann kom þó auga á aðferð sem kallast „yes man“ og fór í kjölfarið að prófa sig áfram í því, en það þýddi að hann þurfti að umturna hugarfari sínu. Stuttu áður hafði Davíð áttað sig á hve neikvætt hugsanamynstur hans væri, en það sem byrjaði eins og hver önnur bíóferð með vinunum varð að miklum vendipunkti í lífi hans. 

„Í bíóinu fór ég í nýjan sjálfsala sem ég hafði ekki séð áður til að kaupa mér Pepsi. Sjálfsalinn lét mig fá Pepsi og svo kom einhver vélræn rödd sem sagði „takk fyrir að velja Ölgerðina“. Það fyrsta sem kom upp í hugann á mér var bara grjóthaltu kjafti þarna helvítis vélmennið þitt,“ segir Davíð. „Svo tók ég gosið mitt og hugsaði með mér að þetta væri nú ekki eðlilegt. Það var þarna sem ég fór að skoða hugarfarið hjá mér og áttaði mig á því hvað ég hugsaði rosalega neikvætt til annarra sem speglaðist síðan yfir í að hugsa neikvætt um mig sjálfan.“

Leiðin að íþróttamanninum

Í kjölfarið tók við ákveðið „yes man“ tímabil hjá Davíð, en þegar horft er til baka var mikil lukka að Davíð hefði farið á leitarvefinn Google í leit að hamingjunni, enda margt gott sem kom í kjölfar þessa tímabils. „Allt í einu var ég farinn að fara í sjósund og fallhlífarstökk og gera allskonar hluti sem ég hefði annars aldrei gert. Ég fann mig fljótt mjög sterkt í þessum hlutum þegar ég fór loksins að prófa þá, og eitt af því var Boot Camp.“

„Vinkona mín sagði mér frá Boot Camp þegar ég var búinn að vera einn að lyfta lóðum í World Class í þrjá mánuði, en þá var ég bara nýbyrjaður að hreyfa mig og hafði aldrei gert það áður á ævinni,“ segir Davíð, sem ákvað út frá „yes man“ pælingunni að slá til og fór í prufutíma í Boot Camp. Eftir það var ekki aftur snúið. „Ég var algjörlega seldur eftir fyrsta Boot Camp tímann, enda fann ég fljótt að mér fannst ekki alveg nógu skemmtilegt að mæta klukkan sex á morgnanna í ræktina til að krulla bísepinn í speglinum.“

„Ég var kannski búinn að vera í fimm vikur í Boot Camp þegar ég fann að ég vildi vera þar alltaf. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti verið þar alltaf og ákvað að ég yrði að komast að í þjálfun. Ég hafði svo sem engan sérstakan áhuga á þjálfun, það var engin sérstök köllun heldur var það andinn þarna inni sem dró mig svo að þessu. Ég byrjaði strax að pikka í öxlina á eigandanum, Robba, og spyrja hvort þeim vanti ekki þjálfara. Honum fannst það örugglega mjög furðulegt, einhver gaur sem er búinn að vera æfa í fimm vikur að vilja koma og þjálfa,“ segir Davíð og hlær. Á endanum skilaði það sér þó þar sem Davíð byrjaði ári síðar á fullu í þjálfun, sem hann gerir enn í dag.

Það er nóg um að vera hjá Davíð, en hann …
Það er nóg um að vera hjá Davíð, en hann kom nýlega inn í fyrirtækið Moodup.is sem vinur hans, Björn, stofnaði. Fyrirtækið er hugbúnaðarlausn sem mælir starfsánægju hjá fyrirtækjum. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Körfuboltinn kveikti samskiptaáhugann

Samhliða þjálfuninni hefur Davíð verið að gera það gott í körfuboltaheiminum og er með fremstu körfuboltadómurum landsins. Hann elti systur sína í körfuboltann þegar hann var ungur, en hætti 16 ára gamall þegar hann áttaði sig á því að hann yrði aldrei körfuboltastjarna. Í kjölfarið hófst dómaraferillinn. „Það er eiginlega í kringum það sem áhugi minn á samskiptum kviknaði. Í dómarastarfinu er maður í rosalega mikið af dýnamískum tilfinningaþrungnum samskiptum. Maður er kannski með þúsund manns að púa á sig, þjálfara sem er rauður í framan og maður verður einhvernvegin að díla við það með samskiptum.“

Davíð við myndbandsgæslu á körfuboltaleik.
Davíð við myndbandsgæslu á körfuboltaleik. Ljósmynd/Árni Sæberg

Davíð hefur sett mikinn metnað í dómaraferilinn sem hefur skilað honum miklum árangri. „Þegar ég var 25 ára fór ég „all in“ að dæma og setti mér það markmið að verða alþjóðlegur dómari. Í kjölfarið fór ég út í miklar pælingar varðandi hvað það er sem gerir frábæran dómara að frábærum dómara og fór að þylja upp ýmis atriði. Stór partur af því var líkamstjáning og samskipti, að geta haft stjórn á eigin tilfinningum inn á vellinum og slíkt.“

Í kjölfarið hófst fjögurra ára vinna þar sem Davíð fór á fullt að afla sér þekkingar um samskipti, lesa bækur, fara til íþróttasálfræðinga og skoða líkamstjáningu á vellinum.

„Talaði við sjálfan mig allan daginn alla daga“

Árið 2016 afsalaði Davíð sér öllum þægindum og fór í ellefu daga þöglar hugleiðslubúðir í Taílandi. „Þar afsalar maður sér bara öllu sem maður á, þú mátt ekki hafa neitt með þér – enginn sími, penni eða blöð og sefur bara á steinbedda með viðarkodda. Svo er maður ræstur út klukkan hálf fimm alla morgna, og svo er hugleiðsla og jóga allan daginn til klukkan tíu á kvöldin. Svo er bannað að tala allan tímann,“ útskýrir Davíð. 

