Ólafía Mjöll hefur verið 13 ár í hjólastól vegna læknamistaka

Ólafía Mjöll hefur verið bundin við hjólastól í 13 ár …
Ólafía Mjöll hefur verið bundin við hjólastól í 13 ár eftir læknamistök.

Ólafía Mjöll Hönnudóttir er fertug, tveggja barna móðir og amma úr Hafnarfirði. Síðustu 13 ár hefur hún verið bundin við hjólastól vegna læknamistaka. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.

Árið 2009, þá 27 ára, hafði hún fundið fyrir miklum verkjum í lengri tíma og leitað læknis.

„Ég var búin að fara nokkrum sinnum en ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Það kom í ljós sex mánuðum og miklum verkjum seinna að þetta voru gallsteinar,“ segir Ólafía Mjöll í hlaðvarpsþættinum. 

Ólafía Mjöll fór í aðgerð til að láta fjarlægja gallblöðruna.

„Læknirinn gerði mistök í aðgerðinni. Ég kom aftur upp á spítala einhverju seinna og þá voru augun orðin gul og mér leið ekki vel.“

Ólafía Mjöll segir að læknirinn hafi ekki trúað henni. 

„Hann sagði að ég myndi ekki taka eftir því ef augun myndu byrja að gulna en stelpa sem horfir í augun á sér alla daga og setur á sig maskara, tekur eftir því. Ég fékk það í gegn að fara í blóðprufu og hafði rétt fyrir mér. Ég var komin með líffærabilun og þurfti aðra aðgerð til að lagfæra mistökin úr fyrri aðgerðinni,“ segir hún. 

Ólafía Mjöll segist meta það mikils að læknirinn sem gerði fyrri aðgerðina hafi komið til hennar og sagt henni að hann hefði gert mistök. 

Seinni aðgerðin gerði það að verkum að Ólafía Mjöll hefur verið föst í hjólastól í 13 ár.

„Ég vaknaði tveimur vikum seinna og vissi ekkert, kunni ekkert og þurfti að læra allt upp á nýtt,“ segir hún. 

Í hlaðvarpsþættinum talar hún um reiðina sem var við völd til að byrja með. Hún segir einnig frá því hvernig hún komst áfram á þrjósku og viljastyrk.

„Ég var í 14 mánuði á Grensási vegna þess að ég neitaði að játa mig sigraða og búa á sambýli eins og mér var sagt að ég ætti að gera,“ segir Ólafía Mjöll. 


 

mbl.is