„Þú ert í raun að neita þér um öll þægindi og allt það sem góða lífið hefur upp á að bjóða og ert bara að fókusa inn á við. Þegar við erum í þögninni erum við rosalega vön að taka upp símann eða kíkja á netið, maður er einhvernvegin að flýja þessar aðstæður að þurfa sitja einn með sjálfum sér. Þarna er allt svoleiðis bara tekið af þér, þú hefur ekkert val um að flýja neitt heldur verður þú bara að sitja og díla við draslið sem kemur til þín,“ segir Davíð.

Davíð segir hugleiðslubúðirnar vera eitt það besta sem hann hafi gert í lífinu, en á sama tíma hafi það verið ótrúlega krefjandi. „Það að geta ekki talað varð svo bara það sem var minnst erfitt. Það sem var erfiðast var að þurfa að sitja og díla við allt draslið og ruglið sem hefur gengið á lífinu manns. Maður þarf bara að horfast í augu við allt og það var á þessum tímapunkti sem ég sá og fann að þó svo ég væri ekki að tala við neinn þá var ég í samskiptum við sjálfan mig allan daginn.“ 

Innri samskipti Davíðs við hann sjálfan voru að hans sögn algjörlega ömurleg fyrstu dagana. „Ég var stanslaust að bera mig saman við alla sem voru á staðnum og það voru allskonar hugsanir sem herjuðu á mig,“ segir Davíð. Seinna þegar hann fór svo að púsla saman fyrirlestrinum sínum komst hann að því að lítið efni væri til um innri samskipti. „Ég fór í mikla rannsóknarvinnu og sá að það voru margir fyrirlesarar sem töluðu um samskipti, en þeir voru aðallega að tala um þessi yrtu samskipti, líkamstjáningu, virka hlustun og slíkt. Það sem kom mér svo á óvart var að rosalega fáir tala um mikilvægi þessara samskipta sem við eigum við okkur sjálf.“

Davíð segir innri samskipti spila gríðarlega mikilvægt hlutverk, enda hafi þessi samskipti mikil áhrif á aðra þætti í lífinu. „Við verðum að skoða hvað þessi innri rödd okkar er að segja um okkur sjálf og annað fólk. Ef ég tala illa um sjálfan mig, hvernig get ég þá ætlast til þess að samskipti mín við annað fólk almennt séu góð? Hvernig getur líkamstjáningin mín verið sterk og góð ef ég er alltaf að segja sjálfum mér hvað ég er lélegur? Auðvitað síga axlirnar þá niður. Það sama á við um ef ég er alltaf að hugsa um hvað einhver er leiðinlegur, hvernig geta þá samskiptin mín við hann í orðum verið ljúf og góð? Á endanum er það ekki hægt.“ 

Hvað vil ég vera?

Síðasta áratuginn hefur Davíð unnið hörðum höndum að því að efla heilsu sína, bæði andlega og líkamlega. Ávinningurinn hefur verið gríðarlegur og hefur hann á vegferð sinni eflt sjálfsmynd sína til muna. „Sjálfsmyndin jókst hægt og rólega þegar ég fór að setja heilbrigða hluti inn í líf mitt. Málið er að ef ég sit bara á bak við tölvuskjá, borða bara óhollt og reyki rosa mikið þá mun líkaminn minn bregðast illa við því. Það sama á við um ef ég er bara alltaf að hugsa neikvætt um sjálfan mig og annað fólk, eða gera hluti sem eru brot á sjálfinu mínu, er að fara yfir mörk fólks og mín eigin mörk, þá fer sjálfsmyndin bara í mola.“

Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Að sögn Davíðs er fyrsta skrefið að setja inn hluti í líf sitt sem manni langar að láta ríma við sjálfsmynd sína. „Til dæmis bara að vera íþróttamaður. Hvernig verð ég íþróttamaður? Ókei ég verð þá að hætta að reykja og fara hreyfa mig, huga að mataræðinu og einhvernvegin fór ég svo að byggja þessa hluti upp og áður en ég veit af var ég orðinn íþróttamaður.“

Í kjölfarið opnuðust augu Davíðs fyrir því hvers megnugur hann væri og gæti orðið. „Ég hugsaði bara ókei hvað fleira vil ég vera? Ég vil vera blíður, ljúfur, kærleiksríkur og heiðarlegur í samskiptum – hvernig fer ég að því? Svo bara byrjaði ég að vinna í því. Það hefur verið löng og ströng vinna að búa til heilbrigt hugarfar gagnvart sjálfum mér, en ég sat hjá sálfræðingnum mínum um daginn og hann minnti mig á að horfa til baka og minna mig á hve langt ég er kominn,“ segir Davíð. 

Davíð segir sálfræðiaðstoðina hafa algjörlega breytt lífi sínu, og þó vegferðin hafi verið erfið sé hún líka falleg enda hefur Davíð tekið gríðarlegum framförum. Hann segir mikilvægt að muna að fyrstu mánuðina geti manni liðið eins og meðferðin sé ekkert að gera neitt voðalega mikið gagn. „Svo bara allt í einu fjórum til fimm mánuðum seinna sé ég bara að lífið er búið að snúast á hvolf og vá, þvílíkar framfarir.“

Hægt er að bóka fyrirlesturinn Innri samskipti fyrir fyrirtæki, skóla eða íþróttafélög inn á heimasíðu Davíðs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál